Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,75 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 5,5%.
Tengt efni
Þrátt fyrir lakari alþjóðahorfur hafa hagvaxtarhorfur hér á landi batnað frá maíspá bankans. Bráðabirgðatölur þjóðhagsreikninga benda til þess að efnahagsumsvif hafi verið kröftugri á fyrsta fjórðungi ársins en gert hafði verið ráð fyrir í maí. Þar munar mest um mikinn vöxt neysluútgjalda heimila. Vísbendingar eru einnig um áframhaldandi mikinn vöxt einkaneyslu á öðrum fjórðungi ársins og virðist sem heimilin hafi dregið hraðar úr sparnaði en gert var ráð fyrir í
síðustu spá bankans. Þá fjölgaði ferðamönnum á landinu hraðar í sumar en spáð var í maí og innlendum fyrirtækjum virðist hafa tekist betur að leysa úr framboðshnökrum sem mynduðust í kjölfar stríðsins í Úkraínu. Gert er ráð fyrir að hagvöxtur verði 5,9% í ár sem er 1,3 prósentum meiri vöxtur en spáð var í maí. Líkt og þá er spáð að hagvöxtur á næstu tveimur árum verði um 2% á ári.
Verðbólga hefur aukist enn frekar og mældist 9,9% í júlí. Þótt hækkun húsnæðisliðar vísitölu neysluverðs og hækkanir á alþjóðlegu olíu- og hrávöruverði vegi þungt er verðbólgan almenns eðlis: án húsnæðisliðar er hún 7,5% og undirliggjandi verðbólga mælist 6,5%. Verðbólguvæntingar hafa jafnframt haldið áfram að hækka á flesta mælikvarða. Talið er að verðbólga eigi eftir að aukast enn frekar og verði komin í 10,8% á fjórða ársfjórðungi en hjaðni síðan smám
saman. Verðbólguhorfur hafa því versnað enn á ný sem endurspeglar töluvert kröftugri vöxt innlendrar eftirspurnar en gert var ráð fyrir í maí, horfur á hægari hjöðnun verðhækkana á húsnæðismarkaði og lakari verðbólguhorfur í helstu viðskiptalöndum.
Óvissa í efnahagsmálum hefur aukist vegna stríðsins í Úkraínu. Stríðsátökin hafa valdið miklu umróti á alþjóðlegum hrávörumörkuðum og sett viðskiptasambönd og aðfangakeðjur í uppnám. Erfitt er að sjá fyrir hve djúpstæð og langvinn þau áhrif verða og horfur gætu versnað enn frekar
lokist fyrir innflutning á jarðgasi frá Rússlandi til Evrópu. Þá hefur svartsýni heimila hér á landi og alþjóðlega aukist í kjölfar átakanna og erfitt er að meta að hve miklu leyti aukin svartsýni
mun lita útgjaldaákvarðanir þeirra þegar líður á árið og fram á næsta ár. Verðbólguhorfur í spá bankans gætu einnig reynst of bjartsýnar, sérstaklega ef fyrirtæki fara í vaxandi mæli að velta
kostnaðarhækkunum út í verðlag og ef víxlverkun launa og verðlags fer af stað sem gæti valdið því að mikil verðbólga festist enn frekar í sessi.