Tengt efni
Fjármálastöðugleiki í hnotskurn
Heimilin nýttu sér lágt vaxtastig í farsóttinni til að endurfjármagna útistandandi skuldir og fjárfesta einkum í fasteignum og ökutækjum. Raunvöxtur skulda heimila náði hámarki á öðrum og þriðja fjórðungi síðasta árs þegar hann mældist tæplega 7% milli ára. Verulega hefur nú hægt á vextinum og mælist hann lítillega neikvæður í júlí sl. Skuldsetning heimila mæld sem hlutfall af ráðstöfunartekjum eða landsframleiðslu er samt lág í sögulegu samhengi. Skuldsetningin ætti því að vera flestum heimilum viðráðanleg. Þó er ljóst að hærra vaxtastig og aukin verðbólga þyngir
greiðslubyrði heimila og viðbúið er að vanskil aukist.
Lausafjárhlutföll stóru viðskiptabankanna þriggja hafa lækkað á síðustu mánuðum og eru nú álíka og þau voru fyrir útbreiðslu farsóttarinnar. Lausafjárstaða þeirra allra er nokkuð yfir lágmörkum Seðlabankans. Aukin samkeppni er um innlán og markaðsaðstæður til skuldabréfaútgáfu bæði hér á landi og erlendis hafa verið krefjandi á síðustu mánuðum. Vaxtaálag á erlenda markaðsfjármögnun bankanna hefur farið hækkandi og endurfjármögnunaráhætta bankanna í
erlendum gjaldmiðlum hefur aukist.