Fara beint í Meginmál

Peningamál 2023/4 22. nóvember 2023

Ritið Peningamál 2023/4 hefur verið birt hér á vef Seðlabanka Íslands. Í Peningamálum gerir Seðlabankinn grein fyrir horfum í efnahags- og peningamálum. Ritið kemur út fjórum sinnum á ári.

Í byrjun maí og byrjun nóvember er þar birt verðbólgu- og þjóðhagsspá ásamt ýtarlegri umfjöllun um þróun og horfur í efnahags- og peningamálum. Í febrúar og ágúst er birt uppfærð verðbólgu- og þjóðhagsspá með styttri umfjöllun um þróun og horfur efnahags- og peningamála. Greiningin og spáin gegnir síðan mikilvægu hlutverki við mótun peningastefnunnar.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 9,25%.

Vefútsending

Vefútsending vegna yfirlýsingar peningastefnunefndar og útgáfu Peningamála

Tengt efni

Myndagögn PM 2023/4

Í hnotskurn

Alþjóðlegur hagvöxtur hefur gefið eftir í kjölfar mikilla kostnaðarhækkana og hækkunar framfærslukostnaðar heimila. Líkt og í ágúst er spáð að hagvöxtur í helstu viðskiptalöndum verði um 1% í ár og á næsta ári. Horfur eru jafnframt á áframhaldandi hjöðnun alþjóðlegrar verðbólgu. Undirliggjandi verðbólga hefur þó minnkað hægar og útlit fyrir að vextir helstu seðlabanka heimsins haldist áfram háir.
Hagvöxtur hér á landi mældist 5,8% á fyrri hluta ársins sem er 0,4 prósentum meiri vöxtur en gert hafði verið ráð fyrir í ágústspá Peningamála. Þótt hægt hafi á vexti einkaneyslu vegur innlend eftirspurn þungt í vexti efnahagsumsvifa það sem af er ári. Við bætast hagstæð utanríkisviðskipti drifin áfram af miklum vexti í ferðaþjónustu. Horfur eru á að hagvöxtur verði 3,7% á árinu öllu en í ágúst var því spáð að hann yrði 3,5%. Það er því útlit fyrir að töluvert dragi úr hagvexti frá fyrra ári þótt vöxturinn sé áfram vel yfir því sem talið er vera langtímahagvaxtar geta þjóðarbúsins. Líkt og í ágúst er talið að áfram hægi á hagvexti og að hann verði um 2¾% á ári að meðaltali á næstu þremur árum.
Enn er spenna á vinnumarkaði og atvinnuleysi er lítið. Hins vegar hefur hægt á fjölgun starfa og atvinnuleysi virðist hafa náð botni. Grunnspáin gerir ráð fyrir að það taki að aukast eftir því sem spennan í þjóðarbúinu minnkar og verði komið í 4,8% á næsta ári en þokist síðan niður í 4% á seinni hluta spátímans.
Verðbólga mældist 7,9% í október og minnkaði lítillega milli mánaða. Undirliggjandi verðbólga minnkaði einnig og vísbendingar eru um að tekið sé að draga úr hraða verðbólgunnar þótt hún sé áfram mikil og á breiðum grunni. Horfur eru á að hún breytist lítið það sem eftir lifir árs og að hún hjaðni hægar á næsta ári en áður var vænst. Spennan í þjóðarbúinu virðist heldur meiri en gert var ráð fyrir í ágúst og gengi krónunnar hefur verið lægra en þar var spáð. Þá eru vísbendingar um að kostnaðarhækkanir hafi meiri og þrálátari áhrif á verðbólgu en áður. Samkvæmt grunnspánni verður verðbólga tæplega 5% í lok næsta árs og fer ekki undir 3% fyrr en á seinni hluta árs 2026.
Framboðshlið heimshagkerfisins er að mestu komin í eðlilegt horf eftir áföll undanfarinna ára og hrávöruverð utan orkugjafa hefur lækkað. Útlitið er hins vegar tvísýnt, ekki síst í ljósi áframhaldandi stríðsátaka í Úkraínu og fyrir botni Miðjarðarhafs. Þá er enn óvissa um á hversu traustum fótum batinn í helstu iðnríkjum og í Kína stendur. Á sama tíma og mæld verðbólga hefur minnkað hefur undirliggjandi verðbólga reynst þrálát. Verðbólguhorfur eru einnig óvissar hér á landi enda virðist kjölfesta verðbólguvæntinga hafa laskast og framundan eru kjaraviðræður sem gætu sett horfur um áframhaldandi hjöðnun verðbólgu í uppnám. Þá hefur óvissa aukist innanlands í kjölfar aukinna jarðhræringa á Reykjanesi. Verði um stórt gos nálægt mikilvægum innviðum að ræða getur skaðinn orðið töluverður. Áhrifin á efnahagsumsvif gætu einnig orðið mikil ef um langvinnt gos yrði að ræða. Áhrifin gætu t.d. orðið veruleg á ferðaþjónustu og annan útflutning, afkomu hins opinbera og á gengi krónunnar og verðbólgu.

Rammagreinar

Í ritinu Peningamál 2023/4 má finna eftirfarandi sex rammagreinar auk þess sem hægt er að skoða yfirlit yfir áður útgefnar rammagreinar.
RammagreinBls.
Fráviksdæmi og óvissuþættir47
Uppsafnaður sparnaður heimila í kjölfar farsóttarinnar55
Hagnaður fyrirtækja og nýleg aukning verðbólgu61
Fjárlagafrumvarp fyrir árið 202467
Spár Seðlabankans um efnahagsþróun ársins 202272
Af hverju hefur verðbólgu ítrekað verið vanspáð síðustu tvö ár?80