Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 9,25%.
Vefútsending
Tengt efni
Í hnotskurn
Ástandið í alþjóðlegum efnahagsmálum er sem fyrr tvísýnt, ekki síst vegna stríðsátaka í Úkraínu og fyrir botni Miðjarðarhafs. Hagvöxtur í helstu viðskiptalöndum hefur verið lítill og óvissa er um hversu traustum fótum hann hvílir á. Óvissa hér á landi hefur einnig aukist í kjölfar eldsumbrota á Reykjanesskaga. Aðgerðir stjórnvalda til að bregðast við þessum hamförum gætu breytt efnahagshorfum frá því sem grunnspáin gerir ráð fyrir en erfitt er að meta áhrifin fyrr en umfang og útfærsla þeirra liggur fyrir. Niðurstaða yfirstandandi kjaraviðræðna og mögulegar aðgerðir í ríkisfjármálum þeim tengdar gætu einnig leitt til breytinga á efnahags- og verðbólguhorfum miðað við það sem grunnspáin gerir ráð fyrir. Þá er það áhyggjuefni að verðbólguvæntingar haldist háar sem gæti valdið því að erfiðara reynist að ná verðbólgu niður
í markmið en grunnspáin gerir ráð fyrir.