Afgangur á viðskiptajöfnuði við útlönd var 26,9 ma.kr. á þriðja ársfjórðungi 2025 eða 2,1% af landsframleiðslu og batnaði um 137,3 ma.kr. milli ársfjórðunga en er lakari sem nemur 14,1 ma.kr. miðað við sama fjórðung árið 2024. Vöruskiptajöfnuður mældist neikvæður um 101,6 ma.kr. en 137,4 ma.kr. afgangur var á þjónustujöfnuði. (Sjá á vef Hagstofunnar) Afgangur á frumþáttatekjum nam 6,2 ma.kr. en 15,1 ma.kr. halli á rekstrarframlögum. (tafla 1).
Vakin er athygli á óvenju stórri tekjufærslu í jöfnuð fjárframlaga en um er að ræða sölu á hugverkum íslensks líftæknifyrirtækis til erlends aðila.
Þetta kemur fram í nýbirtum upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands sem sýna bráðabirgðayfirlit yfir greiðslujöfnuð við útlönd á þriðja ársfjórðungi 2025 og erlenda stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.
Tafla 1: Greiðslujöfnuður
| Ma.kr. | 2024/3 | 2024/4 | 2025/1 | 2025/2 | 2025/3 |
|---|---|---|---|---|---|
Viðskiptajöfnuður | 41,0 | -84,9 | -56,9 | -110,4 | 26,9 |
Vöruskiptajöfnuður | -75,2 | -97,3 | -84,4 | -125,6 | -101,6 |
Þjónustujöfnuður | 131,7 | 53,1 | 17,8 | 58,8 | 137,4 |
Jöfnuður frumþáttatekna | -5,2 | -25,7 | 22,1 | -30,8 | 6,2 |
Rekstrarframlög, nettó | -10,3 | -15,0 | -12,4 | -12,7 | -15,1 |
Jöfnuður fjárframlaga | -0,3 | -1,0 | -1,0 | -1,0 | 160,7 |
Fjármagnsjöfnuður | 81,4 | -111,7 | -42,7 | -106,5 | 214,7 |
Bein fjárfesting | -11,5 | -346,6 | -109,4 | -58,3 | 111,1 |
Verðbréf | 27,5 | 183,1 | 65,7 | -96,2 | 23,5 |
Afleiður | -2,8 | -3,6 | 0,0 | -1,1 | -3,9 |
Önnur fjárfesting | 70,3 | 46,2 | 6,5 | 3,1 | 61,3 |
Gjaldeyrisforði | -2,1 | 9,2 | -5,6 | 45,9 | 22,7 |
Skekkjur og vantalið, nettó | 40,7 | -25,8 | 15,1 | 4,8 | 27,1 |
Í lok ársfjórðungsins var hrein staða við útlönd jákvæð um 2.101 ma.kr. eða 43,2% af vergri landsframleiðslu (VLF) og batnaði um 252 ma.kr. eða 5,2% af VLF á fjórðungnum. Erlendar eignir hækkuðu um 66 ma.kr. en skuldir lækkuðu um 149 ma.kr. vegna fjármagnsviðskipta. Gengis- og verðbreytingar hækkuðu virði eigna á ársfjórðungnum um 174 ma.kr. og skulda um 134 ma.kr. og leiddu því til 40 ma.kr. betri hreinnar erlendrar stöðu. Gengi krónunnar stóð í stað á fjórðungnum miðað við gengisskráningarvog. Verð á erlendum verðbréfamörkuðum hækkaði um 7% milli fjórðunga og verð á bréfum á innlendum hlutabréfamarkaði hækkuðu um 1,6%. Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 6.789 ma.kr. í lok ársfjórðungsins en skuldir 4.688 ma.kr.
Tafla 2: Breyting á erlendri stöðu þjóðarbúsins á milli ársfjórðunga
| Ma.kr. | Staða í lok 2025/2 | Fjármagnsjöfnuður | Gengis- og verðbreytingar | Aðrar breytingar | Staða í lok 2025/3 |
|---|---|---|---|---|---|
Erlendar eignir, alls | 6.560 | 66 | 174 | -11 | 6.789 |
Bein fjárfesting | 866 | -2 | 0 | 0 | 864 |
Verðbréf | 3.975 | 15 | 162 | 0 | 4.152 |
Afleiður* | 15 | -4 | 6 | 0 | 17 |
Önnur fjárfesting | 810 | 35 | 0 | -11 | 834 |
Gjaldeyrisforði | 893 | 23 | 6 | 0 | 922 |
Erlendar skuldir, alls | 4.711 | -149 | 134 | -8 | 4.688 |
Bein fjárfesting | 1.832 | -114 | 131 | -15 | 1.835 |
Verðbréf | 1.643 | -9 | 5 | 0 | 1.639 |
Afleiður* | 7 | 0 | -2 | 0 | 5 |
Önnur fjárfesting | 1.228 | -26 | 0 | 7 | 1.209 |
Hrein staða þjóðarbúsins | 1.850 | 215 | 40 | -3 | 2.101 |
(%) af VLF | 38,0% | 4,4% | 0,8% | -0,1% | 43,2% |
*Aðrar breytingar eru taldar undir gengis- og verðbreytingum fyrir afleiður.
Frétt nr. 20/2025
4. desember 2025