Ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og tengdir fundir fóru fram í Washington DC. í liðinni viku. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Tómas Brynjólfsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, tóku þátt í fundunum ásamt öðrum fulltrúum Seðlabanka Íslands.
Seðlabankastjóri er fulltrúi Íslands í sjóðsráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (e. Board of Governors), æðstu stofnun sjóðsins, og sat því ársfund sjóðsins, en hann sat jafnframt fundi fjárhagsnefndar sjóðsins (e. International Monetary and Financial Committee, IMFC). Seðlabankastjóri og aðrir fulltrúar bankans áttu jafnframt fundi með sérfræðingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, kjördæmi Norður- og Eystrasaltslanda hjá sjóðnum og fulltrúum lánshæfismatsfyrirtækja og alþjóðlegra fjármálafyrirtækja ásamt því að sækja málstofur og ráðstefnur á málefnasviði seðlabanka.
Fjárhagsnefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fundar tvisvar á ári. Á fundunum kynnir sjóðurinn mat sitt á stöðu og horfum í heimsbúskapnum, fjármálastöðugleika og ríkisfjármálum, auk þess sem framkvæmdastjóri sjóðsins kynnir stefnuyfirlýsingu sína (e. Global Policy Agenda, GPA). Í stefnuyfirlýsingunni og kynningum annarra forsvarsmanna sjóðsins kom m.a. fram að viðnámsþróttur í heimshagkerfinu hafi verið góður. Spáð sé hægari hagvexti á heimsvísu. Aukin verndarstefna, brotamyndun í alþjóðastjórnmálum og útbreidd skuldsetning margra ríkja hafa aukið óvissu og gætu haft neikvæð áhrif á alþjóðlega efnahagsframvindu. Yfirskrift ritsins World Economic Outlook var að þessu sinni Óstöðugt alþjóðahagkerfi og horfur áfram daufar (e. Global Economy in Flux, Prospects Remain Dim).
Hér má finna stefnuyfirlýsingu framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins: