Fara beint í Meginmál

Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar frá 31. október 2025 30. nóvember 2025

Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands fyrir 31. október 2025 hefur verið birt. Á fundinum fékk fjármálastöðugleikanefnd kynningu á nýlegum dómi Hæstaréttar í máli nr. 55/2024 frá 14. október 2025 og þróun á íbúðalánamarkaði sem fylgdi í kjölfarið, m.a. hvað varðar kjör og skilmála lánasamninga, fjármálaleg skilyrði heimila og framboð á íbúðalánum. Jafnframt var vikið að væntanlegum dómum Hæstaréttar í samskonar málum. Rakið var hvernig skilyrði á íbúðamarkaði hefðu þróast frá fundi nefndarinnar í september 2025 og samanburður gerður við aðstæður þegar lánþegaskilyrðin voru hert í júní 2022. Á fundinum var sömuleiðis farið yfir nýtingu undanþáguheimildar í reglum um greiðslubyrðarhlutfall en lánveitendur hafa aðeins nýtt hana að hluta síðustu misserin. Einnig var farið yfir dreifingu veðsetningarhlutfalls fyrstu kaupenda fyrir og eftir herðingu lánþegaskilyrðanna 2022. Kynnt var að Seðlabankinn myndi birta upplýsingar um fasta lánstímavexti sem m.a. gætu nýst aðilum á fjármálamarkaði, greiningaraðilum og ríkissjóði og stuðlað á hlutlausan og staðlaðan hátt að gagnsæi, ásamt betri samanburði og verðlagningu íslenskra fjármálaafurða.

Mat nefndarinnar var að töluverð óvissa ríkti á íbúðalánamarkaði í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 55/2024. Staða kaupenda fyrstu fasteignar og þeirra sem væru með lægri tekjur virtist sérstaklega hafa versnað.

Að lokinni umræðu lagði formaður fjármálastöðugleikanefndar til þrjár breytingar á lánþegaskilyrðum Seðlabankans. Tvær breytingar yrðu gerðar á reglum um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda, annars vegar yrði undanþáguheimild lánveitenda á hverjum ársfjórðungi hækkuð úr 5% í 10% af heildarfjárhæð veittra lána og hins vegar skyldi horft til heildarfjárhæðar veittra lána á undangengnum fjórðungi við útreikning hlutfalls undanþáguheimildarinnar í stað þess að miða við lánveitingar á þeim fjórðungi sem undanþáguheimildin nær til. Þá skyldi  hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til kaupenda á fyrstu fasteign hækkað úr 85% í 90%. Hámark veðsetningarhlutfalls fyrir aðra lántaka yrði óbreytt. Tillögurnar voru samþykktar einróma.

Sjá hér fundargerðina í heild sinni: