Samtök fjármálafyrirtækja óskuðu eftir að Seðlabanki Íslands tæki til skoðunar lokun á gamlársdag. Í kjölfarið hefur verið tekin ákvörðun um að gamlársdagur verði framvegis ekki viðskiptadagur hjá Seðlabankanum. Lokað verður fyrir viðskipti í stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands og á millibankamörkuðum með gjaldeyri og krónur þann dag. Kortauppgjörskerfi Seðlabankans verður jafnframt lokað. Verðbréfauppgjörskerfi hafa hingað til verið lokuð á gamlársdag.
Ljúka þarf greiðslum sem eiga að tilheyra árinu 2025 eigi síðar en hinn 30. desember nk. Kröfur sem þurfa að greiðast á árinu 2025 þurfa jafnframt að hafa eindaga eigi síðar en þriðjudaginn 30. desember. Allar færslur gerðar 31. desember 2025 verða bókaðar 2. janúar 2026.
Í samræmi við þessa ákvörðun voru gerðar breytingar á reglum nr. 1030/2020 um millibankagreiðslukerfi Seðlabanka Íslands sem birtar voru í Stjórnartíðindum 13. ágúst 2025, sjá hér.