Fara beint í Meginmál

Gjaldeyrismarkaður, gengisþróun og gjaldeyrisforði árið 2025 16. janúar 2026

Seðlabanki Íslands hefur birt yfirlitsfrétt um gjaldeyrismarkað, gengisþróun og gjaldeyrisforða á árinu 2025.

Gengi krónunnar hækkaði um 0,7% frá upphafi til loka ársins 2025. Heildarvelta á millibankamarkaði með gjaldeyri jókst á milli ára. Umrót á alþjóðlegum vettvangi olli því að gengisþróun krónunnar var ólík eftir gjaldmiðlum. Þannig lækkaði það gagnvart evru en hækkaði umtalsvert gagnvart bandaríkjadal. Sveiflur í gengi krónu voru ekki miklar í alþjóðlegum samanburði þrátt fyrir aukningu frá fyrra ári. Mesta umfang gjaldeyriskaupa Seðlabankans frá árinu 2017 átti sér stað á árinu, þegar bankinn keypti gjaldeyri fyrir samtals 68 ma.kr. (473 m.evra), aðallega í reglulegum gjaldeyriskaupum sem hófust í apríl og stóðu fram í desember. Vaxtamunur við útlönd var áfram nokkur en staða erlendra aðila í innlendum ríkisskuldabréfum hafði lítið breyst í árslok. Gjaldeyriskaup lífeyrissjóða voru minni en undanfarin ár. Stöðutaka með krónunni í framvirkum samningum jókst þegar líða tók á árið en hún hafði þá farið minnkandi frá miðju síðasta ári. Ríkissjóður gaf út skuldabréf í evrum á árinu að fjárhæð 750 milljónir evra og vaxtaálag á erlendar skuldabréfaútgáfur ríkissjóðs og viðskiptabankanna lækkaði. Gjaldeyrisforði Seðlabankans stækkaði á árinu og nam 968 ma.kr. í árslok eða 20% af vergri landsframleiðslu.

Sjá nánar hér:

Nr.1/2026

16. janúar 2025