Á fyrsta ársfjórðungi 2025 var 59,5 ma.kr. halli á viðskiptajöfnuði við útlönd. Það er 30,3 ma.kr. betri niðurstaða en ársfjórðunginn á undan en 22 ma.kr. lakari en á sama fjórðungi árið 2024. Halli á vöruskiptajöfnuði var 85,3 ma.kr. en 19,7 ma.kr. afgangur á þjónustujöfnuði. (Sjá á vef Hagstofunnar).
Afgangur á frumþáttatekjum nam 18,3 ma.kr. en 12,3 ma.kr. halli var á rekstrarframlögum (tafla 1).
Þetta kemur fram í nýbirtum upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands sem sýna bráðabirgðayfirlit yfir greiðslujöfnuð við útlönd á fyrsta ársfjórðungi 2025 og erlenda stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.
Tafla 1: Greiðslujöfnuður
| Ma.kr. | 2024/1 | 2024/2 | 2024/3 | 2024/4 | 2025/1 |
|---|---|---|---|---|---|
| Viðskiptajöfnuður | -37,6 | -39,7 | 42,8 | -89,8 | -59,5 |
| Vöruskiptajöfnuður | -51,8 | -87,7 | -71,5 | -104,1 | -85,3 |
| Þjónustujöfnuður | 15,7 | 66,6 | 134,9 | 59,3 | 19,7 |
| Jöfnuður frumþáttatekna | 8,9 | -5,8 | -10,8 | -30,7 | 18,3 |
| Rekstrarframlög, nettó | -10,4 | -12,8 | -9,7 | -14,3 | -12,3 |
| Jöfnuður fjárframlaga | -0,6 | -1,2 | -0,3 | -1,0 | -0,8 |
| Fjármagnsjöfnuður | 37,3 | -44,1 | 77,1 | -121,2 | 21,0 |
| Bein fjárfesting | 9,8 | -23,4 | -19,0 | -351,6 | -45,1 |
| Verðbréf | -191,1 | 105,4 | 27,5 | 181,3 | 58,5 |
| Afleiður | 0,1 | 1,5 | -2,8 | -3,6 | 0,0 |
| Önnur fjárfesting | 99,5 | -106,2 | 73,5 | 43,4 | 13,2 |
| Gjaldeyrisforði | 119,0 | -21,4 | -2,1 | 9,2 | -5,6 |
| Skekkjur og vantalið, nettó | 75,5 | -3,2 | 34,6 | -30,4 | 81,4 |
Tafla 2: Breyting á erlendri stöðu þjóðarbúsins á milli ársfjórðunga
| Ma.kr. | Staða í lok 2024/4 | Fjármagnsjöfnuður | Gengis- og verðbreytingar | Aðrar breytingar | Staða í lok 2025/1 |
|---|---|---|---|---|---|
| Erlendar eignir, alls | 6.814 | 126 | -168 | -1 | 6.771 |
| Bein fjárfesting | 1.072 | -52 | 116 | -6 | 1.129 |
| Verðbréf | 4.014 | 175 | -246 | 1 | 3.944 |
| Afleiður* | 17 | 0 | -11 | 11 | 17 |
| Önnur fjárfesting | 826 | 8 | -13 | -6 | 816 |
| Gjaldeyrisforði | 885 | -6 | -14 | 0 | 865 |
| Erlendar skuldir, alls | 4.703 | 105 | -89 | 19 | 4.737 |
| Bein fjárfesting | 2.013 | -7 | -44 | 18 | 1.980 |
| Verðbréf | 1.410 | 117 | -14 | 0 | 1.512 |
| Afleiður* | 11 | 0 | -10 | 7 | 8 |
| Önnur fjárfesting | 1.268 | -5 | -21 | -6 | 1.237 |
| Hrein staða þjóðarbúsins | 2.111 | 21 | -79 | -19 | 2.034 |
| (%) af VLF | 44,9% | 0,4% | -1,7% | -0,4% | 43,3% |
Endurskoðun hagtalna
Seðlabanki Íslands hefur endurskoðað ársfjórðungslegar hagtölur greiðslujafnaðar og erlendrar stöðu þjóðarbúsins aftur til ársins 1995. Meiriháttar endurskoðun (e. benchmark revision) er framkvæmd á 5 ára fresti, síðast árið 2020.
Áhrif endurskoðunarinnar á viðskiptajöfnuð eru sýnd á meðfylgjandi mynd. Breytingar á hagtölum vöru- og þjónustuviðskipta eru í samræmi við tölur sem Hagstofa Íslands birti í síðustu viku.
Viðskiptajöfnuður var endurskoðaður að meðaltali um 0,2% af VLF yfir tímabilið. Endurmat á þjónustuviðskiptum er stór þáttur í endurskoðun árin 2010 til 2024. Árið 2023 voru þjónustuviðskipti endurskoðuð um svipaða upphæð og árin á undan en á móti kemur endurskoðun á endurfjárfestingu í beinni erlendri fjárfestingu sem nemur um 3% af VLF. Aðrar endurskoðanir á þáttatekjum beinnar fjárfestingar eru mun minni og ná aftur til 2022. Tekjur af erlendum verðbréfum voru endurskoðaðar fyrir árin 2012 til 2017 um sem nemur 0,6% af VLF.
Launagjöld voru endurskoðuð til hækkunar á bilinu 0,1-1,2% af VLF frá 2005 til 2024. Það eru launatekjur erlendra launþega frá innlendum launagreiðendum en áhrifin koma til lækkunar á jöfnuði þáttatekna. Stuðst er við gögn sem eiga uppruna sinn í staðgreiðsluskrá Skattsins en þær sýna mun nákvæmari mynd af tekjum erlendra launþega en áður. Einnig er stuðst við ný gögn um tekjur staðarráðinna starfsmanna íslenskra sendiráða í útlöndum.
Launatekjur voru einnig endurskoðaðar með tilliti til tekna staðarráðinna starfsmanna erlendra sendiráða á Íslandi en áhrif þessa eru lítil eða innan við 0,1% af VLF.
Rekstrarframlög voru endurskoðuð fyrir sama tímabil, að miklu leyti vegna hækkunar á áætluðum skatttekjum og lífeyrissjóðsgreiðslum erlendra launþega.
Erlend staða þjóðarbúsins hefur verið endurskoðuð aftur til 1995. Á tímabilinu frá 2014 til 2024 nemur endurskoðunin á bilinu 0,4 - 3,2% af VLF og árið 2008 nemur hún 1,4% af VLF. Önnur ár nemur endurskoðunin minna en 0,2% af VLF.
Endurskoðun áranna 2022 til 2024 er helst vegna beinnar fjárfestingar og verðbréfafjárfestingar. Töluverð hækkun var vegna endurmats á erlendum séreignalífeyri árin 2013 til 2024 eða sem nemur 0,5 - 1,7% af VLF. Að auki breytist erlend staða um sem nemur 1% af VLF vegna endurmats á innstæðum innlánsstofnana í erlendum bönkum.