Seðlabanki Íslands kannaði væntingar markaðsaðila dagana 19. til 21. janúar sl. Leitað var til 39 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana, fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar og tryggingafélaga. Svör fengust frá 31 aðila og var svarhlutfallið því 79%.
Helstu niðurstöður
Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að markaðsaðilar væntu heldur meiri verðbólgu en í síðustu könnun í nóvember sl. Miðað við miðgildi svara vænta þeir að verðbólga verði 3,7% eftir eitt ár, 3,1% eftir tvö ár og að meðaltali 3,2% á næstu fimm árum. Það er 0,1-0,3 prósentum meira en í síðustu könnun. Verðbólguvæntingar þeirra til tíu ára voru hins vegar óbreyttar milli kannana og gera markaðsaðilar ráð fyrir því að verðbólga verði þá 3% að meðaltali. Þá búast þeir við því að gengi krónunnar gagnvart evru verði heldur lægra eftir eitt ár en það var þegar könnunin var framkvæmd.
Miðað við miðgildi svara í könnuninni gera markaðsaðilar ráð fyrir því að meginvextir Seðlabankans verði óbreyttir í 7,25% á yfirstandandi fjórðungi. Þeir gera ráð fyrir að vextir taki að lækka á ný á öðrum fjórðungi og verði komnir í 6,5% í lok ársins. Það eru 0,25 prósentum hærri vextir en þeir bjuggust við í síðustu könnun í nóvember. Væntingar þeirra um meginvexti eftir tvö ár eru hins vegar óbreyttar milli kannana í 5,75%.
Hlutfall svarenda sem taldi taumhald peningastefnunnar vera of þétt lækkaði umtalsvert milli kannana og var 55% samanborið við 83% í síðustu könnun. Um 35% töldu taumhaldið vera hæfilegt samanborið við 17% í nóvember. Þá töldu um 10% svarenda taumhaldið of laust en enginn taldi það í síðustu könnun.
Heildardreifing svara um væntingar til verðbólgu frá núverandi fjórðungi og allt til næstu fimm ára jókst milli kannana en dreifing svara um verðbólgu að meðaltali næstu tíu ár minnkaði hins vegar. Heildardreifing svara markaðsaðila um væntingar þeirra um þróun vaxta á núverandi ársfjórðungi jókst milli kannana en minnkaði hins vegar nokkuð þegar spurt var um væntingar til vaxta eftir bæði eitt ár og tvö ár.
Markaðsaðilar voru einnig spurðir að því hvert væri líftímaálag á tíu ára innlend óverðtryggð ríkisskuldabréf að þeirra mati um þessar mundir, þ.e. sú viðbótarkrafa sem krafist er við að fjárfesta í tíu ára bréfi í stað röð skammtímabréfa yfir sama tímabil. Þriðjungur svarenda nefndi að álagið gæti verið á bilinu 0,25 til 0,5 prósentur og fjórðungur taldi það meira en 0,5 prósentur. Þá taldi rúmlega þriðjungur að álagið væri nærri núlli eða neikvætt.