Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur uppfært lista á vef Seðlabankans yfir starfsheiti sem teljast til háttsettra opinberra starfa í samræmi við 10. gr. reglugerðar nr. 1420/2020, um einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla með tilliti til aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Samkvæmt reglugerðinni skal fjármálaeftirlitið halda lista yfir þau starfsheiti hér á landi sem teljast til háttsettra opinberra starfa, birta opinberlega á vefsvæði Seðlabankans og uppfæra listann árlega.
Á listanum koma fram starfsheiti og nafn stofnunar, samtaka, fyrirtækis eða stjórnmálaflokks, eftir því sem við á. Listinn byggir á ákvæðum reglugerðarinnar og á upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu og stjórnmálaflokkum sem eiga kjörna fulltrúa á Alþingi, sbr. 11. gr. reglugerðarinnar.
Tilgreining starfsheita og útgáfa listans hefur ekki áhrif á skyldu tilkynningarskyldra aðila að meta hverju sinni hvort innlendur eða erlendur viðskiptamaður og raunverulegur eigandi sé í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla, en hægt er að hafa listann til hliðsjónar við matið, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 1420/2020.
Að þessu sinni er um að ræða breytingar á lista yfir sendiherra og staðgengla sendiherra, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 1420/2020. Þær sem breytingar sem hafa orðið eru þær að sendiráð Íslands í Genf, Madríd og Róm bætast við listann.
Sjá nánar heildarlista yfir starfsheiti sem teljast til háttsettra opinberra starfa: Seðlabanki Íslands | Háttsett opinber störf
Þá er einnig vakin athygli á því að nánasta fjölskylda og nánir samstarfsmenn einstaklinga sem eru eða hafa verið háttsettir í opinberri þjónustu teljast einnig til einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla, sbr. 3. gr. laga nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ráðstafanir tilkynningarskyldra aðila skulu taka til þess að meta hvort viðskiptamaður eða raunverulegur eigandi teljist til nánustu fjölskyldu eða náins samstarfsmanns einstaklings sem er háttsettur í opinberri þjónustu, sbr. 13. gr. reglugerðar nr. 1420/2020.
Þá er vakin athygli á umfjöllun um áhættumiðaða nálgun vegna einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Sjá nánar: Spurt og svarað vegna 17. gr. laga nr. 140/2018.