Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur haft til meðferðar mál sem varðar brot ALÍSU hf. gegn 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með því að hafa starfað við að taka við endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi án þess að hafa öðlast tilskilið starfsleyfi sem lánastofnun.
Með bréfi, dags. 15. júlí 2024, lýsti félagið yfir vilja til að ljúka málinu með sátt við fjármálaeftirlitið. Á fundi fjármálaeftirlitsnefndar hinn 10. september 2025 var málið talið að fullu upplýst og forsendur til að ljúka því með sátt og greiðslu sektar að fjárhæð 14.000.000 kr. til ríkissjóðs.
Brot félagsins varða mikilvæga starfsleyfisskylda starfsemi án þess að tilskilið starfsleyfi sem lánastofnun hafi verið til staðar. Lánastofnanir lúta eftirliti fjármálaeftirlitsins og ber að starfa í samræmi við kröfur laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Markmið laganna er meðal annars að vernda almenning gegn fjárhagslegri áhættu, auka traust á fjármálakerfinu og tryggja að aðeins eftirlitsskyld og fjárhagslega stöndug fyrirtæki geti tekið við fjármunum frá almenningi. Stundi fyrirtæki starfsemi án þess að hafa til þess tilskilið starfsleyfi, er hætta á að þau markmið sem lögunum er ætlað að tryggja fari forgörðum.
Í sáttinni, sem birt er í heild sinni, er málsatvikum og niðurstöðum fjármálaeftirlitsins lýst í samræmi við 112. gr. g. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 9. gr. a laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Með undirritun sáttarinnar hefur félagið gengist við því að hafa gerst brotlegt við 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í ljósi þess að félagið lét af umræddri háttsemi undir rekstri málsins eru ekki efni til að krefjast úrbóta.