Fyrir Alþingi liggur frumvarp um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sem ætlað er að innleiða reglugerð (ESB) 2024/1612 (CRR III), sem breytir reglugerð (ESB) nr. 575/2013, um varfærniskröfur vegna starfsemi fjármálafyrirtækja (CRR). Á meðal breytinga samkvæmt CRR III eru breytingar á áhættuvogum svonefndra framkvæmdalána sem einkum eru veitt byggingarverktökum. Meginreglan er að við útreikning lágmarkseiginfjárkrafna fá framkvæmdalán 150% áhættuvog, sbr. 1. mgr. 126. gr. a CRR. Heimilt er þó að miða við 100% áhættuvog vegna framkvæmdalána til byggingar íbúðarhúsnæðis enda leggi lántaki fram verulegt eigið fé, sbr. 2. mgr. 126. gr. a CRR. Í reglugerðinni er ekki útfært nánar hvað telst verulegt eigið fé heldur er Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni (EBA) falið að útfæra það og önnur tengd atriði nánar í viðmiðunarreglum. Í júní sl. gaf EBA út umræddar viðmiðunarreglur (EBA/GL/2025/03) en þar er meðal annars miðað við að lántaki leggi fram eigið fé sem nemur a.m.k. 25% af söluverðmæti.
Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að taka upp viðmiðunarreglur EBA samhliða innleiðingu CRR III hér á landi, þó með því fráviki að fjármálafyrirtækjum verður tímabundið heimilt að miða við 20% lágmarks framlag eigin fjár lántaka í stað 25%, eftir því sem við á. Meginmarkmið fráviksins er að tryggja samfellu í stjórnsýsluframkvæmd og gefa fjármálafyrirtækjum og öðrum hagsmunaaðilum svigrúm til þess að aðlaga sig að breyttri framkvæmd. Að öðru leyti munu viðmiðunarreglurnar gilda við skýringu skilyrða samkvæmt 2. mgr. 126. gr. a CRR.
Upptaka viðmiðunarreglnanna tekur, eins og áður segir, gildi þegar CRR III hefur verið innleidd hér á landi, sbr. frumvarp um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, sem ætlað er að leiða reglugerðina í landsrétt.
Dreifibréf um fyrirhugaða upptöku var sent til fjármálafyrirtækja fyrr í dag. Dreifibréfið má nálgast hér fyrir neðan.