Fara beint í Meginmál

Eruð þið bara að reyna að pirra okkur?

Hefur þú fengið símtal eða tölvupóst frá banka þar sem spurt er út í uppruna fjármuna, tilgang millifærslu eða hvers vegna þú ert að opna nýjan reikning? Þá hefur þú eflaust hugsað „Af hverju þarf bankinn að vita þetta?“ Þjónar þetta einhverjum tilgangi og er ekki hægt að ganga skemmra í þessu skrifræði öllu saman? Er bara verið að reyna að pirra okkur?

Regluverkið kemur ekki frá Íslandi – heldur frá alþjóðlegu samstarfi

Kröfurnar sem bankar og aðrir tilkynningarskyldir aðilar þurfa að uppfylla eru ekki séríslenskar. Þær byggja á tilmælum Financial Action Task Force (FATF) – alþjóðlegrar stofnunar sem þróar stefnu og mælikvarða í baráttunni gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í umræðunni á Íslandi er skuldinni oft skellt á Evrópusambandið í þessum efnum en sannleikurinn er sá að tilmæli FATF eru að miklu leyti mótuð í kjölfar baráttu Bandaríkjanna gegn fíkniefnum og í kjölfar 9/11 hryðjuverkaárásarinnar. Það eru því í raun Bandaríkin sem eru stærsti áhrifavaldurinn í þessum efnum. Hitt er þó satt og rétt að Íslandi ber að innleiða reglur í þessum efnum á grundvelli EES-samningsins, sem Evrópusambandið hefur mótað til samræmis við tilmæli FATF.

Öll ríki sem vilja tilheyra ábyrgum samfélögum heims þurfa í raun að innleiða þessi tilmæli frá FATF. Til að Ísland sé flokkað með löndum sem við viljum bera okkur saman við verðum við að standast alþjóðlegan samanburð. Þess vegna setti Alþingi lög til að tryggja fylgni við tilmæli FATF sem og til að standa við skuldbindingar okkar út frá EES-samningnum. Lagareglurnar eru því hvorki uppfinning fjármálaeftirlitsins né fjármálafyrirtækjanna eins og stundum mætti ætla af umæðunni. Fjármálaeftirlitinu er svo ætlað að fylgjast með því að fjármálafyrirtækin fari eftir reglunum.

Þetta snýst um traust

Þegar banki spyr um uppruna fjármuna eða tilgang viðskipta er bankinn ekki einungis að vinna að því að koma í veg fyrir að fjármálkerfið sé notað til að þvætta fé eða fjármagna hryðjuverk, heldur er hann einnig að verja það traust sem fjármálakerfið byggir á. Ef fjármálakerfi landsins er misnotað til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka tapar það trúverðugleika – bæði hérlendis og erlendis. Þar liggur ein meginástæðan fyrir þessum reglum, þ.e. að viðhalda trausti til íslenska fjármálakerfisins og tryggja að það geti verið hluti af alþjóðlegu umhverfi.

Spurningar um uppruna fjármuna er liður í vinnu gegn peningaþvætti; vinnan byggir á alþjóðlegum viðmiðum og hún snýst um traust til fjármálakerfisins.

Hvað gerist ef við uppfyllum ekki kröfurnar?

Þegar ríki uppfylla ekki tilmæli FATF er það sett á svokallaðan „gráan lista“. Ísland lenti í þeirri stöðu árið 2019 eftir úttekt FATF á aðgerðum Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem hafði í för með sér áþreifanleg áhrif á fjármálakerfið og alþjóðlegt orðspor landsins. Þannig fóru erlendir aðilar að líta á viðskipti við íslenska aðila sem áhættumeiri viðskipti, millifærslur til og frá Íslandi urðu eftir atvikum dýrari, tóku lengri tíma og kröfðust viðbótarupplýsinga.

Ísland var einungis eitt ár á gráa listanum en það var tekið af honum árið 2020 eftir að stjórnvöld og tilkynningarskyldir aðilar lögðust á eitt um að bæta úr því sem úrskeiðis hafði farið. Það hefur hins vegar tekið verulegan tíma og mikla vinnu að endurheimta það traust sem glataðist við grálistunina. Það er alltaf ódýrara að viðhalda trausti en að reyna að endurheimta það.

Lögin segja hvað en ekki hvernig

Lög nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka segja hvað tilkynningarskyldir aðilar þurfa að gera. Þeir þurfa t.d. að þekkja viðskiptamenn sína, afla upplýsinga um uppruna fjármuna og tilkynna grunsamleg viðskipti. En lögin segja ekki alltaf með nákvæmum hætti hvernig á að gera það. Það er undir hverjum og einum banka og öðrum tilkynningarskyldum aðila komið að þróa sína eigin ferla til að uppfylla lagaskyldurnar. Þeir þurfa að meta áhætturnar, velja aðferðir og ákveða hve ítarleg upplýsinga- og gagnaöflun er nauðsynleg. Þar skiptir meðalhóf og áhættumiðuð nálgun miklu máli, að spyrja nægilega mikið til að vera öruggur en ganga ekki lengra en þörf er á.

Af hverju þetta snýst um okkur öll

Þegar Ísland uppfyllir tilmæli FATF sendir það skýr skilaboð: Við viljum tilheyra þeim ríkjum sem standa vörð um heiðarleika, gagnsæi og ábyrgð í fjármálum. Það verndar orðspor okkar, verndar okkur gegn glæpastarfsemi, tryggir að íslensk fyrirtæki geti átt eðlileg samskipti við alþjóðlega samstarfsaðila og styrkir stöðu landsins sem traust og áreiðanlegt viðskiptaumhverfi.

Þannig að, nei – það er enginn að reyna að pirra þig

Þegar bankinn spyr spurninga sem þér finnst óþarflega mikil hnýsni þá er það ekki vegna þess að hann vill flækja lífið fyrir þér eða pirra þig. Bankinn er einfaldlega að uppfylla lagakröfur sem settar voru af Alþingi til að tryggja almannahag, fjármálakerfið og orðspor Íslands.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. janúar 2026.