Arðsemi, vaxtamunur og eigið fé
Almennt hefur vaxtastig verið hærra og verðbólga meiri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Samanburður á arðsemi KMB og banka á Norðurlöndunum er því enn óhagstæðari fyrir KMB ef miðað er við raunarðsemi, þ.e. arðsemi umfram verðbólgu, eða arðsemi umfram áhættulausa vexti. Helsta ástæða aukinnar arðsemi af bankarekstri síðustu ár á Íslandi er að hreinar vaxtatekjur hafa aukist mikið en vaxtamunur eigna og skulda hefur hækkað hjá bönkunum. Vaxtamunur ætti að segja mikið til um afkomu KMB og samanburðarbankanna enda voru hreinar vaxtatekjur rúmlega 70% af tekjum KMB og samanburðarbankanna á árinu 2024.
Hlutfallslega hefur vaxtamunur KMB aukist minna en samanburðarbankanna en aukinn vaxtamun KMB má helst rekja til meiri vaxtatekna af lausum eignum. Hjá norrænum bönkum má í flestum tilfellum rekja aukinn vaxtamun til þess að vextir útlána hækkuðu meira en vextir innlána. Það á ekki við á Íslandi þar sem vextir innlána fylgdu hækkun meginvaxta í ríkari mæli en í öðrum löndum Evrópu. Hjá norrænum bönkum juku hærri vextir jafnframt vaxtatekjur af lausum eignum. Þrátt fyrir að vaxtamunur hafi aukist minnst hjá íslensku bönkunum er rétt að halda því til haga að hann var ennþá hár hjá þeim miðað við banka á Norðurlöndunum en vaxtamunur var mestur hjá dönskum bönkum á árunum 2023 og 2024. Vaxtamunur KMB var mestur á árunum 2019 til 2022 og aðeins minni en danskra banka á árunum 2023 og 2024.
Á mynd 3 er arðsemi sýnd í hlutfalli við heildareignir. Afkoma íslensku bankanna er töluvert betri samkvæmt þeim mælikvarða en þegar miðað er við eigið fé. Til dæmis var arðsemi heildareigna KMB 1,7% árin 2023 og 2024 á meðan hún var 1,5% hjá samanburðarbönkunum. Aðeins bankar í Danmörku voru með meiri arðsemi en þeir íslensku. Þessi breyting á arðsemi stafar af því að eigið fé er hlutfallslega meira hjá íslensku bönkunum en öðrum norrænum bönkum, eins og sýnt er á mynd 4. Í árslok 2024 var hlutfall eigin fjár af heildareignum að meðaltali 13,9% hjá KMB en 11,5% hjá samanburðarbönkunum. Hlutfallið hefur lækkað mikið hjá íslensku bönkunum síðustu ár en verið tiltölulega stöðugt hjá bönkum á hinum Norðurlöndunum.[2]
Hjá bönkum eins og hjá öðrum fyrirtækjum má skipta efnahagsreikningi þeirra upp í eignir annars vegar og skuldir og eigið fé hins vegar. Stór hluti eigna KMB skila vaxtatekjum og svipað á við um megnið af skuldum þeirra sem bera vaxtagjöld. Eigið fé felur hins vegar ekki beint í sér bein vaxtagjöld. Í þessari grein er vaxtamunur reiknaður út miðað við heildareignir sem felur í sér að eftir því sem eigið fé er meira eru vaxtaberandi skuldir minni og þar með vaxtamunur meiri. Rétt er að hafa þetta í huga þegar vaxtamunur er borinn saman á milli aðila. Til dæmis var vaxtamunur KMB á árinu 2024 2,9% á meðan hann var 2,5% hjá samanburðarbönkunum. Ef hlutfall eigin fjár af heildareignum KMB á árinu 2024 hefði verið 11,5% eins og hjá samanburðarbönkunum í stað 13,9% hefði vaxtamunur lækkað um 0,2 prósentur og verið 2,7% þar sem vaxtagjöld hefðu aukist. Mismunur á vaxtamun hefði því helmingast. Miðað við sænska og finnska banka þar sem hlutfall eigin fjár af heildareignum var 7,1% og 7,4% hefði vaxtamunur KMB lækkað um 0,45 prósentur.
Í árslok 2024 var meðaleiginfjárhlutfall KMB 23,4% sem er 1,0 prósentu hærra hlutfall en fyrir samanburðarbankana. Á sama tíma var eiginfjárkrafa Seðlabankans fyrir íslensku bankana að meðaltali 19,9% á meðan krafa eftirlitsaðila fyrir samanburðarbankana var 17,2%. Eiginfjárhlutfall íslensku bankanna var því 3,5 prósentum yfir heildarkröfu um eigið fé á meðan eiginfjárhlutfall samanburðarbankanna var 5,2 prósentum yfir heildarkröfu. Íslensku bankarnir eru kerfislega mikilvægir á meðan samanburðarbankarnir eru það ekki. Ef horft er fram hjá eiginfjárauka/eiginfjárkröfum vegna kerfislegs mikilvægis íslensku bankanna voru eiginfjárkröfur KMB 16,9% í árslok 2024 og því 0,3 prósentum lægri en fyrir samanburðarbankana.
Mynd 5 sýnir að lítill munur er á eiginfjárhlutfalli KMB og annarra banka á Norðurlöndunum. Í raun má segja að eiginfjárhlutfall KMB sé lægra en sambærilegra banka á Norðurlöndum ef horft er fram hjá eiginfjárkröfu vegna kerfislegs mikilvægis en aðeins KMB í þessum samanburði þarf að mæta slíkri kröfu en hún var 2% af áhættuvegnum eignum á samanburðartímabilinu fyrir utan fjórða ársfjórðung 2024 þegar krafan hækkaði í 3% af áhættuvegnum eignum. Eiginfjárauki vegna kerfisáhættu lækkaði úr 3% í 2% á sama tíma.
Nægt og nýtanlegt eigið fé er forsenda stöðugs fjármalakerfis og að bankar geti sinnt efnahagslegu hlutverki sínu. Hér hefur komið fram að hlutfallslega er meira eigið fé hjá íslensku bönkunum en öðrum norrænum bönkum. Helsta ástæða fyrir því er sú að áhættugrunnur í hlutfalli við heildareignir er hærri hjá KMB. Í árslok 2024 var meðaltalið 63% fyrir KMB á meðan það var 51% fyrir samanburðarbankana. Áhættuflokkun eigna hefur mikið að segja um hve hár áhættugrunnur verður. Til dæmis er áhættuvog íbúðalána almennt 35% skv. staðalaðferð á meðan áhættuvog almennra fyrirtækjaútlána er 100%. Hlutfall áhættugrunns af heildareignum tekur því alltaf mið af samsetningu eigna viðkomandi banka. Á mynd 6 má sjá að fyrir danska banka er hlutfall áhættugrunns af heildareignum hærra en fyrir norska banka og að samanburðarbankarnir eru á milli þessara landa. Komið hefur fram að KMB nota staðalaðferð til að reikna út áhættuvegnar eignir. Bankar í einstaka löndum á framangreindum myndunum nota ýmist innramatsaðferð (e. Internal-Rating Based Approach, IRB) til að reikna út áhættuvegnar eignir eða staðalaðferð. Almennt er eiginfjárbinding skv. innramatsaðferð lægri en þegar stuðst er við staðalaðferð. Áhættuvogir samanburðarbankanna styðjast hins vegar við staðalaðferð eins og komið hefur fram og er eiginfjárbinding þeirra lægri en KMB. Ein ástæðan fyrir lægri eiginfjárbindingu í tilfelli norsku samanburðarbankanna er að hlutfall íbúðalán til heimila er mun hærra en hjá KMB. Hlutfall íbúðalána hjá íslensku bönkunum, sem bar 35% áhættuvog, var um 35-43% af heildareignum á efnahagsreikningi í árslok 2024 en hjá norsku samanburðarbönkunum var hlutfall íbúðalána á bilinu 50-70% af heildareignum. Í tilfelli dönsku bankanna er ein ástæðan fyrir lægri eiginfjárbindingu sú að hluti af eignum bankanna eru lífeyrissjóðseignir eða um 14% að meðaltali. Þessar eignir tilheyra bönkunum á eignahlið efnahagsreiknings þeirra en á skuldahlið efnahagsreiknings má finna sömu fjárhæð sem skilgreind er sem innlán einstaklinga vegna lífeyrissparnaðar. Við útreikning á eiginfjárbindingu eru þessar lífeyrissjóðseignir undanskildar og því engin eiginfjárbinding vegna þeirra. Hlutfall áhættugrunns af heildareignum hjá dönsku samanburðarbönkunum var 56% í árslok 2024 en ef áðurnefndar lífeyrissjóðseignir eru undanskildar var hlutfallið 66% og því hærra en hjá íslensku bönkunum en lítill hluti útlána dönsku bankanna eru íbúðalán.
Vogunarhlutfall er mælikvarði á skuldsetningu, þ.e. eigið fé á móti heildaráhættuskuldbindingum. Eigið fé inniheldur þá bæði almennt eigið fé og viðbótar eigið fé þáttar 1. Til heildaráhættuskuldbindinga teljast m.a. liðir utan efnahags, afleiðusamningar og áhættuskuldbindingar vegna fjármögnunarviðskipta með verðbréf. Segja má að vogunarhlutfall sé dýpra mat á skuldsetningu en þegar stuðst er við eigið fé á móti heildareignum og í raun líkara hefðbundnu eiginfjárhlutfalli rekstrarfyrirtækja. Mynd 7 sýnir að vogunarhlutfall KMB er hærra en hjá sambærilegum bönkum á Norðurlöndunum. Niðurstaðan er nokkuð svipuð og á mynd 4 sem sýnir eigið fé á móti heildareignum en munurinn á KMB og öðrum bönkum er þó meiri þegar miðað er við vogunarhlutfall. Ástæðan er sú að hjá bönkum á Norðurlöndunum eru áhættuskuldbindingar sem teljast ekki til efnahagsreiknings hlutfallslega meiri en hjá KMB. Þess má geta að íslensku bankarnir eru með hæstu vogunarhlutföllin á Evrópska efnahagssvæðinu en meðaltalið fyrir lönd á svæðinu var 5,8% í lok þriðja ársfjórðungs 2024 og 7,2% fyrir minni banka.[3]
Kostnaður
Skattar
Eftir fjármálaáfallið 2008 fengu hugmyndir um sértæka skattheimtu á fjármálafyrirtæki, og þá sérstaklega banka, meira vægi en áður. Sum lönd í Evrópu settu á sértæka bankaskatta í kjölfarið. Síðustu ár hafa fleiri ríki bæst í þann hóp. Skattar sem bankar greiða á Íslandi eru með þeim hæstu í Evrópu. Á árunum 2021-2023 voru skattgreiðslur KMB t.d. á bilinu 1,2%-1,4% af áhættuvegnum eignum á meðan hlutfallið var á bilinu 0,3%-0,6% í flestum löndum Evrópu (sjá t.d. skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins).[4] Munurinn væri líklega enn meiri ef miðað væri við heildareignir en erfitt er að finna alþjóðleg gögn um skattgreiðslur banka. Sértækir bankaskattar eru lagðir á banka með ýmsum hætti, t.d. á hagnað, eignir eða laun. Hér er ætlunin ekki að bera saman sértæka skatta á milli landa heldur skoða með einföldum hætti hvaða áhrif sértækir skattar höfðu á KMB og samanburðarbankana á árinu 2024.
Eftirfarandi sértækir skattar eru lagðir á banka í löndunum þremur:
Ísland
- 0,145% skattur á heildarskuldir umfram 50 ma.kr.
- 5,5% fjársýsluskattur á launakostnað.
- 6% viðbótarskattur á hagnað umfram 1 ma.kr.
Danmörk
- 15,5% fjársýsluskattur á launakostnað.
- 4% viðbótarskattur á hagnað.
Noregur
- 5% fjársýsluskattur á launakostnað.
- 3% viðbótarskattur á hagnað.
Samantekt
Segja má að helstu kennitölur stóru íslensku bankanna séu sambærilegar við kennitölur banka af sambærilegri stærð á Norðurlöndunum. Arðsemi íslensku bankanna miðað við heildareignir er t.d. næst hæst af Norðurlöndunum en þar sem eigið fé íslensku bankanna er hlutfallslega meira en hjá bönkum á Norðurlöndum var arðsemi eigin fjár íslensku bankanna á árinu 2024 almennt lakari en hjá áðurnefndum bönkum. Rétt er að halda því til haga að allir stóru bankarnir þrír hér á landi náðu markmiðum sínum um arðsemi eigin fjár á árinu 2024. Ástæðan fyrir því að eigið fé íslensku bankanna er meira en almennt gerist er sú að íslensku bankarnir nota staðalaðferð við útreikning á áhættuvegnum eignum og eins er samsetning eigna á efnahagsreikningi þannig að áhættugrunnur verður hlutfallslega hærra hlutfall af heildareignum en hjá sambærilegum bönkum á Norðurlöndunum. Eiginfjárhlutföll íslensku bankanna eru sambærileg og jafnvel lægri miðað við það sem gerist hjá sambærilegum bönkum á Norðurlöndunum, sérstaklega þegar tillit hefur verið tekið til þess að íslensku bankarnir eru kerfislega mikilvægir. Ekki er hægt að sjá að eiginfjárkröfur sem gerðar eru til KMB séu meiri en fyrir sambærilega banka á Norðurlöndunum.
Kostnaðarhlutföll íslensku bankanna eru síðan lág miðað við samanburðarbanka og þegar aðeins er einblítt á kostnaðinn og hann settur í samhengi við heildareignir hafa íslensku bankarnir náð mestum árangri í að lækka kostnað. Þróun helstu kennitalna fyrir íslensku bankana hefur því verið jákvæð síðustu ár.
Hins vegar eru sértækir skattar á banka hærri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum.
[1] Helsta ástæðan fyrir því að miðað er við banka í Danmörku og Noregi er sú að færri bankar eru í Finnlandi og Svíþjóð sem eru af svipaðri stærð og KMB og nota jafnframt staðalaðferð við eiginfjárútreikninga.
[2] Við stofnun íslensku bankanna eftir fjármálaáfallið 2008 tóku þeir yfir eignir sem jukust í verði þegar óvissa minnkaði og hagvöxtur festi sig í sessi að nýju. Fyrstu árin eftir stofnun bankanna greiddu þeir engan arð vegna stefnu íslenskra stjórnvalda. Fjármagnshöft höfðu einnig áhrif en erlendir kröfuhafar bankanna vildu síður fá arðgreiðslur í íslenskum krónum þegar arðgreiðslubanninu var aflétt og fjármagnshöft í gildi. Mikið eigið fé safnaðist því upp í bönkunum en eigið fá á móti heildareignum var t.d. yfir 20% á árunum 2014-2016. Þetta hlutfall tók að lækka um miðjan síðasta áratug með arðgreiðslum. Frá árinu 2020 hefur hlutur íbúðalána í útlánasafni KMB aukist töluvert síðustu ár en eiginfjárbinding vegna þeirra er umtalsvert minni en annarra útlána. Sú þróun hefur því jafnframt leitt til þess að hlutur eigin fjár á móti heildareignum hefur lækkað.
[3] Vogunarhlutfall, reiknað samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, er eiginfjárþáttur 1 deilt með heildaráhættuskuldbindingum. Lágmarks vogunarhlutfall er 3%.
[4] Sjá rannsóknarritgerð Maneely og Ratnovski hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum: Bank profits and bank taxes in the EU.
[5] Í desember 2024 var lögum um Seðlabanka Svíþjóðar (Sveriges Riksbank) breytt þannig að bankinn mun geta sett á óvaxtaberandi bindiskyldu. Síðasta vor ákvað Seðlabanki Svíþjóðar síðan að setja á óvaxtaberandi bindiskyldu frá og með 1. nóvember 2025. Fjárhæð sem innlánsstofnanir verða að hafa hjá seðlabankanum í formi vaxtalausra innstæðna mun nema 0,34% af innstæðugrunni. Sjá t.d. frétt frá Sveriges Riksbank.
[6] Almennur tekjuskattur fyrirtækja var hækkaður fyrir árið 2024 um eina prósentu í 21%, en lækkar aftur í 20% fyrir árið 2025.
[7] Rétt er að benda á að í Finnlandi eru ekki lagðir á sértækir skattar á fjármálafyrirtæki. Í Svíþjóð var árið 2022 innleiddur áhættuskattur (á sænsku „riskskatt“) á lánastofnanir sem er 0,07% af skuldum sem eru yfir ákveðnu viðmiði og tengjast starfsemi viðkomandi stofnunar/banka í Svíþjóð. Viðmiðið sem skattstofn miðast við var 184 milljarðar sænskra króna fyrir árið 2024. Viðmið hækkar um 5% á ári.