Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands, sem eftirlitsaðili með lögum nr. 114/2021 um greiðsluþjónustu, fylgist með stöðu og þróun svika í greiðsluþjónustu hér á landi. Við það eftirlit styðst fjármálaeftirlitið við upplýsingar um fjárhæðir og færslufjölda við veitingu greiðsluþjónustu og samsvarandi upplýsingar um fjárhæðir svika, fjölda svika og það fjárhagslega tjón sem af þeim hlýst.
Tvisvar á ári ber greiðsluþjónustuveitendum að skila fjármálaeftirlitinu skýrslum um þá greiðsluþjónustu sem þeir veita með ítarlegri sundurliðun þar sem m.a. eru veittar upplýsingar um þá greiðslumiðla sem þeir meðhöndla, notkun sterkrar sannvottunar (t.d. staðfesting með auðkenni eða appi/smáforriti) og gefnar skýringar þar sem ekki er stuðst við sterka sannvottun.
Seðlabanki Íslands birtir árlegar skýrslur um stöðu svika í greiðsluþjónustu fyrir Ísland sem veitir innsýn í þróun svika og fjártjón helstu greiðslumiðla ásamt sundurliðun og greiningu á gögnunum.
Vefsíða þessi sýnir samantekt úr síðustu skýrslu og eru myndir uppfærðar með tilliti til nýjustu gagna.
Svik í greiðsluþjónustu
Millifærslusvik jukust úr 346 m.kr. árið 2023 í 491 m.kr. árið 2024, eða um 42%, sem er talsverð aukning milli ára.
Greiðslukortasvik stóðu nokkurn veginn í stað milli ára, námu 467 m.kr. árið 2023 en 462 m.kr. árið 2024.
Heildarsvik í greiðsluþjónustu árið 2024 námu 994.893.601 kr. eða tæplega einum milljarði króna.
Fjárhagslegt tjón vegna svika
Heildar fjárhagslegt tjón vegna millifærslna árið 2023 nam u.þ.b. 158 m.kr. en árið 2024 nam það u.þ.b. 172 m.kr., sem er aukning um 8,6%.
Heildar fjárhagslegt tjón vegna greiðslukorta árið 2023 nam u.þ.b. 480 m.kr. en árið 2024 nam það u.þ.b. 447 m.kr., sem er lækkun um 6,8%.
Fjárhagslegt tjón vegna svika í gegnum þessar tvær greiðsluleiðir fyrir árið 2023 nam u.þ.b. 638 m.kr. en árið 2024 nam það u.þ.b. 619 m.kr., sem er lækkun um 3,0%. Af þessu má sjá að fjárhagslegt tjón vegna svika í greiðslumiðlun með þessum tveim greiðsluleiðum standa nokkurn veginn í stað milli ára.