Meginmál

Viðskiptamenn sem eru óánægðir með starfshætti eftirlitsskylds aðila ættu að hafa samband við viðkomandi aðila eins fljótt og auðið er. Best er að senda skriflega kvörtun til fyrirtækisins, t.d. með tölvupósti eða öðrum samskiptaleiðum sem boðið er upp á. Athugaðu að geyma upplýsingar um samskipti þín við fyrirtækið ef þörf krefur. Heppilegast er fyrir alla aðila ef leyst er úr ágreiningi og/eða spurningum svarað á þessu stigi málsins.

Fyrirspurnir til eftirlitsskyldra aðila ættu almennt ekki að krefjast sérþekkingar. Þó vekur fjármálaeftirlitið athygli á því að Lögmannafélag Íslands býður upp á Lögmannavaktina sem er ókeypis lögfræðiþjónusta ef ráðleggingar vantar t.d. um efni og orðalag fyrirspurnar. Upplýsingar um Lögmannavaktina má finna á heimasíðu Lögmannafélagsins.

Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki og aðra veitendur fjármálaþjónustu

  • Nefndin úrskurðar um ágreining milli seljenda fjármálaþjónustu og viðskiptamanna þeirra. Viðskiptamenn þeirra geta þar af leiðandi leitað til nefndarinnar um úrskurð.
  • Seljandi getur verið fjármálafyrirtæki eða annar aðili sem veitir fjármálaþjónustu sem heyrir undir nefndina og er aðili að samningi um stofnun nefndarinnar eða hefur óskað eftir því að mál sem fellur undir starfssvið nefndarinnar fái umfjöllun og niðurstöðu nefndarinnar.
  • Seljendur eiga að kynna viðskiptamönnum með tryggilegum hætti möguleika þeirra á að skjóta málum til nefndarinnar.
  • Athygli er vakin á því að áður en viðskiptamaður getur leitað til nefndarinnar þarf seljandi að hafa hafnað kröfu viðskiptamanns eða að ekki hafi tekist að leysa málið með sátt innan fjögurra vikna frá því að viðskiptamaður lagði málið fyrir seljanda.
  • Kvartanir til nefndarinnar skulu vera skriflegar, á íslensku eða ensku. Nefndin tekur við kvörtunum og fylgiskjölum með rafrænum hætti. 
  • Mál er ekki tekið til afgreiðslu fyrr en málskotsgjald hefur verið greitt.

Allar upplýsingar er að finna á https://www.nefndir.is

  • Samtök fjármálafyrirtækja og Neytendasamtökin stofnuðu félag um rekstur tveggja úrskurðarnefnda. Tilgangur nefndanna er að neytendur hafi ódýran og hraðan aðgang að úrlausn deilumála án þess að þurfa að fara fyrir dómstóla.   
  • Í nefndinni sitja fimm nefndarmenn, tveir nefndarmenn skipaðir af Samtökum fyrirtækja í fjármálaþjónustu, tveir af Neytendasamtökunum og einn af fjármála- og efnahagsráðherra. Hann er jafnframt formaður nefndarinnar. 

Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum

  • Sá aðili sem skýtur máli sínu til nefndarinnar nefnist málskotsaðili.
  • Málskotsaðili getur verið neytandi, lögaðili eða einstaklingur í atvinnurekstri sem telur sig eiga rétt til bóta úr vátryggingu, þ. á m. ábyrgðartryggingu, eða á annarra hagsmuna að gæta vegna vátryggingarsamnings, sbr. lög um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, og lög um dreifingu vátrygginga nr. 62/2019.
  • Í samþykktum nefndarinnar er sameiginlega vísað í vátryggingafélög, tjónsuppgjörsmiðstöð og annan dreifingaraðila vátrygginga sem „varnaraðila“. Sjá nánar í 2. gr. samþykkta úrskurðarnefndar í vátryggingamálum.
  • Málskot verður að varða réttarágreining um vátryggingarsamninga eða annan ágreining vegna dreifingar vátrygginga eða vátryggingastarfsemi að öðru leyti.
  • Varnaraðilar eiga að kynna þeim sem telja sig eiga rétt til bóta eða hafa annarra hagsmuna að gæta sem fallið geta undir starfssvið nefndarinnar um möguleika þeirra á að skjóta málum til nefndarinnar.
  • Athygli er vakin á því að áður en málskotsaðili getur leitað til nefndarinnar þarf varnaraðili að hafa hafnað kröfu málskotsaðila eða að ekki hafi tekist að leysa málið með sátt innan fjögurra vikna frá því að málskotsaðili lagði málið og nauðsynleg gögn fyrir viðkomandi vátryggingafélag.
  • Kvartanir til nefndarinnar skulu vera skriflegar, á íslensku eða ensku. Nefndin tekur við kvörtunum og fylgiskjölum með rafrænum hætti.
  • Mál er ekki tekið til afgreiðslu fyrr en málskotsgjald hefur verið greitt.

Allar upplýsingar er að finna á https://www.nefndir.is

  • Samtök fjármálafyrirtækja og Neytendasamtökin stofnuðu félag um rekstur tveggja úrskurðarnefnda. Tilgangur nefndanna er að neytendur hafi ódýran og hraðan aðgang að úrlausn deilumála án þess að þurfa að fara fyrir dómstóla   
  • Í nefndinni sitja þrír nefndarmenn, einn nefndarmaður skipaðir af Samtökum fyrirtækja í fjármálaþjónustu, einn af Neytendasamtökunum og einn af fjármála- og efnahagsráðherra. Hann er jafnframt formaður nefndarinnar. 

Aðrar úrskurðarnefndir

  • ECC Ísland er hluti af ECC-netinu (European Consumer Centre Network) sem starfrækt er í 30 Evrópulöndum.
  • Tilgangur netsins er að veita neytendum, sem kaupa vöru eða þjónustu af seljanda í öðru Evrópuríki, upplýsingar, leiðbeiningar og aðstoð komi upp ágreiningur vegna viðskiptanna.
  • Neytendaaðstoðin nær m.a. til ferðalaga, flugferða, bílaleigu, kaupa á netinu og annarra vöru og þjónustukaupa.
  • Nánari upplýsingar er að finna á https://ecc.is/
  • Yfirlit yfir kærunefndir og úrskurðaraðila Evrópsku Neytendaaðstoðarinnar á Íslandi
  • Online Dispute Resolution (ODR)
    • ODR er vefgátt sem gerir neytendum og seljendum innan Evrópusambandsins og á Íslandi, Noregi, Lichtenstein og Bretlandi kleift að leysa úr ágreiningsmálum sem koma upp vegna netkaupa á vöru eða þjónustu án þess að þurfa að fara fyrir dómstóla.
    • Nánari upplýsingar er að finna á ODR – ECC á Íslandi
  • FIN-Net er samstarfsvettvangur 27 Evrópulanda, ásamt Íslandi, Noregi, Lichtenstein og Bretlandi sem á að auðvelda neytendum að leysa úr ágreiningsmálum við fjármálafyrirtæki þegar viðskipti eiga sér stað milli Evrópulanda. 
  • FIN-NET er ætlað að auðvelda neytendum að leysa ágreining utan dómstóla þegar viðskipti eiga sér stað í öðru landi en heimalandi.

Upplýsinga- og leiðbeiningaþjónusta fyrir neytendur fjármálaþjónustu

  • Seðlabanki Íslands leiðbeinir viðskiptavinum eftirlitsskyldra aðila í samræmi við leiðbeiningarskyldu stjórnvalda skv. 7. gr. stjórnsýslulaga.
  • Seðlabanki Íslands leitast við að leiðbeina aðilum um þau úrræði sem þeir hafa til að ná fram rétti sínum, m.a. hvaða aðilar fari með úrskurðarvald í þeirra málum og aðrar almennar leiðbeiningar.
  • Seðlabanki Íslands hefur ekki úrskurðarvald í einstökum ágreiningsmálum eða sker úr um réttindi eða skyldur aðila að einkarétti eða ágreiningi um sönnun málsatvika.