Viðskiptamenn sem eru óánægðir með starfshætti eftirlitsskylds aðila ættu að hafa samband við viðkomandi aðila eins fljótt og auðið er. Best er að senda skriflega kvörtun til fyrirtækisins, t.d. með tölvupósti eða öðrum samskiptaleiðum sem boðið er upp á. Athugaðu að geyma upplýsingar um samskipti þín við fyrirtækið ef þörf krefur. Heppilegast er fyrir alla aðila ef leyst er úr ágreiningi og/eða spurningum svarað á þessu stigi málsins.
Fyrirspurnir til eftirlitsskyldra aðila ættu almennt ekki að krefjast sérþekkingar. Þó vekur fjármálaeftirlitið athygli á því að Lögmannafélag Íslands býður upp á Lögmannavaktina sem er ókeypis lögfræðiþjónusta ef ráðleggingar vantar t.d. um efni og orðalag fyrirspurnar. Upplýsingar um Lögmannavaktina má finna á heimasíðu Lögmannafélagsins.