Ákvarðanir um beitingu stjórntækja Seðlabanka Íslands í peningamálum eru teknar af peningastefnunefnd bankans, samanber lög nr. 92/2019, um Seðlabanka Íslands. Stjórntæki bankans teljast í þessu sambandi vera vextir bankans, viðskipti við lánastofnanir önnur en þrautavaralán, ákvarðanir um bindiskyldu og þau viðskipti á gjaldeyrismarkaði og með verðbréf sem hafa það að markmiði að stöðugu verðlagi sé náð.
Peningastefnunefnd er nú skipuð þannig: Ásgeir Jónsson, formaður, Þórarinn G. Pétursson, staðgengill formanns, Tómas Brynjólfsson, Herdís Steingrímsdóttir og Ásgerður Ósk Pétursdóttir.
Stefna í peningamálum
Peningastefnunefnd setur stefnu í peningamálum. Stefnan er heildarumgjörð um ákvarðanir í peningamálum og hvernig þeim er miðlað til almennings með það að markmiði að stuðla að stöðugu verðlagi.
Ákvarðanir um stjórntæki bankans í peningamálum og birtingartími fundargerða
Peningastefnunefnd skal funda a.m.k. sex sinnum á ári, birta fundargerðir sínar opinberlega og gera grein fyrir ákvörðunum sínum og forsendum þeirra. Ákvarðanir í peningamálum eru birtar í yfirlýsingu peningastefnunefndar sem gefin er út fyrir opnun markaða þann dag sem vaxtaákvörðun er kynnt. Peningastefnunefnd birtir fundargerðir sínar tveimur vikum eftir að vaxtaákvörðun er tilkynnt. Þar kemur fram mat nefndarinnar á stöðu og horfum í efnahags- og peningamálum og rökstuðningur nefndarmanna fyrir atkvæðum sínum. Nánar má lesa um þetta í starfsreglum peningastefnunefndar sem eru staðfestar af bankaráði Seðlabanka Íslands.
Greinargerðir til ríkisstjórnar um verðbólgu
Í sameiginlegri yfirlýsingu Seðlabanka Íslands og ríkisstjórnar Íslands um verðbólgumarkmið er kveðið á um að Seðlabankinn sendi ríkisstjórn greinargerð ef verðbólga fer undir 1% eða yfir 4%. Þessi mörk fela ekki í sér neina aðra formlega kvöð fyrir Seðlabankann. Í greinargerðinni þarf að koma fram hver ástæða frávikanna er, hvernig bankinn hyggst bregðast við og hve langan tíma hann telur að það taki að ná verðbólgumarkmiðinu að nýju.
Greinargerðir
Skýrslur og fundir PSN með þingnefndum Alþingis
Seðlabanka Íslands er falið talsvert vald til ákvarðana sem hafa bein áhrif á líf fólks hér á landi. Þetta fyrirkomulag hefur kallað á aukið eftirlit með Seðlabankanum og auknar kröfur um gegnsæi í störfum bankans. Liður í því er að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands gefur Alþingi skýrslur um störf sín tvisvar á ári og gerir nánari grein fyrir þeim á fundum með nefnd á vegum þingsins. Frá og með árinu 2019 hafa ytri nefndarmenn peningastefnunefndar einnig haft möguleika á að senda árlega sérstaka greinargerð.