Bankastjórn var framan af skipuð þremur bankastjórum. Jóhannes Nordal hefur lengst verið starfandi bankastjóri, þ.e. frá 1961 til 1993 eða í 32 ár, þar af í 29 ár, frá 1964 til 1993 sem formaður bankastjórnar. Fyrsti formaður bankastjórnar var Jón G. Maríasson, en Jóhannes Nordal var síðan formaður lengst allra, eða frá 1964 til 1993. Árið 2009 var lögum um bankann breytt og mælt fyrir um að einn aðalbankastjóri skyldi starfa við bankann og einn aðstoðarbankastjóri. Í ársbyrjun 2020 tóku gildi ný lög sem kveða á um einn seðlabankastjóra og þrjá varaseðlabankastjóra. Seðlabankastjóri er Ásgeir Jónsson (frá 20. ágúst 2019). Varaseðlabankastjóri peningastefnu er Þórarinn G. Pétursson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika er Tómas Brynjólfsson og varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits er Björk Sigurgísladóttir.
Frá stofnun Seðlabanka Íslands árið 1961 til ársins 2025 hafa 20 einstaklingar gegnt embætti seðlabankastjóra. Frá 1961 og til febrúar 2009 skipuðu þrír einstaklingar bankastjórn, þar af var einn formaður bankastjórnar. Eftir breytingu á lögum um Seðlabankann 2009 var aðeins einn bankastjóri og einn aðstoðarseðlabankastjóri til 2020. Samkvæmt lögum sem tóku gildi 2020 er einn seðlabankastjóri og þrír varaseðlabankastjórar.
Frá 1961 til 2001 kusu bankastjórarnir formann bankastjórnar úr eigin röðum til þriggja ára í senn. Samkvæmt lögum sem tóku gildi 2001 skipaði ráðherra formann bankastjórnar. Frá 2009 hefur ráðherra skipað seðlabankastjóra til fimm ára í senn með möguleika á endurskipun einu sinni, þannig að seðlabankastjóri getur verið skipaður að hámarki til tíu ára. Við stofnun bankans var skipun seðlabankastjóra ekki bundin við tiltekinn embættistíma.
Seðlabankastjórar frá stofnun Seðlabanka Íslands árið 1961 eru eftirtaldir:
Jón G. Maríasson 1961-1967
Formaður bankastjórnar 1961-1964
Jón Guðmundsson Maríasson (1898-1970) var skipaður seðlabankastjóri við stofnun bankans 1961. Jón hóf um tvítugt störf í útibúi Landsbankans á Ísafirði eftir að hafa stundað verslunarnám í Kaupmannahöfn og verslunarstörf þar og á Ísafirði. Þar var hann kjörinn bæjarfulltrúi fyrir Íhaldsflokkinn árið 1928. Árið 1930 tók Jón við starfi í aðalstöðvum bankans í Reykjavík og vann sig smám saman upp, var bókari, aðalbókari og aðstoðarbankastjóri og varð einn af bankastjórum bankans árið 1945 og síðan einn af bankastjórum í Landsbankanum-Seðlabankanum frá 1957-1961. Við stofnun Seðlabanka Íslands 1961 var hann skipaður einn af þremur seðlabankastjórum og var af þeim valinn fyrsti formaður bankastjórnar.
Jóhannes Nordal 1961-1993
Formaður bankastjórnar 1964-1993
Jóhannes Nordal (1924-2023) var skipaður seðlabankastjóri við stofnun bankans 1961 og gegndi því embætti sleitulaust til 1993. Jóhannes hafði lokið doktorsprófi í félagsfræði frá London School of Economics, en hafði áður hlotið BS-gráðu í hagfræði. Jóhannes kom ungur til starfa í Landsbanka Íslands, fyrst meðfram námi. Í Landsbankanum stýrði Jóhannes meðal annars hagfræðideild bankans og var hagfræðingur Landsbankans frá 1954. Hann tók við stöðu bankastjóra Landsbankans-Viðskiptabankans um áramótin 1958/59 áður en hann var skipaður einn af þremur bankastjórum Seðlabanka Íslands við stofnun hans 1961. Hann gegndi svo stöðu formanns bankastjórnar Seðlabankans frá 1964 þar til hann lét af störfum árið 1993. Jóhannes var einnig formaður stjórnar Landsvirkjunar frá 1965 til 1995 og gegndi margvíslegum fleiri trúnaðarstörfum sem tengdust efnahagslífi, menningarlífi og fræðasamfélagi á Íslandi. Jóhannesi var veitt heiðursdoktorsnafnbót við félagsvísindadeild Háskóla Íslands árið 1988 og við viðskipta- og hagfræðideild Háskólans árið 1989.
Vilhjálmur Þór 1961-1964
Vilhjálmur Þór (1899-1972) var skipaður seðlabankastjóri við stofnun bankans árið 1961. Vilhjálmur lauk skyldunámi og hóf ungur störf innan samvinnuhreyfingarinnar og var framkvæmdastjóri Kaupfélags Eyfirðinga frá 1923-1938. Eftir það var hann skipaður aðalræðismaður Íslands í Bandaríkjunum. Hann sat um tíma í bæjarstjórn Akureyrar fyrir Framsóknarflokkinn. Hann var skipaður bankastjóri Landsbankans 1940, varð utanríkisráðherra í utanþingsstjórn 1942 til 1944 og tók síðan aftur við embætti bankastjóra Landsbankans þar til hann varð forstjóri Sambands íslenskra samvinnufélaga 1946 til1954. Þá varð hann aftur bankastjóri Landsbankans og var skipaður bankastjóri Landsbanka Íslands-Seðlabankans við lagabreytingu sem gerð var 1957. Við stofnun Seðlabanka Íslands 1961 varð Vilhjálmur einn af þremur seðlabankastjórum til ársins 1964 er hann tók sæti í framkvæmdastjórn Alþjóðabankans í Washington.
Sigtryggur Klemensson 1966-1971
Sigtryggur Klemensson (1911-1971) var skipaður seðlabankastjóri árið 1966. Hann lauk prófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1937. Hann réðst fljótlega til fjármálaráðuneytisins og var þar ráðuneytisstjóri í 14 ár til 1966 er hann var skipaður seðlabankastjóri. Sigtryggur sat í miðstjórn Framsóknarflokksins frá 1944 til 1967 og sat í stjórn Sogsvirkjunar, Landsvirkjunar, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Efnahagsstofnunar, auk þess sem hann sat í bankaráði Framkvæmdabankans.
Davíð Ólafsson 1967-1986
Davíð Ólafsson (1916-1995) var skipaður seðlabankastjóri árið 1967. Davíð lauk hagfræðiprófi frá háskólanum í Kiel í Þýskalandi árið 1939. Hann var forseti Fiskifélags Íslands og fiskimálastjóri frá 1940-1967 og eftir það seðlabankastjóri frá 1967 til 1986. Davíð sat í stjórnum og var formaður ýmissa sjóða sem tengdust atvinnulífi, átti sæti í bankaráði Framkvæmdabanka Íslands 1961-1966 og í stjórn Framkvæmdasjóðs 1966-1968. Hann var í sendinefnd Íslands á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Róm 1955 um verndun lífrænna auðæfa hafsins og í sendinefnd Íslands á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Genf 1958 og 1960 um réttarreglur á hafinu. Davíð sat á Alþingi á kjörtímabilinu 1963-1967 fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Svanbjörn Frímannsson 1971-1973
Svanbjörn Frímannsson (1903-1992) var skipaður seðlabankastjóri árið 1971. Hann hóf störf í útibúi Íslandsbanka á Akureyri 1920 eftir að hafa lokið námi frá Gagnfræðaskóla Akureyrar. Eftir stutta veru í Íslandsbanka hóf hann störf í útibúi Útvegsbankans á Akureyri og var þar til 1935. Þá fór hann til námsdvalar í Danmörku, Þýskalandi og Englandi og færði sig síðan til Landsbanka Íslands í Reykjavík og varð aðalbókari 1945 og um leið staðgengill bankastjóra. Hann varð aðstoðarbankastjóri 1956 og einn af þremur bankastjórum viðskiptadeildar Landsbanka Íslands við skipulagsbreytingu sem gerð var árið 1957.
Guðmundur Hjartarson 1974-1984
Guðmundur Hjartarson (1914-2007) var skipaður seðlabankastjóri árið 1974. Hann var lögregluþjónn í Reykjavík frá 1942-1946, starfsmaður Sósíalistaflokksins frá 1946-1956 og forstöðumaður Innflutningsskrifstofunnar frá 1956-1960. Hann gegndi mörgum ábyrgðarstöðum fyrir Alþýðubandalagið. Guðmundur sat í bankaráði Búnaðarbankans, var í stjórn KRON (Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis) og Áburðarverksmiðju ríkisins. Hann var formaður byggingarstjórnar Seðlabankans frá 1982 til 1988.
Tómas Árnason 1985-1993
Tómas Árnason (1923-2014) var skipaður seðlabankastjóri árið 1985. Hann lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1949, rak málflutningsskrifstofu á Akureyri, stundaði framhaldsnám við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum 1951-1952 og lauk þar prófi í alþjóðaverslunarrétti. Hann varð héraðsdómslögmaður 1950 og hæstaréttarlögmaður 1964. Hann var starfsmaður í utanríkisráðuneytinu 1953-1960 og forstöðumaður og deildarstjóri varnarmáladeildar frá stofnun hennar 1953 til 1960. Þá rak hann málflutningsskrifstofu 1960–1972. Hann var framkvæmdastjóri Framkvæmdastofnunar ríkisins 1972–1978 og 1983–1984. Tómas gegndi um ævina ýmsum störfum og trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn og var fulltrúi Íslands í stjórnum og samkomum á erlendum vettvangi.
Tómas var alþingismaður Austurlands 1974–1984 fyrir Framsóknarflokkinn, var fjármálaráðherra 1978–1979 og viðskiptaráðherra 1980–1983.
Geir Hallgrímsson 1986-1990
Geir Hallgrímsson (1925-1990) var skipaður seðlabankastjóri árið 1986. Hann lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1948 og stundaði framhaldsnám í lögfræði og hagfræði við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum. Hann hlaut héraðsdómslögmannsréttindi 1951 og hæstaréttarlögmannsréttindi 1957.
Geir rak málaflutningsskrifstofu í Reykjavík 1951–1959 og var forstjóri H. Benediktsson hf. 1955–1959 og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og var formaður hans frá 1973 til 1983.
Geir var borgarstjóri í Reykjavík 1959–1972 og alþingismaður Reykvíkinga 1970–1983 fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann var forsætisráðherra 1974-1978 og utanríkisráðherra 1983-1986.
Birgir Ísleifur Gunnarsson 1991-2005
Formaður bankastjórnar 1994-2005, skipaður formaður 2001 samkvæmt nýsettum lögum
Birgir Ísleifur Gunnarsson (1936-2019) var skipaður seðlabankastjóri 1994. Hann lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1961, varð héraðsdómslögmaður 1962 og hæstaréttarlögmaður 1967.
Hann var framkvæmdastjóri Sambands ungra sjálfstæðismanna 1961–1963 og rak eigin lögmannsstofu í Reykjavík 1963–1972. Birgir sat í ýmsum stjórnum og nefndum á vegum Sjálfstæðisflokksins.
Birgir var borgarstjóri í Reykjavík 1972–1978, var alþingismaður Reykvíkinga 1979–1991 fyrir Sjálfstæðisflokkinn og var menntamálaráðherra 1987–1988.
Jón Sigurðsson 1993-1994
Formaður bankastjórnar 1993-1994
Jón Sigurðsson (1941) var skipaður seðlabankastjóri í júlí 1993. Hann lauk fil.kand.- prófi í þjóðhagfræði, tölfræði o. fl. frá Stokkhólmsháskóla 1964 og MSc Econ.-prófi í þjóðhagfræði frá London School of Economics and Political Science 1967.
Jón var hagfræðingur við Efnahagsstofnun 1964–1967, deildarstjóri hagdeildar þar 1967–1970 og hagrannsóknastjóri þar 1970–1971, forstöðumaður hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins 1972–1974 og forstjóri Þjóðhagsstofnunar 1974–1986. Hann var fastafulltrúi Norðurlanda í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 1980–1983. Jón sinnti ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Íslands hönd á innlendum og erlendum vettvangi.
Jón var alþingismaður Reykvíkinga frá 1987-1991 fyrir Alþýðuflokkinn og alþingismaður Reyknesinga 1991-1993. Hann var dóms- og kirkjumála- og viðskiptaráðherra 1987–1988, og iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1988–1993.
Eftir að Jón lét af störfum í Seðlabankanum varð hann aðalbankastjóri Norræna fjárfestingarbankans í Helsinki frá 1994 til 2005. Hann var formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins 2008-2009.
Jón átti sæti í stjórn Hins íslenska bókmenntafélags frá 2006 til 2022. Hann var kjörinn forseti Hins íslenska bókmenntafélags 2015 og gegndi því embætti til 2022.
Eiríkur Guðnason 1994-2009
Eiríkur Guðnason (1945-2011) var skipaður seðlabankastjóri árið 1994. Hann lauk prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1970. Hann hóf störf við hagfræðideild Seðlabankans 1969, varð forstöðumaður peningamáladeildar 1977 og aðalhagfræðingur bankans 1984. Árið 1987 varð Eiríkur aðstoðarseðlabankastjóri og 1994 var hann skipaður seðlabankastjóri.
Eiríkur sat í stjórn Verðbréfaþings Íslands frá stofnun þess 1985 til ársins 2009, lengst af sem formaður. Hann sat í stjórn Reiknistofu bankanna um tíma og í stjórn Þjóðhátíðarsjóðs frá 2006 til 2009.
Steingrímur Hermannsson 1994-1998
Steingrímur Hermannsson (1928-2010) var skipaður seðlabankastjóri árið 1994. Hann lauk BSc.-prófi í rafmagnsverkfræði frá Illinois Institute of Technology í Chicago 1951 og MSc.-prófi frá California Institute of Technology í Pasadena 1952. Steingrímur var verkfræðingur hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur 1952–1953 og hjá Áburðarverksmiðjunni hf. 1953–1954. Hann var verkfræðingur við Southern California Edison Company í Los Angeles 1955–1956, framkvæmdastjóri Rannsóknarráðs ríkisins 1957–1978 og framkvæmdastjóri atvinnumálanefndar ríkisins 1957–1961.
Steingrímur var í hreppsnefnd Garðahrepps 1970–1974. Hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn og var formaður hans 1979–1994. Hann sat í stjórn Framkvæmdasjóðs 1969-1971, í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins 1972-1978 og sat í bankaráði Landsbanka Íslands 1991-1994.
Steingrímur var alþingismaður Vestfirðinga 1971-1987 og alþingismaður Reyknesinga 1987-1994 fyrir Framsóknarflokkinn.
Hann var dóms- og kirkjumála- og landbúnaðarráðherra 1978–1979, sjávarútvegs- og samgönguráðherra 1980–1983, forsætisráðherra 1983–1987 og 1988–1991 og utanríkisráðherra 1987–1988.
Finnur Ingólfsson 2000-2002
Finnur Ingólfsson (1954) var skipaður seðlabankastjóri árið 2000. Hann lauk viðskiptafræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1984. Hann var framkvæmdastjóri Prjónastofunnar Kötlu 1975–1976 og framkvæmdastjóri Prjónastofunnar Dyngju 1977–1978. Þá var hann aðstoðarmaður sjávarútvegsráðherra 1983–1987 og aðstoðarmaður heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 1987–1991.
Finnur var formaður stúdentaráðs Háskóla Íslands 1981–1982 og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn, var gjaldkeri flokksins 1986-1994 og varaformaður 1998-2001.
Finnur var alþingismaður Reykvíkinga 1991–1999 fyrir Framsóknarflokkinn. Hann var iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1995–1999. Eftir að störfum Finns í Seðlabankanum lauk tók hann þátt í ýmsum verkum í atvinnulífinu, m.a. fjárfestingu í Búnaðarbankanum og var um tíma forstjóri tryggingafélagsins VÍS.
Ingimundur Friðriksson 2002-2003 (settur), 2006-2009 (skipaður)
Ingimundur Friðriksson (1950) var settur seðlabankastjóri 2002-2003 og skipaður árið 2006. Hann lauk BA-prófi í hagfræði frá University of South Florida 1973 og MA-prófi í hagfræði frá University of Virginia 1975. Hann var hagfræðingur í Seðlabankanum frá 1975 til 1982, þá varð hann aðstoðarmaður fastafulltrúa Norðurlandanna í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til 1984, því næst hagfræðingur í alþjóðadeild Seðlabankans til 1986 og loks forstöðumaður hennar til 1991. Þá varð hann varafastafulltrúi Norðurlandanna í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í nokkra mánuði þar til hann varð fastafulltrúi Norðurlandanna og síðar einnig Eystrasaltslandanna í framkvæmdastjórn sjóðsins til 1993.
Ingimundur var ráðunautur bankastjórnar Seðlabankans 1993-1994 og aðstoðarbankastjóri 1994-2002. Hann var settur bankastjóri í Seðlabankanum 2002-2003, tók þá aftur við starfi aðstoðarbankastjóra til 2006 er hann var skipaður seðlabankastjóri og gegndi því embætti til febrúar 2009.
Eftir það réðst Ingimundur til Seðlabanka Noregs og starfaði þar til 2016. Hann varð ráðgjafi á sviði alþjóðasamskipta og á skrifstofu bankastjóra Seðlabanka Íslands 2016-2018 og ráðgjafi á skrifstofu bankastjóra Seðlabankans frá 2020.
Jón Sigurðsson 2003-2006
Jón Sigurðsson (1946-2021) var skipaður seðlabankastjóri árið 2003. Hann brautskráðist árið 1969 með BA-próf í íslensku og sagnfræði frá Háskóla Íslands. Hann vann við kennslustörf í gagnfræðaskólum, menntaskólum og háskólum hér á landi og í Svíþjóð til ársins 1975. Hann útskrifaðist með MA-gráðu í menntunarfræðum og kennslustjórnun frá Columbia Pacific University í San Rafael í Bandaríkjunum árið 1988 og með doktorsgráðu í sömu greinum árið 1990. Þá lauk hann MBA-gráðu í rekstrarhagfræði og stjórnun frá National University í San Diego í Bandaríkjunum árið 1993.
Jón var ritstjóri Tímans frá 1978 til 1981. Hann tók þá við starfi skólastjóra Samvinnuskólans á Bifröst og varð síðar rektor Samvinnuháskólans á Bifröst til ársins 1991. Hann var framkvæmdastjóri Vinnumálasambandsins 1997-1999.
Jón var iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2006–2007. Hann var formaður Framsóknarflokksins á sama tíma.
Davíð Oddsson 2005-2009
Formaður bankastjórnar 2005-2009
Davíð Oddsson (1948) var skipaður seðlabankastjóri árið 2005. Hann lauk prófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1976. Davíð var skrifstofustjóri Leikfélags Reykjavíkur 1970-1972, þingfréttaritari Morgunblaðsins 1973-1974, starfsmaður Almenna bókafélagsins 1975, skrifstofustjóri Sjúkrasamlags Reykjavíkur 1976-1978 og framkvæmdastjóri þess 1978-1982.
Davíð sinnti margvíslegum trúnaðar- og stjórnarstörfum fyrir Reykjavíkurborg og stjórnvöld og var borgarstjóri í Reykjavík 1982-1991. Hann var varaformaður Sjálfstæðisflokksins 1989-1991 og formaður hans 1991-2005.
Davíð var alþingismaður Reykvíkinga 1991-2003 og alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis norður 2003–2005 fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Davíð var forsætisráðherra 1991-2004, utanríkisráðherra 2004-2005 og fór jafnframt með dóms- og kirkjumálaráðuneytið og sjávarútvegsráðuneytið í skamman tíma.
Svein Harald Øygard 2009-2009 (settur)
Svein Harald Øygard (1960) var settur seðlabankastjóri í febrúar 2009. Hann lauk þjóðhagfræðiprófi frá Oslóarháskóla árið 1985. Hann var ráðgjafi í fjármálaráðuneyti Noregs, ritari fjárlaganefndar norska Stórþingsins og fjárlagahóps Verkamannaflokksins í Stórþinginu. Svein Harald var starfsmaður í fjármálaráðuneyti Noregs 1983-1988 og var aðstoðarfjármálaráðherra 1990-1994. Árið 1995 hóf Svein Harald störf hjá ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey & Company og varð framkvæmdastjóri þess árið 2006. Svein Harald var settur seðlabankastjóri á Íslandi frá febrúar til ágúst 2009. Eftir það hóf hann aftur störf hjá McKinsey & Company, en hefur síðan verið stjórnarformaður flugfélagsins Norwegian og úthafsskipafélagsins DOF Group, auk þess sem hann hefur stofnað og þróað nokkur fyrirtæki.
Már Guðmundsson 2009-2019
Már Guðmundsson (1954) var skipaður seðlabankastjóri til 5 ára frá 19. ágúst 2009 og var endurskipaður til 5 ára frá 19. ágúst 2014.
Már útskrifaðist frá háskólanum í Essex í Bretlandi árið 1979 með BA-gráðu í hagfræði og frá háskólanum í Cambridge í Bretlandi með M.phil.-gráðu í hagfræði árið 1980. Á árunum 1987-1988 stundaði hann doktorsnám í hagfræði við háskólann í Cambridge.
Már var hagfræðingur í Seðlabankanum frá 1980 til 1988 er hann varð efnahagsráðgjafi fjármálaráðherra og gegndi því starfi til ársins 1991. Þá réðst hann á ný til Seðlabankans og gegndi þar fyrst um sinn starfi forstöðumanns á hagfræðisviði til ársins1994 er hann varð aðalhagfræðingur bankans og framkvæmdastjóri hagfræðisviðs. Á árunum 2004 til 2009 gegndi Már starfi aðstoðarframkvæmdastjóra peningamála- og hagfræðisviðs Alþjóðagreiðslubankans í Basel í Sviss. Að loknum embættistíma sínum í Seðlabankanum hefur Már sinnt ýmsum rannsóknar- og ráðgjafarstörfum, m.a. fyrir samtök seðlabanka í Suðaustur Asíu og íslensk stjórnvöld.
Samhliða meginstörfum sínum hefur Már setið í marvíslegum stjórnum og nefndum, og sinnt tímabundnum verkefnum. Má þar t.d. nefna formennsku í nefnd á vegum Reykjavíkurborgar um orkustefnu 2002-2004, stjórnarsetu í Íslenska járnblendifélaginu 2000-2003, ráðgjöf á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við seðlabankann í Trinidad og Tobago 1998-1999 og formennsku í stjórn Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda 1989-1991. Auk þess hefur Már verið í ritstjórnun hagfræðitímarita hjá Alþjóðagreiðslubankanum, í Bretlandi og á Íslandi.
Ásgeir Jónsson 2019-
Ásgeir Jónsson (1970) var skipaður seðlabankastjóri árið 2019 til fimm ára og endurskipaður árið 2024. Hann lauk BS-prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands árið 1994, meistaraprófi í hagfræði frá háskólanum í Indiana 1997 og doktorsprófi í hagfræði frá sama skóla árið 2001. Hann var um tíma hagfræðingur verkalýðsfélagsins Dagsbrúnar. Á árunum 2000-2004 var Ásgeir sérfræðingur hjá Hagfræðistofnun og samhliða því stundakennari við Háskóla Íslands. Ásgeir var forstöðumaður í greiningardeild og aðalhagfræðingur Kaupþings og síðar Arion banka á árunum 2004-2011.
Ásgeir starfaði við hagfræðideild Háskóla Íslands frá árinu 2004, fyrst sem lektor og síðan dósent. Hann varð deildarforseti við hagfræðideild árið 2015. Hann hefur einnig gegnt öðrum ábyrgðar- og ráðgjafarstörfum fyrir bæði stjórnvöld, félagasamtök og einkaaðila, m.a. sem formaður starfshóps um endurskoðun peningastefnunnar á árunum 2016-2018.
Ásgeir hefur ritað fjölda fræðilegra greina og bóka um hagsögu og efnahagsmál, svo sem bókina „Why Iceland“ og „The Icelandic Financial Crisis: A Study into the World‘s Smallest Currency Area and its Recovery from Total Banking Collapse.“
Formenn bankaráðs frá upphafi
Birgir Kjaran, 1961-1973
Ragnar Ólafsson, 1973-1976
Jón Skaftason, 1977-1979
Ingi R. Helgason, 1979-1980
Halldór Ásgrímsson, 1981-1983
Sverrir Júlíusson, 1983-1984
Jónas G. Rafnar, 1985-1986
Ólafur B. Thors, 1986-1990
Ágúst Einarsson, 1990-1994
Þröstur Ólafsson, 1994-1998
Ólafur G. Einarsson, 1998-2006
Helgi S. Guðmundsson, 2006-2007
Halldór Blöndal, 2007-2009
Lára V. Júlíusdóttir, 2009 - 2013
Ólöf Nordal, 2013 - 2014
Jón Helgi Egilsson, 2014 – 2015 (Var varaformaður og tók við er Ólöf Nordal tók við
ráðherraembætti)
Þórunn Guðmundsdóttir, 2015 – 2018
Gylfi Magnússon, 2018 – 2025
Bolli Héðinsson, 2025 -
Fjöldi starfsmanna bankans hefur tekið nokkrum breytingum frá upphafi. Í lok fyrsta starfsársins voru starfsmenn 61. Næstu árin fjölgaði þeim nokkuð, reyndar alveg fram undir 1990, þegar þeir voru um 150. Eftir það dró úr ýmissi starfsemi bankans, m.a. í tengslum við gjaldeyriseftirlit, auk þess sem bankaeftirlit var flutt frá bankanum þegar Fjármálaeftirlitið var stofnað. Starfsmönnum fjölgaði nokkuð í kjölfar þeirra erfiðleika sem riðu yfir í efnahagsmálum haustið 2008 og í árslok 2018 voru starfsmenn 181. Með sameiningu við Fjármálaeftirlitið í ársbyrjun 2020 fjölgaði starfsmönnum bankans talsvert aftur og urðu um 300 talsins.
Hús Seðlabanka Íslands við Arnarhól er eitt af helstu kennileitum í hjarta Reykjavíkur. Forseti Íslands, frú Vigdís Finnbogadóttir, lagði hornstein að húsi Seðlabankans 6. maí 1986. Seðlabankinn flutti starfsemi sína í húsið árið 1987, en fram til þess tíma var bankinn í sambýli með Landsbankanum í þremur húsum við Austurstræti og Hafnarstræti. Segja má að byggingin við Arnarhól sé að mestum hluta sérhönnuð með þarfir Seðlabankans og skyldrar starfsemi í huga. Gólfflötur hússins er ríflega 13 þúsund fermetrar. Byggingin skiptist í aðalhús, fimm hæðir við Arnarhól, en sex við Skúlagötu og Kalkofnsveg, og lágbyggingu sem er tvær til þrjár hæðir. Kjallari er undir allri byggingunni, niðurgrafinn að fullu.
Arkitektar hússins eru þeir Guðmundur Kr. Guðmundsson og Ólafur Sigurðsson. Með veggjum sem snúa að Kalkofnsvegi kalla þeir fram ímynd virkis, en fyrst og fremst er litið til þess að byggt sé til langs tíma; um er að ræða trausta og viðhaldslitla nútímabyggingu. Hún er að hluta klædd með áli og er ein fyrsta bygging af því tagi hér á landi. Á útveggjum lágbyggingar og súlum hábyggingar er gabbrósteinn úr Hoffelli í Hornafirði.
Bygging Seðlabankahússins átti sér langan aðdraganda. Sambúðin með Landsbankanum varði hátt á þriðja áratug. Árið 1978 keypti bankinn lítið hús á stórri lóð við Einholt 4 í Reykjavík til að sameina geymslurými sem var á þremur stöðum í borginni. Þar var byggt þriggja hæða hús sem er um 2000 fermetrar að stærð. Í þessu húsi er nú mestur hluti af skjala- og bókasafni bankans ásamt gögnum úr Myntsafni Seðlabanka og Þjóðminjasafns, geymslurými og bifreiðageymsla.
Árið 1981 komst skriður á byggingarmál bankans með samningi við Reykjavíkurborg um makaskipti á lóð sem bankinn átti við Sölvhólsgötu og lóð Sænska frystihússins við norðanverðan Arnarhól. Í byrjun árs 1982 samþykkti byggingarnefnd borgarinnar teikningar nýs bankahúss, og framkvæmdir hófust. Risgjöld voru haldin í júlí 1984, og var þá tekið til við að einangra húsið að utan og klæða.
Á byggingartíma efndu Reykjavíkurborg og Seðlabankinn til hugmyndasamkeppni um hlutverk og mótun Arnarhóls, borginni til prýði og fyrsta landnámsmanninum til heiðurs.
Byggingin hefur hýst fleiri stofnanir en Seðlabankann. Reiknistofa bankanna hefur haft þar aðstöðu og enn fremur höfðu Þjóðhagsstofnun og Iðnþróunarsjóður þar aðstöðu um tíma.
Bókasafn Seðlabanka Íslands gegnir því hlutverki að varðveita efni sem bankinn hefur gefið út.
Skjalasafn Seðlabanka Íslands starfar í samræmi við lög nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn og ná skjöl bankans aftur til stofnunar Seðlabankans árið 1961. Fyrstu 20 árin stóðu Seðlabankinn og Landsbanki Íslands saman að rekstri skjalasafns þar sem varðveitt voru gögn bankanna beggja allt frá stofnun þeirra. Árið 1981 var gerður samningur um að bókhaldsbækur og skjöl Landsbankans frá fyrri tíð skyldi varðveita með skjalasafni Seðlabankans. Frá árinu 2002 hafa gögn bankans verið skráð með kerfisbundnum hætti í rafrænt skjalastjórnunarkerfi.
Stofninn í myntsafninu er íslensk mynt og seðlar.
Seðlabanki og Þjóðminjasafn Íslands hafa með sér samstarf um rekstur myntsafnsins. Samningur um það efni var staðfestur af menntamálaráðherra 28. janúar 1985. Þar er kveðið á um að myntfræðilegt efni stofnananna beggja skuli haft í einu safni sem bankinn rekur, þó þannig að jarðfundnar myntir og sjóðir séu eftir sem áður í Þjóðminjasafni.