Nóbelsverðlaun í hagfræði veitt fyrir rannsóknir á fjármálastöðugleika
Nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 2022 hlutu Ben S. Bernanke, Douglas W. Diamond og Philip H. Dybvig, fyrir framlag til rannsókna á bönkum og fjármálakreppum. Konunglega sænska vísindaakademían tilkynnti um veitingu verðlaunanna mánudaginn 10. október síðastliðinn.
Bernanke er mörgum kunnur sem formaður bankastjórnar bandaríska seðlabankakerfisins frá 2006 til 2014. Þar áður var hann fræðimaður við Stanford-háskóla, New York-háskóla og Princeton-háskóla, þar sem hann var prófessor og forseti hagfræðideildar, auk þess að vera um tíma helsti ráðgjafi forseta Bandaríkjanna í efnahagsmálum. Í dag sinnir hann fræðistörfum við Brookings-stofnunina. Hann lauk doktorsprófi í hagfræði frá Tækniháskóla Massachusetts (MIT) árið 1979.
Diamond er prófessor í fjármálum við viðskiptafræðideild Chicago-háskóla og hefur gegnt þeirri stöðu síðan hann lauk doktorsprófi frá Yale-háskóla árið 1980. Dybvig er prófessor í bankahagfræði og fjármálum við Washington-háskóla í St. Louis í Missouri og hefur gegnt þeirri stöðu síðan 1990, auk þess að kenna við háskóla í Chengdu, í Sichuan-héraði í Kína um árabil. Frá því að Dybvig lauk doktorsprófi í hagfræði frá Yale árið 1980 þar til hann tók við stöðunni í Missouri kenndi hann og sinnti rannsóknum við hagfræðideildir Yale og Princeton-háskóla.
Kenning Ben Bernanke um fjármálahraðalinn
Helsta framlag Ben Bernanke til hagfræðinnar er kenningin um fjármálahraðalinn (e. the financial accelerator), sem talin hefur verið til nýrra stofnanakenninga og þar með í hópi nýkeynesískra hagfræðikenninga. [1] Kenninguna setti Bernanke fram og útfærði á tímabilinu frá 1987 til 1998, í samvinnu við þá Mark Gertler og Simon Gilchrist. [2] Kenningin gengur út á að útskýra áhrif fjármálakerfisins á hagsveiflur og átti mikinn þátt í því að endurvekja áhuga þjóðhagfræðinga á mikilvægi fjármálakerfisins fyrir hagþróun. Allt frá því skömmu eftir kreppuna miklu og fram á 9. áratuginn, má segja að fjármál hafi færst út á jaðar þjóðhagfræðinnar. Þótt John Maynard Keynes hafi sjálfur lagt áherslu það hlutverk sem samdráttur fjárfestingar (sem er nátengd lánsfjárframboði fjármálakerfisins) lék í hruni heildareftirspurnar í kreppunni miklu þá lögðu hvorki keynesistarnir sem sigldu í kjölfar hans né talsmenn nýklassískra kenninga, t.d. peningamagnshyggju (e. monetarism), áherslu á hlut fjármálakerfisins í því ferli. [3]
Lykilatriði í kenningunni um fjármálahraðalinn er kostnaður fjármálalegrar milligöngu (e. cost of financial intermediation), sem ákvarðast ekki bara af grunnvaxtastigi hvers hagkerfis, heldur fleiri kostnaðarliðum á borð við upplýsingakostnað, eftirlitskostnað og tækifæriskostnað. Þar sem kostnaður fylgir fjármálalegri milligöngu reyna lántakendur að fjármagna sig eftir hagkvæmustu leiðum sem eru í boði hverju sinni. Það hvernig þeim gengur að sækja sér fjármagn veltur, samkvæmt kenningunni, einna helst á eiginfjárstöðu þeirra (e. net worth) og raunar líka eiginfjárstöðu lánveitenda.
Meðal helstu lærdóma sem Bernanke dró af kenningunni má nefna að breytingar á hvort heldur sem er heildareftirspurn eða heildarframboði hafa áhrif á hagsveifluna. Margir forverar hans og samtímamenn vildu hins vegar einblína á aðra hvora hliðina. Eftirspurn í tilfelli Keynesisma, en framboð í tilfelli nýklassíkur.
Annar lærdómur er að fjármálakerfið er hvorki áhrifalaust á hagsveifluna, né eina undirrót hennar. Frumdrifkraftarnir geta verið áföll í raunhagkerfinu, breyttar væntingar heimila eða hvaðeina annað, en óstöðugleiki í fjármálakerfinu magnar upp áhrif þessara áfalla og lengir þannig og dýpkar hagsveifluna. Af þessu dregur kenningin um fjármálahraðalinn nafn sitt. Þá eru áhrif hans ekki alltaf af sömu stærðargráðu. Þau eru mun kröftugri þegar áfallið er þungt í hlutfalli við viðnámsþrótt fjármálafyrirtækja, atvinnufyrirtækja og heimila. Einnig eru áhrifin ósamhverf, því hin fjármálalegu áhrif magna kreppur mun frekar en hagvaxtarskeið.
Fjármálalegur óstöðugleiki kemur heldur ekki jafnt niður á öllum. Efnaminni heimili verða fyrir meiri skerðingu á lánsfjáraðgengi í kreppum heldur en þau efnameiri. Fyrirtæki sem eiga lítið af óveðsettum eignum verða sömuleiðis fyrir meiri skerðingu á lánsfjáraðgangi. Litlir bankar draga meira úr lánsfjárframboði í kreppum en stórir og stór fyrirtæki með mikið lánstraust verða fyrir mun minni áhrifum af fjármálahraðlinum, á meðan lítil fyrirtæki líða frekar fyrir áhrifin.
Rannsóknir Bernanke á fjármálahraðlinum beindust ekki síst að því sem gerðist í kreppunni miklu og þykja útskýringar hans á hversu djúp og löng sú kreppa var afar trúverðugar. [4] Samkvæmt kenningunni um fjármálahraðalinn er besta leiðin til að skilja kreppuna miklu að líta fyrst og fremst á hana sem fjármálakreppu en ekki sem efnahagssamdrátt sem vill svo til að hafði í för með sér vandræði í fjármálakerfinu. Á meðal þess sem Bernanke sýndi fram á var að efnahagssamdrátturinn var mun meiri í þeim ríkjum sem gengu í gegnum bankakreppu en í löndum þar sem ekki urðu bankakreppur. Þau ríki sem gengu í gegnum bankakreppur voru jafnframt einna helst þau sem höfðu haft gjaldmiðil á gullfæti og upplifðu mikla verðhjöðnun, höfðu haft minni banka með veikari fjárhagsstöðu, síður áhættudreifð eignasöfn og meira af erlendum skammtímaskuldum.
Í seinni tíð hefur Ben Bernanke beint sjónum sínum að alþjóðlegu fjármálakreppunni árið 2008 og áhrifum hennar á efnahagsþróun. Hefur hann þar verið með svipaðar skýringar og áður og lagt áherslu á kostnað fjármálalegrar milligöngu sem lykilatriði. [5]
Líkan Diamond og Dybvig af lausafjáráhættu, bankaáhlaupum og innstæðutryggingum
Helsta framlag þeirra Douglas Diamond og Philip Dybvig til hagfræðinnar er að finna í fræðigrein frá árinu 1983. [6] Í greininni, sem í dag er sú sem mest er vitnað í innan bankahagfræðinnar, settu þeir fram fremur einfalt líkan. Við fyrstu sýn gæti líkanið virst svo einfalt að ekki sé neitt á því byggjandi. Tímaás líkansins hefur aðeins þrjá tímapunkta. Innan þess er engin framleiðsla, aðeins eru veittar „vöggugjafir“. Ekki eru nema tvær manngerðir í líkaninu, þ.e. þolinmótt fólk og óþolinmótt, einn banki og aðeins ein gerð fjármálagerninga. Þrátt fyrir þennan einfaldleika getur líkanið hins vegar af sér fjöldamargar áhugaverðar niðurstöður.
Í fyrsta lagi lýsir líkanið því grundvallareinkenni banka að þeir fjármagna sig með útgáfu skammtímaskulda en lána út til langs tíma. Lesendur þekkja þetta af eigin raun. Stór hluti lausafjár heimila er bankainnstæður á veltu- eða sparnaðarreikningum. Lausafjáreignin er jafnframt skuld viðkomandi banka við heimilin og er hún að miklu leyti laus til úttektar eða ráðstöfunar hvenær sem. Að sama skapi er mestur hluti skulda heimilanna íbúðalán, sem greidd eru upp yfir marga áratugi. Af þessu sprettur lausafjáráhætta, þ.e. hættan á því að banki verði krafinn um greiðslu á stórum hluta eða jafnvel öllum skuldbindingum sínum, en eigi ekki laust fé til að mæta þeirri kröfu. Diamond og Dybvig voru hvorki fyrstir né síðastir til að lýsa þessu einkenni bankastarfsemi með stærðfræðilegu líkani, en útfærsla þeirra þykir einna best heppnuð. [7]
Út frá þessu grundvallareinkenni sýna höfundarnir fram á hvort tveggja, mögulega gagnsemi og mögulega skaðsemi banka fyrir velferð almennings. Innan líkansins felst gagnsemi banka í því að gera fólki kleift að fjármagna ábatasamar langtímafjárfestingar en njóta um leið aðgangs að lausu fé til að mæta ófyrirséðri útgjaldaþörf. Nokkuð sem er fólki ómögulegt án bankans. En sá böggull fylgir skammrifi að því meira gagn sem bankar reyna að gera með þessum hætti, því meiri lausafjáráhættu taka þeir á sig og því viðkvæmari verða þeir fyrir áföllum. Séu allar eignirnar laust fé gerir bankinn ekkert gagn því hann skapar engin verðmæti og eykur velferð viðskiptavina sinna heldur ekkert. Séu allar eignirnar langtímafjárfestingar er hins vegar sífelld hætta á greiðslufalli bankans.
Samkvæmt þessu má telja að til sé einhver hagkvæm skipting eignasafns banka niður í laust fé annars vegar og torseljanlegar langtímafjárfestingar hins vegar. Með líkaninu má því sýna fram á þörfina fyrir ábyrga lausafjárstýringu í bönkum. Laust fé er eins konar stuðpúði sem hjálpar bönkum að takast á við óvissu og áföll. Sé lausafjárstýringin rétt framkvæmd getur bankastarfsemi stuðlað að hámarksvelferð í samfélaginu með hagkvæmri ráðstöfun sparifjár og hagkvæmum útlánum sem leiða til fjárfestinga í hagkerfinu. Það er þekkt sem „góða jafnvægið“ í líkani þeirra Diamond og Dybvig.
Í þriðja lagi gagnast líkan þeirra til að útskýra háttsemi innstæðueigenda, þegar bankaáhlaup eiga sér stað, sem rökræna hegðun en ekki órökréttan múgæsing (e. panic). Fyrr á tíð voru bankaáhlaup gjarnan talin múgæsingur sem stafaði af kjaftasögum, skilningsleysi og taugaveiklun. Sú sýn birtist til dæmis í gömlum kvikmyndum eins og Mary Poppins frá 1964 (sjá hér) og í samtímaheimildum um bankakreppur 19. aldar. Innan líkansins er hegðun innstæðueigenda hins vegar útskýrð með einfaldri leikjafræði. Sýnt er fram á að hún geti stafað af viðleitni innstæðueigenda til að hámarka eigin hag, eftir að hafa með rökvísum hætti vegið og metið valkostina sem þeir eiga: að taka út úr bankanum eða ekki. Í því samhengi skiptir ekki eingöngu máli hver raunveruleg fjárhagsstaða bankans er, heldur einnig hvað allir aðrir innstæðueigendur ætla sér að gera. Vandinn er hins vegar sá að ákveði þeir allir að taka út, sem nefnt er „slæma jafnvægið“, þá kemur það harkalega niður á heildarvelferð þeirra. [8]
Samkvæmt fyrri tíma sýn er helsta vörnin gegn bankaáhlaupum sú að mælskur og rökhugsandi leiðtogi haldi innblásna ræðu yfir innstæðueigendum og komi einfaldlega fyrir þá vitinu. En samkvæmt sýn Diamond og Dybvig er lausnin sú að setja upp viðeigandi stofnanaumgjörð í kringum bankakerfið. Stofnunin sem þeir benda á eru innstæðutryggingar, sem komi í veg fyrir að slæma jafnvægið myndist. Þó eru innstæðutryggingar ekki uppfinning þeirra Diamond og Dybvig, enda fyrst innleiddar á landsvísu í Bandaríkjunum árið 1933, hálfri öld áður en grein þeirra birtist. Þeir renndu hins vegar styrkari fræðilegum stoðum undir innstæðutryggingar en áður höfðu þekkst og settu um leið fram líkan sem nýtist til margvíslegrar greiningar á bönkum og fjármálastöðugleika.
Í kjölfarið á grein þeirra Diamond og Dybvig hefur birst aragrúi ritrýndra fræðigreina þar sem byggt er á líkani þeirra og þýðing þess könnuð frá ótal sjónarhornum með því að slaka á eða breyta forsendum þess, bæta við það og gagnrýna. [9] Samkvæmt IDEAS, vef sem heldur utan um ritrýnd fræðiskrif á sviði hagfræði hefur verið vitnað 3.533 sinnum í greinina í öðrum fræðigreinum.
Höfundur: Önundur Páll Ragnarsson, sérfræðingur á sviði fjármálastöðugleika hjá Seðlabanka Íslands
Heimildir:
- Hinar nýju stofnanakenningar (e. new institutional economics) gera ráð fyrir að fólk sé rökhugsandi og reyni ávallt að hámarka eigin hag, en um leið að fólk geti skort skilning á hagkerfinu, geti skort upplýsingar og átt í erfiðleikum með að hafa eftirlit með athöfnum viðsemjenda sinna og eftirfylgni við gildandi samninga. Af þessu hlýst viðskiptakostnaður. Þessi ófullkomleiki hagkerfisins er, samkvæmt þessum kenningum, útskýringin á tilvist ýmissa stofnana samfélagsins. Þær eru, samkvæmt kenningunum, hagkvæmar lausnir á þeim vandamálum sem hár viðskiptakostnaður skapar.
- Þær greinar sem helst ber að nefna eru eftirfarandi:
- Bernanke, B. & Gertler, M. (1987). Banking and Macroeconomic Equilibrium. Kafli í W. Barnett, & K. Singleton (ritstj.), New Approaches to Monetary Economics. Cambridge University Press.
- Bernanke, B. & Gertler, M. Agency Costs, Net Worth, and Business Fluctuations. American Economic Review, 79. árg., 1. tbl., bls. 14-31, mars 1989.
- Bernanke, B. & Gertler, M. Financial Fragility and Economic Performance. The Quarterly Journal of Economics, 105. árg., 1. tbl., febrúar 1990, bls. 87-114.
- Bernanke, B. & Gertler, M. Inside the Black Box: The Credit Channel of Monetary Policy Transmission. Journal of Economic Perspectives, 9. árg., 4. tbl., haust 1995.
- Bernanke, B., Gertler, M. & Gilchrist, S. The Financial Accelerator and the Flight to Quality. The Review of Economics and Statistics, MIT Press, árg. 78, 1. tbl. (febrúar), bls. 1-15.
- Bernanke, B., Gertler, M. & Gilchrist, S. The financial accelerator in a quantitative business cycle framework, kafli í J. B. Taylor & M. Woodford (ritstj.), Handbook of Macroeconomics, 1. útg., 1. árg., kafli 21, bls. 1341-1393, Elsevier.
- Undantekningin sem sannar regluna eru e.t.v. kenning Hyman Minsky um fjármálalegan óstöðugleika (e. financial instability hypothesis) og skrif Charles A. Kindleberger um fjármálakreppur.
- Bernanke, B. Non-Monetary Effects of the Financial Crisis in the Propagation of the Great Depression. The American Economic Review, 73. árg., 3. tbl., júní 1983, bls. 257-276 og Bernanke, B. & James, H. (1991). The Gold Standard, Deflation, and Financial Crisis in the Great Depression: An International Comparison, kafli í Hubbard, R.G. (ritstj.), Financial Markets and Financial Crises. Chicago University Press. Sjá einnig greinar sem vitnað er til í neðanmálsgrein 1.
- Bernanke, B. The real effects of Disrupted Credit: Evidence from the Global Financial Crisis. Brookings Papers on Economic Activity, haust 2018. Sjá hér: https://www.brookings.edu/bpea-articles/the-real-effects-of-the-financial-crisis/
- Diamond, D.W. og Dybvig, P.H. Bank Runs, Deposit Insurance, and Liquidity. Journal of Political Economy, 91. árg., 3. tbl (Júní 1983), bls. 401-419. University of Chicago. Sjá hér: https://www.journals.uchicago.edu/doi/abs/10.1086/261155
- Aðrir hagfræðingar höfðu verið á svipuðum slóðum á árunum fyrir 1983 án þess e.t.v. að hitta jafnbeint í mark og þeir Diamond og Dybvig. Sjá t.d. Kareken, J.H. og Wallace, N. Deposit Insurance and Bank Regulation: A Partial-Equilibrium Exposition. The Journal of Business, 51. árg., 3. tbl. (júlí 1978), bls. 413-438.
- Þeir Diamond og Dybvig voru ekki heldur fyrstir til þess að skilja háttsemi innstæðueigenda sem rökrétta. Segja má að Kindleberger, Minsky og Walter Bagehot hafi einnig gert það í sínum skrifum. Framlag Diamond og Dybvig er fyrst og fremst það að lýsa bankaáhlaupum með einföldum og gagnlegum hætti innan stærðfræðilegs líkans, sem í kjölfarið er hægt að útfæra áfram með margvíslegum hætti.
- Af áhugaverðum greinum sem byggja á Diamond-Dybvig líkaninu má nefna Jacklin, C.J. (1987) Demand Equity and Deposit Insurance. Stanford Research Paper No. 1062., þar sem kannað er hvort hlutabréfamarkaðir og verðbréfasjóðir geti leyst banka af hólmi og bankar séu í raun óþarfar stofnanir. Einnig er byggt á Diamond-Dybvig líkaninu í Allen, F. og Gale, D. (2000) Financial Contagion. Journal of Political Economy, 108. útg., 1. tbl., bls. 1-33. Höfundarnir nota líkanið þar til að sýna hvernig óstöðugleiki getur verið staðbundinn til að byrja með en síðan smitast um bankakerfi. Einnig mætti nefna Wallace, N. (1996). Narrow Banking Meets the Diamond-Dybvig model. Federal Reserve Bank of Minneapolis Quarterly Review, 20. árg., 1. tbl. (vetur 1996), bls. 3-13. Höfundurinn kannar þar verðleika tillagna um að banna fjármögnun langtímafjárfestinga með óbundnum bankainnstæðum.