logo-for-printing

15. desember 2022

Hefur kjölfesta verðbólguvæntinga veikst?

Vísbendingar eru um að kjölfesta verðbólguvæntinga í verðbólgumarkmiði Seðlabankans hafi veikst undanfarið eins og nánar er rakið í rammagrein 2 í Peningamálum 2022/4.

Verðbólguvæntingar hafa hækkað töluvert undanfarið ár. Það kemur ekki á óvart að mikil aukning verðbólgu undanfarið ýti upp væntingum um verðbólgu til skemmri tíma. Það er hins vegar öllu alvarlegra ef það verður til þess að almenningur, fyrirtæki og markaðsaðilar endurskoða væntingar sínar um verðbólgu til lengri tíma. Þá eru einnig vísbendingar um að skammtímasveiflur í verðbólgu hafi meiri áhrif á verðbólguvæntingar nú en þær hafa gert undanfarin ár. Allt þetta bendir til þess að kjölfesta verðbólguvæntinga í verðbólgumarkmiði Seðlabankans hafi veikst undanfarið.

Eins og sést á mynd 1 tóku væntingar um verðbólgu næstu tvö ár að hækka hratt undir lok síðasta árs og var vænst tæplega 6% verðbólgu að meðaltali á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Langtímaverðbólguvæntingar hafa einnig hækkað undanfarið þótt hækkun þeirra sé heldur hóflegri: þær fóru yfir 3% snemma á þessu ári og voru komnar í 4% um mitt ár eftir að hafa lengi vel verið í ágætu samræmi við verðbólgumarkmiðið. Ljóst virðist því að kjölfesta markmiðsins hafi veikst miðað við það sem kalla má „markmiðs-kjölfestu“ (e. level anchoring).

 

Önnur nálgun til að kanna hvort kjölfesta verðbólguvæntinga hafi veikst er að skoða hvort verðbólguvæntingar verði fyrir áhrifum af óvæntum skammtímasveiflum í verðbólgu (það sem kallað er „shock anchoring“). Hafi væntingar trausta kjölfestu í verðbólgumarkmiðinu má ætla að verðbólguvæntingar – a.m.k. væntingar til nægilega langs tíma – breytist ekki þótt núverandi verðbólga reynist meiri eða minni en búist var við. Við þær aðstæður treystir almenningur og fyrirtæki því að Seðlabankanum takist að koma verðbólgu aftur í markmið þegar frá líður. Sjái þau hins vegar að Seðlabankinn bregst ekki með nægjanlega afgerandi hætti við óvæntri aukningu verðbólgu gæti það haft áhrif á ákvarðanir þeirra og líkur aukast á að tímabundin aukning verðbólgu festist í sessi.

Til að kanna hvort ófyrirséðar skammtímabreytingar í verðbólgu hreyfi við verðbólguvæntingum og hvort þau áhrif hafi aukist er notast við eftirfarandi aðfallsgreiningu:

(1) Δπet+h = βhπtnews + ϵt+h

þar sem Δπet+h er breyting væntinga um verðbólgu h ár fram í tímann, πtnews er ófyrirséð skammtímabreyting verðbólgu og ϵt+h er afgangsliður. Verðbólguvæntingar eru metnar út frá könnunum meðal heimila, fyrirtækja og markaðsaðila og út frá verðbólguálagi á skuldabréfamarkaði og eru til eins, tveggja, fimm og tíu ára (auk fimm ára verðbólguálagsins eftir fimm ár).

Ófyrirséðar skammtímabreytingar verðbólgu eru nálgaðar út frá fráviki miðgildis í spám greiningaraðila á mánaðarlegri breytingu vísitölu neysluverðs en Seðlabankinn hefur safnað þessum gögnum frá ársbyrjun 2006. Notast er við ársfjórðungsleg meðaltöl mánaðartalna og eru spáfrávikin færð á ársgrunn. Stikinn βh mælir þá viðbrögð verðbólguvæntinga til h ára við óvæntri verðbólgumælingu. Stikinn gefur því mat á hversu traust kjölfesta verðbólguvæntinga er. Sé hún nægilega traust ætti hann að vera tölfræðilega ómarktækur frá núlli.

Jafna (1) er metin með ársfjórðungsgögnum frá fyrsta ársfjórðungi 2006 til þriðja ársfjórðungs 2022 fyrir alla mælikvarðana á verðbólguvæntingum yfir fimm ára hreyfanlegan glugga.1 Mynd 2 sýnir matið á áhrifum óvæntrar 1 prósentu aukningar verðbólgu á langtímaverðbólguvæntingar. Áhrifin eru tölfræðilega marktæk framan af en eru horfin í ársbyrjun 2014. Þau taka hins vegar að aukast á ný er líður á tímabilið og eru orðin tölfræðilega marktæk í byrjun þessa árs ef miðað er við 90% öryggisbil matsins (eða á seinni hluta síðasta árs sé miðað við öryggisbil sem samsvarar einu staðalfráviki). Miðað við nýjasta matið veldur óvænt 1 prósentu aukning verðbólgu því að langtímaverðbólguvæntingar eru endurskoðaðar upp á við um 0,4 prósentur. Áhrifin á skammtímaverðbólguvæntingar eru jafnvel meiri.

 

Á heildina litið virðast áhrif óvæntrar verðbólgu á verðbólguvæntingar því hafa farið minnkandi er leið á síðasta áratug í takt við bættan árangur peningastefnunnar við að halda verðbólgu nálægt verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Svo virðist hins vegar sem þessi áhrif hafi aukist á ný undir lok síðasta árs eða þegar kom fram á þetta ár. Þegar það gerist er aukin hætta á því að mikil verðbólga festist í sessi og erfiðara verði að ná henni niður á ný. Hætt er við að efnahagssveiflur aukist og að áhrif ýmissa kostnaðarskella, eins og launahækkana og hækkunar alþjóðlegs olíu- og hrávöruverðs, magnist og verði þrálátari. Það undirstrikar mikilvægi snarpra viðbragða peningastefnunnar undanfarið til að tryggja aftur kjölfestu þeirra í markmiði.

Höfundur: Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands

Neðanmáls:

[1] Verðbólguálagið og gögn um verðbólguvæntingar heimila og fyrirtækja til eins árs ná aftur til ársbyrjunar 2006 en væntingar þeirra til tveggja ára aftur til þriðja ársfjórðungs 2008. Gögn um verðbólguvæntingar markaðsaðila ná aftur til ársbyrjunar 2012. Ekki er hins vegar hægt að notast við gögn um væntingar heimila og fyrirtækja til fimm ára í aðfallsgreiningunni þar sem þau ná einungis aftur til ársins 2018.

Til baka