Fara beint í Meginmál

Útlánakönnun Seðlabanka Íslands 26. janúar 2026

Seðlabankinn framkvæmir ársfjórðungslega útlánakönnun á meðal viðskiptabankanna fjögurra. Spurt er um mat þeirra á þróun framboðs og eftirspurnar eftir lánsfé, um breytingar á útlánareglum, útlánavöxtum og vaxtaálagi og hvaða þættir hafi haft ráðandi áhrif á þær breytingará síðustu þremur mánuðum. Einnig er spurt um væntingar viðskiptabankanna um horfur næstu sex mánuði. Könnunin var síðast framkvæmd 2. til 14. janúar sl. og eru niðurstöðurnar hér byggðar á meðaltali svara viðskiptabankanna.

Helstu niðurstöður

Samkvæmt svörum bankanna hefur framboð viðskiptabankanna á húsnæðislánum til heimila dregist saman síðustu þrjá mánuði sem má líklega rekja til dóms Hæstaréttar í vaxtamálinu svokallaða í október sl. Bankarnir gera hins vegar ráð fyrir lítilsháttar aukningu í framboði húsnæðislána til heimila á næstu sex mánuðum en að framboð annara útlána til heimila haldist óbreytt á tímabilinu.[1] Bankarnir greindu frá lítilsháttar samdrætti í eftirspurn heimila eftir húsnæðislánum á síðustu þremur mánuðum en gera ráð fyrir óbreyttri eftirspurn húsnæðislána á næstu sex mánuðum. Eftirspurn eftir bílalánum jókst samkvæmt svörum bankanna síðustu þrjá mánuði en þeir búast við að hún dragist lítillega saman næstu sex mánuði.

Reglur um útlán til heimila voru óbreyttar á síðustu þremur mánuðum samkvæmt svörum viðskiptabankanna og gera þeir ráð fyrir að þær haldist óbreyttar á næstu sex mánuðum. Þá telja bankarnir að samkeppni við aðra aðila um útlán til heimila muni aukast lítillega á næstu sex mánuðum.

Vextir og vaxtaálag á verðtryggðum útlánum til heimila hækkuðu á síðustu þremur mánuðum samkvæmt svörum bankanna. Breytt regluverk var helsti áhrifaþáttur vaxtahækkana en lægri fjármögnunarkostnaður og lækkun meginvaxta Seðlabankans vógu lítillega á móti hækkuninni. Bankarnir greindu frá því að dómur Hæstaréttar í vaxtamálinu hafi dregið úr sveigjanleika í verðlagningu, einkum verðtryggðra útlána. Gera þeir ráð fyrir að vextir og vaxtaálag á verðtryggðum útlánum til heimila haldist óbreytt á næstu sex mánuðum.

Vextir á óverðtryggðum útlánum til heimila lækkuðu á síðustu þremur mánuðum samkvæmt könnuninni en vaxtaálag þeirra lána hækkaði lítillega. Lækkun meginvaxta Seðlabankans hafði þar einna mest áhrif, en einnig fjármögnunarkostnaður bankanna. Breytt regluverk hafði lítil áhrif til hækkunar. Bankarnir gera ráð fyrir að vextir á óverðtryggðum íbúðalánum lækki áfram á næstu sex mánuðum samhliða væntingum um lækkun meginvaxta og breytt regluverk en að vaxtaálag verði óbreytt yfir tímabilið. Þess má geta að CRR3 reglugerð Evrópusambandsins var innleidd í íslensk lög um áramótin. Reglugerðin felur m.a. í sér breytingar á eiginfjárbindingu bankanna vegna útlána, sem hefur áhrif á það hvernig lán eru verðlögð. Samkvæmt svörum bankanna geta áhrifin bæði verið til hækkunar og lækkunar.

Bankarnir greindu frá því að framboð fyrirtækjalána í íslenskum krónum hafi verið óbreytt á síðustu þremur mánuðum en að framboð lána til stærri fyrirtækja í erlendum gjaldmiðlum hafi aukist á sama tíma. Gera þeir ráð fyrir svipaðri þróun á næstu sex mánuðum. Samkvæmt svörum bankanna stóð eftirspurn fyrirtækja eftir lánsfjármögnun í íslenskum krónum í stað á síðustu þremur mánuðum en eftirspurn stærri fyrirtækja eftir lánsfjármagni í erlendum gjaldmiðlum jókst lítillega. Bankarnir gera ráð fyrir að eftirspurn fyrirtækja eftir útlánum í íslenskum krónum dragist lítillega saman á næstu sex mánuðum, bæði meðal minni og stærri fyrirtækja, en að eftirspurn stærri fyrirtækja eftir lánum í erlendum gjaldmiðlum aukist lítillega áfram.

Reglur bankanna um lánveitingar til fyrirtækja voru óbreyttar á síðustu þremur mánuðum samkvæmt könnuninni og gera bankarnir ekki ráð fyrir breytingum á útlánareglum á næstu sex mánuðum. Þá telja þeir að samkeppni um útlán til fyrirtækja verði óbreytt næstu sex mánuði.

Samkvæmt svörum bankanna lækkuðu vextir á verðtryggðum útlánum til bæði minni og stærri fyrirtækja lítillega á síðustu þremur mánuðum samhliða lækkun meginvaxta Seðlabankans og aukinnar samkeppni, vaxtaálag var þó óbreytt. Vextir á óverðtryggðum útlánum til fyrirtækja lækkuðu einnig á síðustu þremur mánuðum, einna helst vegna lækkunar meginvaxta en einnig vegna lægri fjármögnunarkostnaðar bankanna en vaxtaálag var óbreytt. Vextir á útlánum í erlendum gjaldmiðlum til stærri fyrirtækja lækkuðu jafnframt lítillega á sama tíma og vaxtaálag einnig, bæði hjá minni og stærri fyrirtækjum.

Bankarnir gera ekki ráð fyrir breytingum á vöxtum og vaxtaálagi á verðtryggðum útlánum til fyrirtækja næstu sex mánuði en að vextir á óverðtryggðum útlánum til fyrirtækja lækki samhliða væntingum um lækkun meginvaxta þó regluverk vegi lítillega á móti til hækkunar. Gert er ráð fyrir að vaxtaálag haldist óbreytt. Þá gera þeir ráð fyrir að vextir á útlánum til fyrirtækja í erlendri mynt haldist óbreyttir yfir sama tímabil en að vaxtaálag þeirra lána lækki lítillega.

[1] Í könnuninni er útlánum til heimila skipt upp í húsnæðislán, bílalán og önnur lán. Útlánum til fyrirtækja er skipt upp í langtíma- og skammtímalán. Jafnframt er spurt sérstaklega um útlán í erlendum gjaldmiðlum bæði fyrir heimili og fyrirtæki.