logo-for-printing

04. október 2021

Kerfisáhætta fer vaxandi

Seðlabanki Íslands gaf fyrir skömmu út ritið Fjármálastöðugleiki 2021/2. Ritið kemur út tvisvar á ári. Því er meðal annars ætlað að stuðla að upplýstri umræðu um styrk- og veikleika fjármálakerfisins og áhættu sem því kann að vera búin bæði af þjóðhagslegum og rekstrarlegum toga. Samandregna niðurstöðu ritsins má sjá á mynd 1. Í ritinu kemur fram að Seðlabankinn varar við því að hætta sé á að hratt hækkandi eignaverð samhliða auknum skuldavexti heimila geti falið í sér vaxandi kerfisáhættu. Mat bankans er einnig að staða stóru viðskiptabankanna þriggja sé mjög sterk og viðnámsþróttur þeirra mikill.

 

Miklar hækkanir á eignamörkuðum

Innlendir eignamarkaðir hafa tekið verulega við sér á sl. 12 mánuðum, bæði hefur velta aukist umtalsvert og eignaverð hækkað hratt. Margt bendir til að ójafnvægi fari hratt vaxandi á eignamörkuðum og óvissa um framhaldið aukist. Hlutabréfaverð hefur hækkað um 57% á síðustu 12 mánuðum og er á suma mælikvarða orðið frekar hátt. Til að mynda mælist frávik þess frá langtímaleitni nú meira en það hefur verið frá árinu 2008. Fasteignaverð hefur einnig hækkað mikið, árshækkun vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu mældist 11,6% að raunvirði í lok ágúst, um 10% á fjölbýli og um 15% á sérbýli. Auglýstar eignir voru 45% færri í ágúst sl. en á sama tíma fyrir ári, meðalsölutími er nálægt sögulegu lágmarki og hátt hlutfall íbúða selst yfir ásettu verði. Frávik íbúðaverðs frá langtímaleitni er nú tæplega 14% og hefur ekki mælst meira síðan árið 2008. Verðhækkanir á markaðnum hafa einnig verið umfram ákvarðandi þætti, s.s. launaþróun og byggingarkostnað.

Mikil hækkun á fasteignaverði og verulega aukin velta á markaðnum hefur drifið áfram skuldavöxt heimilanna. Hefur ársvöxturinn aukist töluvert á síðustu mánuðum og mældist í lok júlí 6,8% að raunvirði samanborið við 4,3% í lok apríl sl. Vísbendingar eru um að útlánagæði nýrra íbúðalána hafi versnað þar sem veðsetningar- og greiðslubyrðarhlutföll virðast hafa hækkað þrátt fyrir mikla hækkun fasteignaverðs og ráðstöfunartekna. Það kann bæði að skýrast af því að minna sé um endurfjármögnun og einnig kann aukin skuldsetningu lántaka að hafa áhrif. Gjalda ber varhug við hratt hækkandi eignaverði samhliða aukinni skuldsetningu, en slíkt er merki um aukna kerfisáhættu.

 

 

Staða stóru bankanna sterk

Samhliða efnahagsbatanum og auknum hagvexti hefur arðsemi bankanna aukist og dregið úr vanskilum, bæði hjá heimilum og fyrirtækjum. Vanskilahlutföll bankanna eru nú álíka há og þau voru fyrir farsóttina. Bankarnir hafa á síðustu ársfjórðungum tekjufært að nýju hluta þeirrar virðisrýrnunar sem gjaldfærð var á síðasta ári. Virðisrýrnunarsjóður bankanna stóð í 1,34% af útlánasafninu í lok júní sl., sem er svipað og í árslok 2019, og hafði lækkað úr 1,84% um sl. áramót.

Þrátt fyrir mikla útlánaaukningu til heimila á síðustu mánuðum hafa bankarnir viðhaldið mjög sterkri lausafjárstöðu. Í lok ágúst sl. höfðu bankarnir til ráðstöfunar 290 ma.kr. umfram lágmarks lausafjárkröfu Seðlabankans og hafði sú fjárhæð hækkað um 43 ma.kr. á sl. 12 mánuðum. Vaxtaálag á erlendar markaðsskuldabréfaútgáfur bankanna hefur áfram verið lágt og bankarnir hafa greiðan aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum. Heldur hefur dregið úr markaðsfjármögnun þeirra í krónum.

Bregðast þarf við rekstraráhættu í fjármálainnviðum

Rekstraráhætta í fjármálainnviðum, einkum rafrænni smágreiðslumiðlun, hefur raungerst í nokkrum tilvikum á síðustu vikum. Nauðsynlegt er að hver og einn rekstraraðili hugi að öryggi sinna kerfa og viðeigandi viðbúnaðaráætlunum sem tryggi samfelldan rekstur. Jafnframt þarf að treysta umgjörð kerfisins í heild og samhæfa aðgerðaráætlanir til að bregðast við aukinni áhættu á þessu sviði. Rafræn innlend smágreiðslumiðlun fer í dag að stórum hluta í gegnum erlenda kortainnviði. Óháð innlend rafræn smágreiðslulausn án tengingar við alþjóðlega innviði þarf að vera til staðar. Slík lausn gæti meðal annars þjónað sem varaleið í innlendri smágreiðslumiðlun á tímum neyðar.

Höfundur: Eggert Þröstur Þórarinsson, aðstoðarframkvæmdastjóri á sviði fjármálastöðugleika.

Nýjustu útgáfu Fjármálastöðugleika má nálgast hér: Fjármálastöðugleiki 2021/2

Til baka