logo-for-printing

04. október 2021

Nýleg þjóðhagsspá og nýjar þjóðhagsreikningatölur

Seðlabanki Íslands birti nýja þjóðhagsspá hinn 26. ágúst síðastliðinn, tæpri viku áður en Hagstofan birti fyrstu bráðabirgðatölur um þjóðhagsreikninga á öðrum ársfjórðungi ásamt endurskoðun eldri talna. Eins og endranær eru ýmsar upplýsingar í þjóðhagsreikningunum sem hafa áhrif á forsendur spárinnar og á niðurstöður hennar. Að þessu sinni voru óvenju mikil áhrif vegna breyttrar aðferðafræði hjá Hagstofunni sem veldur því að mat á nokkrum stærðum á fyrri hluta ársins breytist allnokkuð. Þrátt fyrir það eru þjóðhagsreikningarnir í ágætu samræmi við ágústspá Seðlabankans um vöxt innlendrar eftirspurnar og nokkuð kröftugan efnahagsbata.

 

Spá Seðlabankans í ágúst 2021

Í vor var ljóst að efnahagslífið hafði tekið við sér að nokkru leyti eftir mikinn samdrátt vegna farsóttar og sóttvarnaraðgerða í fyrra. Því var búist við miklum hagvexti á öðrum ársfjórðungi en hann er mældur sem breyting landsframleiðslu frá sama fjórðungi fyrra árs. Í ágúst spáði Seðlabankinn því að landsframleiðsla á fyrri helmingi ársins yrði 4,7% meiri en á sama tíma í fyrra og að vöxturinn yrði aðallega drifinn áfram af innlendri eftirspurn sem óðum færðist í fyrra horf. Bankinn spáði 5,2% vexti einkaneyslu á fyrri helmingi ársins og 7,2% vexti fjárfestingar.
 

Bráðabirgðatölur Hagstofunnar í ágúst 2021

Hagstofan birti bráðabirgðatölur þjóðhagsreikninga fyrir annan ársfjórðung í lok ágúst ásamt endurskoðun eldri talna. Samkvæmt þjóðhagsreikningunum var vöxtur þjóðarútgjalda, sem eru mælikvarði á innlenda eftirspurn, heldur meiri en Seðlabankinn hafði spáð. Vöxtur innlendrar eftirspurnar mældist 5,9% á fyrri hluta ársins sem er prósentu yfir spánni. Hagvöxtur var aftur á móti 3,5% samkvæmt bráðabirgðatölunum, sem er rúmri prósentu minna en bankinn spáði í ágúst. Stærsti liður ráðstöfunaruppgjörs þjóðhagsreikninga er einkaneysla og reyndist hún hafa vaxið hægar samkvæmt bráðabirgðatölunum en spáð var eða um 4,7% á fyrri helmingi ársins, sem er um hálfri prósentu minna en var spáð. Samneyslan óx aftur á móti um 2,7% samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar sem er hálfri prósentu meira en Seðlabankinn spáði en vægi samneyslunnar í vergri landsframleiðslu er mun minna en vægi einkaneyslunnar.

Fjárfesting jókst mun meira milli ára en spáð var eða um 13,1% á fyrri helmingi ársins en ekki 7,2% eins og Seðlabankinn spáði. Stærstu hluti munarins skýrist þó af breytingu á flokkun leigusamninga um flugvélar. Ef horft er til atvinnuvegafjárfestingar án stóriðju, skipa og flugvéla, jókst hún um 16,1% á fyrri árshelmingi en spá bankans var 16,7%. Þar sem flugvélarnar teljast nú til fjárfestingar þá koma þær einnig inn í innflutning, sem hefur neikvæð áhrif á verga landsframleiðslu á móti. Þess vegna er framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar mun neikvæðara í bráðabirgðatölum þjóðhagsreikninga en spáð var. Þessu til viðbótar jókst útflutningur aðeins um 1,6% á fyrri hluta ársins frá sama tíma árið áður en gert var ráð fyrir 4,9% vexti í spánni. Þar munar mest um þjónustuútflutning sem jókst 30% minna milli ára en gert var ráð fyrir. 10,5% vöxtur vöruútflutnings var hins vegar í takt við ágústspá bankans.

 

Samantekt

Þegar grannt er skoðað sést að þrátt fyrir verulega endurskoðun þjóðhagsreikninga eru nýju tölurnar þrátt fyrir allt að segja svipaða sögu og nýjasta spá Seðlabankans um vöxt innlendrar eftirspurnar og hraðan efnahagsbata. Munur á hagvaxtartölum á fyrri hluta ársins á sér að miklu leyti tæknilega skýringu (þ.e. vegna endurflokkunar) að þessu sinni og því ekki endilega ástæða til þess að álykta að bráðabirgðatölur þjóðhagsreikninga beri vott um hægari efnahagsbata en Seðlabankinn spáði í ágúst.

Höfundur: Lúðvík Elíasson, forstöðumaður á sviði hagfræði og peningastefnu.


Til baka