logo-for-printing

09. febrúar 2022

Peningamál í hnotskurn

Kröftugur efnahagsbati var í helstu viðskiptalöndum fram eftir síðasta ári. Bakslag í þróun farsóttarinnar og áframhaldandi neikvæð áhrif alþjóðlegra framboðshnökra gerðu það hins vegar að verkum að hægja tók á hagvexti undir lok ársins og enn frekar það sem af er nýju ári. Horfur eru því á heldur minni hagvexti í ár í helstu viðskiptalöndum en spáð var í Peningamálum í nóvember. Alþjóðleg verðbólga hefur jafnframt aukist mun meira en áður var spáð.

Landsframleiðslan hér á landi jókst um 4,1% á fyrstu þremur fjórðungum síðasta árs sem var heldur minna en gert var ráð fyrir í nóvember. Vísbendingar eru hins vegar um töluvert meiri vöxt innlendrar eftirspurnar á síðasta fjórðungi ársins og því er talið að hagvöxtur á árinu öllu hafi verið 1 prósentu meiri en þá var spáð eða 4,9%. Hagvöxtur á fyrsta fjórðungi þessa árs hefur hins vegar verið endurskoðaður niður á við í ljósi mikillar fjölgunar smita undanfarið. Talið er að hann verði 4,8% á árinu öllu í stað 5,1% í nóvemberspá bankans. Horfur fyrir næstu tvö ár breytast hins vegar lítið.

 

Störfum heldur áfram að fjölga hratt og atvinnuleysi nálgast það stig sem það var á fyrir heimsfaraldurinn. Útlit er fyrir að atvinnuleysi haldi áfram að minnka og verði komið í um 4% undir lok spátímans sem er áþekkt því stigi sem talið er samræmast jafnvægi á vinnumarkaði. Vísbendingar eru jafnframt um að slakinn í þjóðarbúinu sé horfinn.

Verðbólga mældist 5,7% í janúar og hefur ekki verið meiri í næstum áratug. Mikil hækkun húsnæðisverðs vegur þungt en því til viðbótar gætir áhrifa mikilla hækkana alþjóðlegs hrávöruverðs og flutningskostnaðar. Innlendur verðbólguþrýstingur hefur einnig aukist sem endurspeglar m.a. töluverða hækkun launa og húsnæðisverðs. Verðbólga án húsnæðis hefur jafnframt aukist og hið sama má segja um undirliggjandi verðbólgu sem mældist 4,4% í janúar. Þá hafa langtímaverðbólguvæntingar hækkað. Talið er að verðbólga verði 5,8% að meðaltali á fyrsta fjórðungi ársins sem er 1,4 prósentum meiri verðbólga en spáð var í nóvember sl. Gert er ráð fyrir að hún verði yfir 5% fram eftir þessu ári og verði ekki komin undir 4% fyrr en í byrjun næsta árs og fari ekki undir 3% fyrr en á seinni hluta spátímans. Verðbólguhorfur hafa því versnað töluvert frá því í nóvember sem má fyrst og fremst rekja til kröftugri efnahagsbata innanlands og þrálátari hækkunar húsnæðisverðs. Þá hafa alþjóðlegar verðhækkanir verið meiri en gert var ráð fyrir.

Efnahagshorfur næstu missera byggjast á þeirri forsendu að ekki verði alvarlegt bakslag í baráttunni við farsóttina og að áfram vindi ofan af þeim framboðstruflunum sem hafa leitt til mikilla verðhækkana á ýmissi hrávöru. Um þessa forsendu ríkir mikil óvissa. Hætta á stríðsátökum í Evrópu og hratt vaxandi verðbólga um allan heim hafa aukið enn frekar á óvissuna. Þá gæti hækkun verðbólguvæntinga bent til þess að verðbólga verði jafnvel þrálátari en nú er spáð. 

Hægt er að lesa febrúarhefti Peningamála hér: Peningamál 1/2022

Höfundur: Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands.

Til baka