Gagnvirkir Hagvísar og stafræn vegferð Seðlabankans
Hagvísar Seðlabanka Íslands eru gefnir út í dag í fyrsta sinn á gagnvirku formi. Með þessu er stigið tímamótaskref í stafrænni vegferð bankans í átt að bættri miðlun upplýsinga. Hagvísar voru fyrst gefnir út í upphafi árs 2002, þ.e. fyrir rúmlega tuttugu árum síðan, og hafa verið gefnir út í núverandi mynd síðan sumarið 2008 þar sem notendur hafa getað skoðað ritið á PDF-formi og sótt tímaraðir gagna í Excel-skjöl. Gagnvirkir Hagvísar eru framfaraskref sem gerir notendum þeirra kleift að vinna með gögn á aðgengilegri og auðveldari hátt en áður.
Gagnvirkir Hagvísar
Í Hagvísum Seðlabanka Íslands er birt myndrænt yfirlit yfir þróun efnahagsmála, safn hagvísa og yfirlit um stöðu fjármálakerfisins hér á landi og í helstu viðskiptalöndum Íslands. Ritið samanstendur af eftirfarandi tíu köflum: I. Verðlagsþróun og verðbólguvæntingar, II. Framleiðsla og eftirspurn, III. Utanríkisviðskipti og ytri skilyrði, IV. Vinnumarkaður og tekjur, V. Opinber fjármál, VI. Eignamarkaðir, VII. Heimili og fyrirtæki, VIII. Fjármálamarkaðir, IX. Fjármálakerfið og X. Alþjóðleg efnahagsmál og erlendur samanburður.
Útgáfa gagnvirkra Hagvísa felur í sér ýmsar nýjungar. Auðvelt verður að fletta á milli mismunandi kafla og mynda og velja stakar myndir til frekari skoðunar. Hægt er að skoða gögnin á myndunum með því að færa bendillinn yfir ákveðna tímapunkta á myndunum. Eins er hægt að breyta tímaásum og skoða þannig þróun yfir undirtímabil og geta lesendur þá bæði horft á mjög stutt afmarkað tímabil og með einu handtaki lengt tímabilið og séð þróun gagnanna yfir lengri tíma. Þá má breyta sérhverri mynd í töflu með einföldum hætti og skoða tímaraðir myndanna í heild. Aðgengi að tímaröðum verður fyrst um sinn tiltækt með sama hætti og áður með flýtileið úr gagnvirku Hagvísunum í Excel-skjöl með tímaröðum á heimasíðu Seðlabanka Íslands. Þá er stefnt að því að myndirnar uppfærist þegar ný gögn berast.
Samhliða útgáfu gagnvirkra Hagvísa verður hefðbundin PDF-útgáfa með Excel-skjölum einnig aðgengileg fyrst um sinn en gagnvirkum Hagvísum er ætlað að leysa PDF-útgáfuna af hólmi í nánustu framtíð. Sé ósamræmi á milli gagnvirku útgáfunnar og PDF-útgáfunnar gilda PDF-útgáfan og Excel-skjölin.
Vakin er athygli á að gagnvirkir Hagvísar eru í fyrstu útgáfu eingöngu aðgengilegir á íslensku en ensk útgáfa verður aðgengileg eftir að fullri innleiðingu lýkur.
Stafræn vegferð
Seðlabanki Íslands er þekkingarstofnun þar sem tímaraðir og önnur gögn eru undirstaða þeirra greininga sem liggja að baki ákvörðunum hans. Umfangsmikil öflun og úrvinnsla gagna á sér stað innan bankans og hefur hann um langt skeið birt fjölda gagna um íslenskt efnahagslíf og fjármálakerfið á heimasíðu sinni (www.sedlabanki.is).
Seðlabankanum er falið mikilvægt hlutverk í hagstjórn á Íslandi. Meginhlutverk hans eru að stuðla að stöðugu verðlagi, stöðugu, öruggu og virku fjármálakerfi og traustri og öruggri fjármálastarfsemi á Íslandi. Á starfssviði hans eru gerðar ítarlegar greiningar til grundvallar ákvörðunartöku, m.a. í peningamálum, hvernig beita skuli tækjum til að stuðla að fjármálastöðugleika og hvaða aðgerða er þörf við eftirlit með fjármálakerfinu.
Mikilvægt er að gagnsæi ríki um störf Seðlabankans þannig að almenningur, fyrirtæki og stjórnvöld hafi aðgang að forsendum þeirra ákvarðana sem bankinn tekur. Gagnsæi er grunnforsendan að baki þeim valdheimildum sem bankanum eru veittar. Þannig eykst traust á starfsemi bankans en jafnframt veitir bætt aðgengi að gögnum öðrum tækifæri til þess að nýta sér þau í greiningum, rannsóknum, rekstri og daglegu lífi.
Gagnsæi ber að hafa að leiðarljósi í öllum störfum Seðlabankans. Þess vegna eru ákvarðanir bankans kynntar opinberlega og stjórnendur bankans sitja fyrir svörum á opnum fundum þegar helstu ákvarðanir eru kynntar svo sem ákvarðanir um vexti og um aðgerðir sem lúta að fjármálastöðugleika. Jafnframt birtir bankinn gagnsæistilkynningar um mikilvægar ákvarðanir og niðurstöður athugana í fjármálaeftirliti.
Gagnvirkir Hagvísar eru hluti af þeirri vegferð sem Seðlabankinn hóf árið 2020 til að efla stafræna þróun innan bankans. Síðastliðin tvö ár hafa verið þróuð gagnvirk mælaborð til að nota í innri starfsemi bankans og hafa þau nú þegar verið tekin í notkun þvert á svið hans.
Seðlabanki Íslands mun halda áfram á þessari vegferð og væntir þess að geta gert gögn bankans enn aðgengilegri á komandi misserum. Mikilvægur liður í því er ný og nútímalegri heimasíða bankans, en endurnýjun hennar stendur yfir og þess er vænst að henni verði lokið á næsta ári, öllum til gagns og vonandi nokkurs gamans.
Höfundar:
Guðríður Lilla Sigurðardóttir, sérfræðingur á sviði fjármálastöðugleika,
Bjarni Þór Gíslason, forstöðumaður á sviði upplýsingatækni og gagnasöfnunar,
Anna Sif Scheving G., sérfræðingur á sviði upplýsingatækni og gagnasöfnunar,
Guðjón Emilsson, hagfræðingur á sviði hagfræði og peningastefnu.