logo-for-printing

23. ágúst 2023

Peningamál í hnotskurn

Hægt hefur á hagvexti í helstu viðskiptalöndum Íslands en þó minna en gert var ráð fyrir í maíspá Peningamála. Horfur eru þó áfram á litlum hagvexti í ár og á næsta ári eða um 1% á ári. Lækkun orkuverðs gerir það að verkum að almenn verðbólga hefur minnkað í þróuðum ríkjum en undirliggjandi verðbólga hefur reynst mun þrálátari þrátt fyrir töluverða hækkun vaxta helstu seðlabanka heimsins.

Hagvöxtur hér á landi mældist 7% á fyrsta fjórðungi þessa árs þar sem kröftugur vöxtur einkaneyslu og útflutnings vó þyngst, auk þess sem nokkur aukning mældist í birgðum á fjórðungnum. Þótt þetta hafi verið heldur meiri hagvöxtur en mældist að meðaltali á síðasta ári var vöxturinn minni en búist var við í maíspá bankans. Gert hafði verið ráð fyrir enn meiri vexti einkaneyslu og þá reyndust fjárfestingarumsvif, sérstaklega í íbúðabyggingu og í orkufrekum iðnaði, töluvert minni en áætlað hafði verið. Vísbendingar eru um að vöxtur innlendrar eftirspurnar hafi gefið enn frekar eftir á öðrum fjórðungi ársins. Hægari vöxtur á fyrri hluta ársins gerir það að verkum að nú er gert ráð fyrir 3,5% hagvexti á árinu öllu en ekki 4,8% líkt og spáð var í maí. Hagvaxtarhorfur fyrir næstu tvö ár hafa hins vegar lítið breyst.

Heildarvinnustundum fjölgaði nokkuð á öðrum fjórðungi ársins og atvinnuleysi hélt áfram að minnka. Það var 2,8% að meðaltali á öðrum fjórðungi ársins og hefur ekki mælst svo lítið síðan haustið 2017. Þótt lausum störfum hafi heldur fækkað undanfarið eru áfram skýrar vísbendingar um töluverða spennu á vinnumarkaði. Grunnspáin gerir þó ráð fyrir að atvinnuleysi þokist smám saman upp í stig sem betur samræmist jafnvægi í þjóðarbúinu og verðstöðugleika.

Verðbólga hefur minnkað undanfarið og mældist 7,6% í júlí og er því komin á sama stig og hún var á í maí í fyrra. Hjöðnun verðbólgu í júlí litast hins vegar mjög af sterkum grunnáhrifum vegna mikilla verðhækkana á sama tíma í fyrra sem nú falla úr árssamanburðinum. Undirliggjandi verðbólga minnkaði einnig en þó hægar en mæld verðbólga og mældist 6,7%. Áhrif innfluttra verðhækkana hafa minnkað, m.a. vegna hækkunar á gengi krónunnar undanfarið, en innlendar verðhækkanir hafa reynst þrálátari. Launavísitala hækkaði um 10% milli ára á öðrum fjórðungi ársins og verð á dagvöru og almennri þjónustu hefur hækkað áfram. Þá hafa verðbólguvæntingar til meðallangs og langs tíma lítið breyst þótt hjöðnun verðbólgu í júlí hafi verið umfram væntingar. Verðbólguhorfur til lengri tíma hafa því lítið breyst frá því í maí.

Þótt framboðshlið heimshagkerfisins virðist að mestu komin í eðlilegt horf eftir áföll undanfarinna ára er sem fyrr mikil óvissa um alþjóðlegar efnahagshorfur og hversu kostnaðarsamt það mun reynast að tryggja aftur verðstöðugleika í helstu iðnríkjum. Það á ekki síður við hér á landi enda virðist kjölfesta verðbólguvæntinga hafa laskast. Verðbólga gæti því reynst þrálátari en nú er spáð sem kalla myndi á meiri samdrátt innlendra efnahagsumsvifa til að ná tökum á henni á ný

Höfundur: Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands og framkvæmdastjóri sviðs hagfræði og peningastefnu.

Til baka