Upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar
Með lögum nr. 25/2023 um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar öðluðust tvær reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins lagagildi hér á landi hinn 1. júní 2023. Annars vegar er um að ræða reglugerð (ESB) 2019/2088 um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu (SFDR-reglugerðin) og hins vegar (ESB) 2020/852 um að koma á ramma til að greiða fyrir sjálfbærri fjárfestingu (flokkunarreglugerðin). Seðlabankinn hefur eftirlit með hlítni eftirlitsskyldra aðila við lögin.1
SFDR-reglugerðin
SFDR-reglugerðin á við um aðila á fjármálamarkaði og fjármálaráðgjafa. Aðilar á fjármálamarkaði eru meðal annars verðbréfafyrirtæki, rekstrarfélög verðbréfasjóða og rekstraraðilar sérhæfðra sjóða. Reglugerðin kveður á um með hvaða hætti áhætta tengd sjálfbærni er felld inn í fjárfestingarákvarðanatökuferli eða í fjárfestingarráðgjafarferli, þegar vátryggingarráðgjöf er veitt, hvernig áhætta tengd sjálfbærni fléttast inn í starfskjarastefnu og yfirlýsingu um hvort tillit sé tekið til helstu neikvæðu áhrifa fjárfestingarákvarðana á sjálfbærniþætti (e. principal adverse impact statement). Þá er upplýsingagjöf um fjármálaafurðir skipt í þrjá flokka í SFDR-reglugerðinni, eftir því hvort ekki sé sérstaklega horft til áhættu tengdri sjálfbærni (6. gr.), umhverfislegir eða félagslegir þættir séu efldir (8. gr.) og loks hvort sjálfbær fjárfesting sé höfð að markmiði (9. gr.). Þeirri mismunandi upplýsingagjöf sem fylgir sérhverri fjármálaafurð skv. framangreindri flokkun er ætlað að hjálpa fjárfestum að velja á milli mismunandi fjármálaafurða með hliðsjón af sjálfbærni þeirra. Upplýsingagjöfin er þannig aðgengileg fjárfestum áður en viðskipti eiga sér stað og einnig eftir að ráðist hefur verið í fjárfestingu, svo sem með árlegri skýrslugjöf.
Flokkunarreglugerðin
Með flokkunarreglugerðinni (e. Taxonomy Regulation) er lagður grunnur að samræmdu evrópsku flokkunarkerfi með skilgreiningum á því hvað teljist umhverfislega sjálfbær atvinnustarfsemi og er þess vænst að í því felist hvatning til umbreytingar í átt að sjálfbærni, svo loftslags- og umhverfismarkmiðum Evrópusambandsins verði náð. Þá er kerfinu ætlað að sporna við grænþvotti, en grænþvottur er tiltekin atvinnustarfsemi eða fjármálaafurð sem er markaðssett sem sjálfbær án þess að vera það. Reglugerðin setur viðmið til að mæla að hvaða marki atvinnustarfsemi teljist vera umhverfislega sjálfbær og er það mælt sem hlutfall af veltu, fjárfestingarútgjöldum eða rekstrarkostnaði. Skilgreining á umhverfislega sjálfbærri atvinnustarfsemi, eins og hún er sett fram í flokkunarreglugerðinni, er að starfsemin skuli stuðla verulega að einu eða fleiri af sex umhverfismarkmiðum, án þess að starfsemin skaði á sama tíma verulega nokkurt hinna fimm markmiðanna. Þá skal starfsemin vera í samræmi við lágmarksverndarráðstafanir varðandi samfélagsmál, s.s. mannréttindi. Fyrrnefnd umhverfismarkmið skv. flokkunarreglugerðinni eru: „mótvægi við loftslagsbreytingar, aðlögun að loftslagsbreytingum, sjálfbær notkun og verndun vatns og auðlinda sjávar, umskipti yfir í hringrásarhagkerfi, mengunarvarnir og -eftirlit, og vernd og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni og vistkerfa.“ Á yfirlitssíðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um flokkunarkerfið er meðal annars að finna áttavita flokkunarkerfisins (e. EU Taxonomy Compass) með sjónrænni framsetningu á innihaldi flokkunarkerfisins. Áttavitanum er ætlað að gera innihald reglugerðarinnar aðgengilegra fyrir notendur flokkunarkerfisins. Notendur geta þannig kannað hvaða atvinnustarfsemi flokkunarkerfið nær utan um, hvernig sú starfsemi stuðlar að umhverfismarkmiðum kerfisins og hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að atvinnustarfsemi teljist umhverfislega sjálfbær.
Höfundur: Þröstur Bergmann, verkefnastjóri í háttsemiseftirliti Seðlabanka Íslands. Efni þessarar greinar er innblásið af rammagrein eftir sama höfund sem birtist í sjálfbærniskýrslu Seðlabanka Íslands fyrir 2022.
Neðanmáls:
1. Ársreikningaskrá fer þó með eftirlit með því að tilteknir aðilar birti upplýsingar skv. 8. gr. flokkunarreglugerðarinnar