Peningamál í hnotskurn
Hagvöxtur hélt áfram að gefa eftir í helstu viðskiptalöndum er leið á síðasta ár. Hagvaxtarhorfur hafa heldur versnað frá því í nóvember í flestum þeirra utan Bandaríkjanna en þar hefur hagvöxtur verið umfram væntingar. Alþjóðleg verðbólga hefur minnkað áfram og undirliggjandi verðbólga einnig en þó hægar. Stríðsátökin fyrir botni Miðjarðarhafs gætu hægt á hjöðnun alþjóðlegrar verðbólgu, m.a. í ljósi hækkunar flutningskostnaðar undanfarið.
Hagvöxtur hér á landi mældist 4,2% á fyrstu þremur fjórðungum ársins sem var í takt við nóvemberspá Peningamála. Töluvert dró úr hagvexti er leið á þriðja ársfjórðung og var hann 1,1% á fjórðungnum sem er heldur minni vöxtur en spáð var í nóvember. Talið er að hagvöxtur hafi aukist lítillega á ný á síðasta fjórðungi ársins og að hann hafi verið 3,6% á árinu öllu sem er svipað og spáð var í nóvember. Innlend eftirspurn virðist hins vegar hafa gefið hraðar eftir en þá var talið og er meginástæða þess að spáin um hagvöxt fyrir þetta ár hefur verið færð niður: nú er spáð 1,9% hagvexti á árinu öllu en í nóvember var spáð 2,6% vexti. Hagvaxtarhorfur fyrir næstu tvö ár hafa hins vegar á heildina litið lítið breyst.
Atvinnuleysi hefur þokast upp frá miðju síðasta ári, hægt hefur á fjölgun starfa og vísbendingar eru um að spennan sem hefur verið í þjóðarbúinu undanfarin tvö ár sé að minnka. Grunnspáin gerir ráð fyrir að atvinnuleysi haldi áfram að aukast í ár og slaki taki að myndast í þjóðarbúinu undir lok ársins.
Heldur dró úr verðbólgu í desember og enn frekar í janúar sl. þegar hún mældist 6,7%. Undirliggjandi verðbólga hefur einnig minnkað en verðbólguvæntingar haldast enn nokkuð yfir markmiði. Verðbólguhorfur hafa batnað nokkuð enda er útlit fyrir að hraðar dragi úr vexti efnahagsumsvifa en spáð var í nóvember. Á móti vega horfur á meiri hækkun launakostnaðar á spátímanum en þá var gert ráð fyrir. Nú er talið að verðbólga verði komin í markmið á seinni hluta árs 2026 sem er ríflega hálfu ári fyrr en þá var búist við.
Ástandið í alþjóðlegum efnahagsmálum er sem fyrr tvísýnt, ekki síst vegna stríðsátaka í Úkraínu og fyrir botni Miðjarðarhafs. Hagvöxtur í helstu viðskiptalöndum hefur verið lítill og óvissa er um hversu traustum fótum hann hvílir á. Óvissa hér á landi hefur einnig aukist í kjölfar eldsumbrota á Reykjanesskaga. Aðgerðir stjórnvalda til að bregðast við þessum hamförum gætu breytt efnahagshorfum frá því sem grunnspáin gerir ráð fyrir en erfitt er að meta áhrifin fyrr en umfang og útfærsla þeirra liggur fyrir. Niðurstaða yfirstandandi kjaraviðræðna og mögulegar aðgerðir í ríkisfjármálum þeim tengdar gætu einnig leitt til breytinga á efnahagsog verðbólguhorfum miðað við það sem grunnspáin gerir ráð fyrir. Þá er það áhyggjuefni að verðbólguvæntingar haldist háar sem gæti valdið því að erfiðara reynist að ná verðbólgu niður í markmið en grunnspáin gerir ráð fyrir.
Höfundur: Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands og framkvæmdastjóri sviðs hagfræði og peningastefnu.
Greinin birtist í Peningamálum 2024/1
Neðanmáls:
Greiningin sem hér birtist byggist á mati bankans á þróun efnahagsmála frá útgáfu Peningamála 2023/4 í nóvember sl. og þeirri uppfærðu spá sem hér er birt. Hún er byggð á gögnum sem lágu fyrir í byrjun febrúar. Áhættumat uppfærðrar spár byggist á áhættumati nóvemberspárinnar.