Seðlabanki Íslands hefur gefið út sérrit um lánþegaskilyrði og fjármálastöðugleika. Lánþegaskilyrðum er ætlað að takmarka áhættutöku heimila og styrkja viðnámsþrótt þeirra gagnvart óvæntum áföllum. Óhófleg hækkun fasteignaverðs og skulda heimila eykur hættuna á því að verðfall á íbúðum leiði vanskila hjá íbúðaeigendum og á endanum til útlánataps hjá lánveitendum. Aukið útlánatap dregur úr vilja lánveitenda til að lána sem getur leitt til víxlverkunar milli samdráttar í heildareftirspurn, minnkandi efnahagsumsvifa, frekari lækkunar eignaverðs og aukins útlánataps. Aukinn viðnámsþróttur heimila dregur úr líkum á því að slík víxlverkun verði. Lánþegaskilyrði gegna lykilhlutverki hvað þetta varðar.
Ritinu er ætlað að lýsa beitingu lánþegaskilyrða hér á landi með heildstæðum hætti og setja þau í alþjóðlegt og fræðilegt samhengi í ljósi reynslu síðustu ára. Ritinu er ætlað að vera gagnlegt innlegg í umræðu um skilyrðin, beitingu þeirra og hlutverk við stjórn efnahagsmála.
Ritið er hið tuttugasta í röð Sérrita bankans.