Stöðugt verðlag
Stöðugt verðlag dregur úr ýmsum kostnaði, minnkar óvissu og kemur í veg fyrir neikvæðar efnahagslegar og félagslegar afleiðingar. Mikil og sveiflukennd verðbólga getur haft þær afleiðingar að verðskyn neytenda slævist sem dregur úr því aðhaldi sem samkeppni veitir. Mikil og breytileg verðbólga gerir það jafnframt að verkum að fyrirtæki eiga erfiðara með að taka réttar fjárfestingarákvarðanir. Rannsóknir benda einnig til þess að mikil verðbólga geti leitt til minni hagvaxtar þegar horft er til lengri tíma.
Sýna allt
Neikvæðar afleiðingar verðbólgu
Slæmar afleiðingar verðbólgu eru margvíslegar. Tilheyrandi verðbólgusveiflur gera almenningi og fyrirtækjum erfitt að greina á milli breytinga á hlutfallslegu verði einstakra afurða og almennrar verðbólgu. Verðskyn slævist en það er einmitt grundvallarforsenda virkrar samkeppni. Erfiðara verður að áætla framtíðarþróun verðlags en það torveldar skynsamlegar ákvarðanir um fjárfestingu og aðra ráðstöfun fjármuna. Slík óvissa dregur úr upplýsingagildi verðbreytinga og takmarkar getu markaðsbúskaparins til að ráðstafa takmörkuðum gæðum á skilvirkan hátt. Samspil verðbólgu og skattkerfisins eykur þessa óskilvirkni enn frekar. Skattkerfið hefur t.d. tilhneigingu til að hygla neyslu dagsins í dag á kostnað neyslu í framtíðinni (þ.e. sparnaðar) og fjárfestingu í íbúðarhúsnæði á kostnað annars konar fjárfestingar. Þessi áhrif skattkerfisins eru því meiri sem verðbólga er meiri. Mikil verðbólga eykur einnig félagslegan ójöfnuð og dregur úr þjóðfélagslegri samstöðu. Tekjur færast frá almennum sparifjáreigendum til fagfjárfesta sem hafa svigrúm til þess að verja sig gegn verðbólgunni, frá lágtekjuhópum til hátekjuhópa og frá leigjendum til húseigenda svo að eitthvað sé nefnt. Því fylgja togstreita og átök á milli tekjuhópa og er sá leikur ójafn sem fyrr segir. Mikilli verðbólgu og verðbólgusveiflum fylgja því óheppilegar efnahagslegar og félagslegar afleiðingar og því alvarlegri sem verðbólgan verður meiri og varanlegri. Söguleg reynsla bendir jafnframt til þess að kostnaðurinn við að ráða niðurlögum slíkrar verðbólgu geti verið verulegur í glötuðum hagvexti og tekjum. Sá tímabundni kostnaður er hins vegar lítill miðað við hið varanlega tap sem fylgir viðvarandi verðbólgu. Af þessum sökum hefur seðlabönkum verið sett það höfuðmarkmið að halda verðbólgu í skefjum. Ítarlegri umfjöllun um peningastefnuna má lesa í grein Þórarins G. Péturssonar, „Hlutverk peningastefnunnar“ sem birtist í Peningamálum 2007/3.
Hvers vegna er verðbólgumarkmiðið 2½%?
Mikil og sveiflukennd verðbólga hefur slæmar afleiðingar fyrir þjóðarbúskapinn. Hún getur dregið úr fjárfestingu og atvinnutækifærum og aukið á ójöfnuð í samfélaginu. Of lítil verðbólga getur að sama skapi verið skaðleg. Þar sem fyrirtæki eiga jafnan erfitt með að lækka nafnlaun minnkar geta fyrirtækja til að borga laun ef söluverð á vörum þeirra og þjónustu hækkar of lítið eða lækkar. Fyrirtæki yrðu því að ráða færri starfsmenn eða jafnvel grípa til uppsagna til að draga úr launakostnaði. Þannig veldur of lítil verðbólga því að sveiflur aukast frekar í atvinnustigi þegar efnahagsáföll dynja yfir sem er kostnaðarsamt fyrir samfélagið. Hið sama má segja um raunvexti þar sem erfitt er að lækka nafnvexti langt undir 0%.
Markmið um 0% verðbólgu eykur hættuna á því að tímabilum verðhjöðnunar fjölgi. Langvarandi verðhjöðnun veldur því að óverðtryggðar skuldir verða meiri að raunvirði og raungreiðslubyrði útistandandi lána eykst. Þar sem verð á vöru og þjónustu hefur lækkað en fjárhæð óverðtryggðra lána breytist ekki með verðlagi þarf að framleiða og selja fleiri vörur og þjónustu til að geta greitt lánið. Fólk þarf því í raun að borga meira þrátt fyrir að krónutala lánsins hafi ekki breyst. Þetta getur valdið greiðsluerfiðleikum og þannig orsakað efnahagssamdrátt.
Heimili og fyrirtæki gætu jafnframt haldið að sér höndum með útgjaldaákvarðanir þar sem þau bíða eftir að verðlag lækki enn frekar. Fyrirtæki selja þá minna af vörum og þjónustu, bæði fyrirtæki í smásölu og framleiðslu, sem þýðir að tekjur þeirra og hagnaður minnkar. Fyrirtækin bregðast við með því að draga úr framleiðslu sinni og ráða færra fólk til starfa eða fækka starfsfólki. Atvinnuleysi verður þá meira en ella og tekjur þess fólks lækka sem veldur því að fólk kaupir enn minna af vörum og þjónustu o.s.frv. Þannig dýpkar efnahagssamdrátturinn enn meir. Sögulega hafa tímabil verðhjöðnunar skapað vandamál og erfitt getur reynst að eiga við vítahring verðhjöðnunar og efnahagssamdráttar.
Niðurstaðan er því að miða við að verðbólga sé lítil en nokkru yfir 0%. Í yfirlýsingu Seðlabanka Íslands og ríkisstjórnarinnar er þetta skilgreint sem 2½% verðbólga. Það er í takt við önnur þróuð ríki þar sem markmiðið er jafnan á bilinu 2-2½%.Peningastefna og verðlagsstöðugleiki
Almennt er talið að þegar verðbólga er tiltölulega lítil og stöðug hafi peningastefnan til langs tíma aðeins áhrif á nafnstærðir, eins og t.d. verðbólgu, nafnvexti og nafngengi, en ekki langtímavöxt raunstærða eins og hagvöxt og atvinnu. Til langs tíma ákvarðar peningastefnan því fyrst og fremst peningalegt virði þeirra, þ.e. almennt verðlag. Verðbólga gefur til kynna hvernig peningalegt virði þessara eigna breytist yfir tíma, þ.e.a.s. hvernig kaupmáttur peninga gagnvart þeim breytist. Það er í þessum skilningi sem verðbólga er sögð peningalegt fyrirbæri.
Mikilvægasta viðfangsefni peningastefnunnar er að stuðla að verðstöðugleika og er það í raun meginframlag hennar til almennrar velferðar á Íslandi. Verðbólguvæntingar eru einn mikilvægasti áhrifaþáttur verðbólgu. Trúverðug peningastefna er lykilforsenda þess að skapa verðbólguvæntingum trausta kjölfestu og þess að hægt sé að draga úr hagsveiflum á Íslandi. Stefnan verður árangursríkari eftir því sem markmið hennar eru skýrari og hinn lagalegi rammi hennar styður betur við meginmarkmiðið.