logo-for-printing

Þjóðhagsvarúð

Þjóðhagsvarúð snýr að því að varðveita stöðugleika fjármálakerfisins í heild, með því að takmarka kerfisáhættu. Meginmarkmið þjóðhagsvarúðar er að viðhalda stöðugleika fjármálakerfisins, styrkja viðnámsþrótt og lágmarka þannig hættu á fjármálaáföllum. Til að meta viðnámsþrótt fjármálakerfisins beitir Seðlabankinn meðal annars álagsprófum og sviðsmyndagreiningum á helstu áhættuþætti. Sé tilefni til að takmarka uppsöfnun áhættu í kerfinu er hægt að beita þar til gerðum stjórntækjum, sem nefnast þjóðhagsvarúðartæki. Þar á meðal eru reglur um eiginfjárauka á fjármálafyrirtæki, gjaldeyrisjöfnuð, laust fé og stöðuga fjármögnun og reglur sem takmarka þá áhættu sem lántakendur mega taka, svo sem takmarkanir á veðsetningarhlutföllum og greiðslubyrði fasteignalána í hlutfalli við tekjur. Fjármálastöðugleikanefnd ákveður beitingu þjóðhagsvarúðartækja. Nefndin byggir ákvarðanir sínar á greiningu á stöðu fjármálakerfisins, fjármálamarkaða og hagkerfisins í heild, kerfisáhættu og viðnámsþrótti gagnvart mögulegum áföllum.