Eiginfjáraukar voru fyrst settir á hér á landi árið 2016. Eiginfjáraukar eru eiginfjárkröfur sem hægt er að gera til fjármálafyrirtækja umfram lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn. Eiginfjáraukum er ætlað að auka viðnámsþrótt fjármálafyrirtækja og draga úr hættunni á lánsfjárskorti þegar áföll verða í hagkerfinu. Þegar slík áföll verða geta væntingar um tap á eignum fjármálafyrirtækja aukist verulega. Þá er hætt við að þau dragi um of úr framboði lánsfjár til að gæta að eigin stöðu. Eiginfjáraukarnir eru breytilegar og sveigjanlegar eiginfjárkröfur. Afleiðingar og viðurlög gegn brotum á þeim eru vægari en þegar um er að ræða brot á lágmarkskröfum um eiginfjárgrunn.
Í Sérriti Seðlabanka Íslands nr. 15/2021 er leitast við að útskýra núgildandi regluverk um eiginfjárkröfur og sætta ólík sjónarmið um beitingu eiginfjárauka og annarra eiginfjárkrafna með þjóðhagslega hagkvæmni að leiðarljósi.
Kveðið er á um eiginfjárauka í X. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Þeir eiginfjáraukar sem hafa verið innleiddir hér á landi eru kerfisáhættuauki, eiginfjárauki fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki, sveiflujöfnunarauki og verndunarauki. Fjallað er um gildandi hlutföll eiginfjárauka, samanlagða kröfu um eiginfjárauka og hvern eiginfjárauka fyrir sig hér að neðan.
Í 83. gr. og 83. gr. e laga um fjármálafyrirtæki eru almenn ákvæði um eiginfjárauka og samanlagða kröfu um eiginfjárauka.
Með samanlagðri kröfum um eiginfjárauka er, eftir því sem við á, átt við samanlagða kröfu eftirfarandi eiginfjárauka:
Verndunarauki
Sveiflujöfnunarauki
Eiginfjárauki fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki
Kerfisáhættuauki
Samanlagðri kröfu um eiginfjárauka skal fullnægt með almennu eigin fé þáttar 1 (e. common equity tier 1, CET1) samkvæmt 2. kafla I. bálks 2. hluta reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 (CRR), sbr. 83. gr. a laga um fjármálafyrirtæki. Hin samanlagða krafa um eiginfjárauka er reiknuð af áhættugrunni samkvæmt 3. mgr. 92. gr. CRR. Fjármálafyrirtæki skal viðhalda samanlagðri kröfu um eiginfjárauka á samstæðu-, undirsamstæðu- eða einingargrunni eftir því sem við á, sbr. 83. gr. c laganna.
Af samanlagðri kröfu um eiginfjárauka ber fyrst að fullnægja kröfu um kerfisáhættuauka, síðan kröfu um eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki, því næst kröfu um sveiflujöfnunarauka og loks kröfu um verndunarauka, sbr. 83. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Röðun eiginfjáraukanna endurspeglar hversu alvarlegum augum er litið á það ef fjármálafyrirtæki viðheldur þeim ekki. Því mætti segja að kerfisáhættuaukinn sé harðasti eiginfjáraukinn og verndunaraukinn sá mýksti. Viðhaldi fjármálafyrirtæki ekki samanlagðri kröfu um eiginfjárauka takmarkast eftir atvikum meðal annars ráðstöfun hagnaðar, útgreiðsla arðs, endurkaup eigin hluta og kaupaukagreiðslur, sbr. 86. gr. m – 86. gr. o laga um fjármálafyrirtæki, auk þess skal það útbúa og afhenda áætlun um verndun eigin fjár, sbr. 86. gr. s laganna.
Ákvæði X. kafla laga um fjármálafyrirtæki gilda almennt ekki um verðbréfafyrirtæki. Á hinn bóginn eru verðbréfafyrirtæki, sem skylt er að hafa innborgað stofnframlag sem nemur að lágmarki jafnvirði 730 þús. evra í íslenskum krónum, skyldug til að viðhalda eiginfjáraukum nema að þau fullnægi báðum eftirfarandi skilyrðum:
Ársverk eru færri en 250.
Ársvelta samkvæmt ársreikningi er ekki meiri en jafnvirði 50 millj. evra í íslenskum krónum eða eignir samkvæmt ársreikningi eru ekki meiri en jafnvirði 43 millj. evra í íslenskum krónum.
Tegundir eiginfjárauka
Markmið kröfu um hinn lögbundna verndunarauka er að varðveita aukið eigið fé og efla viðnámsþrótt fjármálafyrirtækis. Þannig hafi fjármálafyrirtæki viðbótar eigið fé sem þau geta nýtt til að mæta útlánatapi án þess að áframhaldandi starfsemi skerðist, einkum framboð lánsfjár.
Kveðið er á um verndunarauka í 84. gr. og 84. gr. a laga um fjármálafyrirtæki. Þar kemur fram að hlutfall verndunarauka skuli nema 2,5% af áhættugrunni fjármálafyrirtækis. Kröfunni skal fullnægt með almennu eigin fé þáttar 1. Fjármálafyrirtæki skal viðhalda aukanum á samstæðu-, undirsamstæðu- eða einingargrunni eftir því sem við á.
Markmið kröfu um sveiflujöfnunarauka er að styðja við fjárhagslegan styrk fjármálafyrirtækis og vinna gegn því að aðgengi að lánsfé skerðist óhóflega á álagstímum sem gæti magnað áhrif efnahagsáfalla á fjármálakerfið og efnahagslífið. Hlutfall sveiflujöfnunarauka skal taka mið af sveiflutengdri kerfisáhættu. Við mat á henni skal litið til skuldasveiflu, einkum fráviks hlutfalls skulda af vergri landsframleiðslu frá langtímaleitni, áhættu sem stafar af óhóflegum vexti skulda hér á landi og annarra viðeigandi þátta. Sérstaklega skal tekið tillit til sérkenna íslensks efnahags.
Um álagningu sveiflujöfnunarauka er kveðið í 85. gr. – 85. gr. f laga um fjármálafyrirtæki. Þar kemur fram að Seðlabankanum sé heimilt að setja reglur um sveiflujöfnunarauka að undangengnu samþykki fjármálastöðugleikanefndar. Nefndin hefur samþykkt viðmið við ákvörðun um gildi sveiflujöfnunarauka þar sem fram kemur að jákvætt hlutlaust gildi aukans skuli að öllu jöfnu nema 2-2,5% af áhættugrunni vegna innlendra áhættuskuldbindinga.
Sveiflujöfnunarauki skal jafngilda áhættugrunni fjármálafyrirtækis margfölduðum með vegnu meðaltali hlutfalls sveiflujöfnunarauka í þeim ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) þar sem útlánaáhættuskuldbindingar fjármálafyrirtækisins eru staðsettar. Upplýsingar um hlutföll virkra sveiflujöfnunarauka á EES má nálgast á vefsíðu Evrópska kerfisáhætturáðsins (ESRB).
Almennt skal sveiflujöfnunarauki vegna áhættuskuldbindinga hér á landi nema 0–2,5% af áhættugrunni fjármálafyrirtækis, en má þó vera hærri ef áhættuþættir sem liggja til grundvallar mati á gildi sveiflujöfnunarauka gefa tilefni til. Hlutfallið skal vera margfeldi af 0,25 prósentustigum. Kröfunni skal fullnægt með almennu eigin fé þáttar 1. Fjármálafyrirtæki skal viðhalda aukanum á samstæðu-, undirsamstæðu- eða einingargrunni eftir því sem við á.
Ákvörðun um hækkun á hlutfalli sveiflujöfnunarauka skal taka gildi eigi síðar en tólf mánuðum eftir ákvörðunina, nema óvenjulegar aðstæður réttlæti að ákvörðunin taki gildi fyrr. Á hinn bóginn skal lækkun hlutfalls sveiflujöfnunarauka taka gildi þegar í stað.
Hlutfall sveiflujöfnunarauka skal endurskoða a.m.k. ársfjórðungslega.
Fjármálafyrirtæki skal birta viðeigandi upplýsingar um sveiflujöfnunarauka í samræmi við 18. gr. laga um fjármálafyrirtæki, 440. gr. CRR, sem og reglugerð (ESB) 2021/637, sbr. reglur nr. 772/2023, um upplýsingaskyldu fjármálafyrirtækja.
Kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki eru þau sem vegna stærðar og eðlis starfsemi sinnar geta haft umtalsverð neikvæð áhrif á stöðugleika fjármálakerfisins og á raunhagkerfið lendi þau í erfiðleikum. Af þessum ástæðum og sakir þess að kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki eru almennt mikilvæg varðandi starfsemi fjármálainnviða og aðgang almennings að greiðsluþjónustu og eigin sparifé er opinbert öryggisnet um þau þéttara en ella og beinar og óbeinar ábyrgðir á skuldbindingum þeirra víðtækari. Það magnar freistnivanda sem birtist í því að þessi fyrirtæki gætu tekið meiri áhættu en hagkvæmt er fyrir fjármálakerfið í heild. Þar af leiðandi er þörf á regluverki, einkum í formi aukinna eiginfjárkrafna og virkara eftirlits en ella, sem vinnur á móti þessari tilhneigingu.
Um álagningu eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki er kveðið í 86. gr. c – 86. gr. f laga um fjármálafyrirtæki. Þar kemur fram að Seðlabankanum sé heimilt að setja reglur um eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki að undangengnu samþykki fjármálastöðugleikanefndar. Kröfunni skal fullnægt með almennu eigin fé þáttar 1. Fjármálafyrirtæki skal viðhalda aukanum á samstæðu-, undirsamstæðu- eða einingargrunni eftir því sem við á.
Eiginfjárauki fyrir kerfislega mikilvægt fjármálafyrirtæki skal nema 0–3% af áhættugrunni. Hlutfallið má þó vera hærra en 3% með samþykki fastanefndar EFTA-ríkjanna.
Með vísan til 85. gr. e laga um fjármálafyrirtæki, sbr. d-lið 13. gr. laga nr. 92/2019, um Seðlabanka Íslands, ákveður fjármálastöðugleikanefnd hvort fjármálafyrirtæki skuli teljast, á einingar-, undirsamstæðu- eða samstæðugrunni, eftir því sem við á, kerfislega mikilvægt hér á landi með tilliti til þess hvort það sé þess eðlis að starfsemi þess geti haft áhrif á fjármálastöðugleika. Matið skal taka mið af a.m.k. eftirfarandi viðmiðum [3]:
Stærð.
Mikilvægi fyrir efnahag EES eða Íslands.
Umfangi starfsemi yfir landamæri.
Samtengingu fjármálafyrirtækisins eða samstæðunnar við fjármálakerfið.
Endurskoða skal afmörkun á kerfislega mikilvægum fjármálafyrirtækjum og hlutfall eiginfjáraukans a.m.k. árlega.
Samanlagt hlutfall eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvægt fjármálafyrirtæki og kerfisáhættuauka má ekki vera hærra en 5% af áhættugrunni nema með samþykki fastanefndar EFTA-ríkjanna.
Fjármálafyrirtækin Arion banki hf., Íslandsbanki hf. og Landsbankinn hf. hafa verið skilgreind af fjármálastöðugleikanefnd sem kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki hér á landi frá árinu 2016.
Eiginfjárauki fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki á alþjóðavísu
Um eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki á alþjóðavísu fer samkvæmt 86. gr. – 86. gr. f laga um fjármálafyrirtæki. Þar kemur fram að Seðlabankanum sé heimilt að setja reglur um eiginfjárauka fyrir samstæðu fjármálafyrirtækis sem telst kerfislega mikilvægt á alþjóðavísu samkvæmt 86. gr. b laganna og reglugerð (ESB) nr. 1222/2014, sbr. reglur nr. 886/2022, um afmörkun á kerfislega mikilvægu fjármálafyrirtæki á alþjóðavísu, skuli viðhalda eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki á alþjóðavísu. Hlutfall aukans skal nema 1–3,5% af áhættugrunni. Ekkert fjármálafyrirtæki hér á landi hefur verið skilgreint sem kerfislega mikilvægt á alþjóðavísu.
Upplýsingar um kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki á EES og hlutföll eiginfjárauka á þau má nálgast á vefsíðu ESRB.
Markmið kröfu um kerfisáhættuauka er að koma í veg fyrir eða takmarka áhrif af kerfisáhættu, sem tengist grunngerð hagkerfisins og breytist lítið yfir tíma, á starfsemi fjármálafyrirtækis.
Um álagningu kerfisáhættuauka er kveðið í 86. gr. g – 86. gr. l laga um fjármálafyrirtæki. Þar kemur fram að Seðlabankanum sé heimilt að setja reglur um kerfisáhættuauka að undangengnu samþykki fjármálastöðugleikanefndar. Heimilt er að takmarka skyldu til að viðhalda kerfisáhættuauka við einn eða fleiri flokka fjármálafyrirtækja.
Hlutfall kerfisáhættuauka getur verið á bilinu 0-3% af áhættugrunni fjármálafyrirtækis eða ákveðnum flokki eða flokkum áhættuskuldbindinga.[4] Þegar ríkar ástæður eru til má hlutfallið vera hærra en 3% með samþykki ráðherra. Hlutfallið má þó ekki fara yfir 5% án þess að samþykki fastanefndar EFTA-ríkjanna sé einnig aflað. Hlutfallið skal vera margfeldi af 0,5 prósentustigum. Kröfunni skal fullnægt með almennu eigin fé þáttar 1. Fjármálafyrirtæki skal viðhalda aukanum á samstæðu-, undirsamstæðu- eða einingargrunni eftir því sem við á. Um samspil milli kröfu um kerfisáhættuauka og eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki, vísast til umfjöllunar um síðarnefnda aukann hér að framan.
Hlutfall kerfisáhættuauka skal endurskoða a.m.k. annað hvert ár.
Upplýsingar um hlutföll virkra kerfisáhættuauka á EES má nálgast á vefsíðu ESRB.
[1] Kerfisáhættuauki skal reiknast af öllum áhættuskuldbindingum hér á landi.
[2] Sveiflujöfnunarauki skal jafngilda áhættugrunni fjármálafyrirtækis margfölduðum með vegnu meðaltali hlutfalls sveiflujöfnunarauka í öðrum EES-ríkjum þar sem útlánaáhættuskuldbindingar þess eru staðsettar.