Yfirlýsing peningastefnunefndar 10. júní 2015
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,5 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 5%.
Samkvæmt nýbirtum þjóðhagsreikningum nam hagvöxtur 2,9% á fyrsta fjórðungi ársins, neysla og fjárfesting jukust um 6,4% og þjóðarútgjöld alls um tæplega 10%. Ásamt kröftugum bata á vinnumarkaði benda þessar tölur til að vöxtur efnahagsumsvifa sé áþekkur maíspá Seðlabankans.
Þótt verðbólga sé enn lítil hafa verðbólguhorfur versnað verulega miðað við síðustu spá Seðlabankans og verðbólguvæntingar hafa áfram hækkað. Nú eru horfur á að verðbólga verði meiri en bankinn spáði í maí, sem rekja má til þess að þegar hefur verið samið um mun meiri launahækkanir en gert var ráð fyrir í spá bankans.
Til þess að liðka fyrir kjarasamningum hefur ríkisstjórnin kynnt aðgerðir sem munu auka ríkisútgjöld og draga úr skatttekjum. Aðgerðirnar hafa enn sem komið er ekki verið fjármagnaðar og fela því að öðru óbreyttu í sér slökun á aðhaldi í ríkisfjármálum. Einnig hafa verið kynntar aðgerðir stjórnvalda er miða að því að búa í haginn fyrir losun fjármagnshafta. Sumar þeirra munu afla ríkissjóði tekna sem mikilvægt er að verði ráðstafað þannig að það verði ekki til þess að auka enn frekar á spennu í þjóðarbúskapnum með því að virkja peningamagn sem til þessa hefur verið óvirkt. Peningastefnunefndin mun fylgjast grannt með framvindunni og grípa til viðeigandi aðgerða til mótvægis ef þörf krefur.
Í yfirlýsingum nefndarinnar undanfarið hefur ítrekað verið bent á að miklar launahækkanir og sterkur vöxtur eftirspurnar gætu grafið undan nýfengnum verðstöðugleika og valdið því að hækka yrði vexti á ný. Horfur um þróun launakostnaðar, hækkun verðbólguvæntinga og vísbendingar um öflugan vöxt eftirspurnar valda því að óhjákvæmilegt er að bregðast nú þegar við versnandi verðbólguhorfum þrátt fyrir að verðbólga sé enn undir markmiði. Enn fremur virðist einsýnt að hækka þurfi vexti umtalsvert í ágúst og frekar á komandi misserum eigi að tryggja stöðugt verðlag til lengri tíma litið.
Vextir Seðlabanka Íslands verða samkvæmt þessu sem hér segir:
Daglán: 6,75%
7 daga veðlán: 5,75%
7 daga bundin innlán: 5,00%
Viðskiptareikningar: 4,75%
Nr. 14/2015
10. júní 2015