Könnun á væntingum markaðsaðila
Seðlabanki Íslands kannaði væntingar markaðsaðila dagana 22. til 24. apríl sl. Leitað var til 36 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana, fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar og tryggingafélaga. Svör fengust frá 29 aðilum og var svarhlutfallið því 81%.
Helstu niðurstöður
Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að markaðsaðilar vænti þess að verðbólga verði að meðaltali 5,9% á yfirstandandi ársfjórðungi. Það er lítillega minni verðbólga en þeir væntu í síðustu könnun en væntingar til verðbólgu lækkuðu á alla mælikvarða milli kannana. Markaðsaðilar gera ráð fyrir að verðbólga verði 4,6% að ári liðnu en í síðustu könnun í janúar væntu þeir þess að hún yrði 5,3%. Þá búast þeir við að verðbólga verði 4% eftir tvö ár, 3,8% að meðaltali á næstu fimm árum og 3,5% að meðaltali á næstu tíu árum. Könnunin gefur til kynna að markaðsaðilar búist við litlum breytingum á gengi krónunnar á næstu misserum og að gengi evru gagnvart krónu verði 150 krónur eftir eitt ár.
Miðað við miðgildi svara í könnuninni búast markaðsaðilar við því að meginvextir bankans hafi náð hámarki í 9,25%. Þeir gera ráð fyrir að meginvextir taki að lækka á þriðja fjórðungi ársins sem er seinna en búist var við í síðustu könnun. Þá gera þeir ráð fyrir að meginvextir lækki hægar en í síðustu könnun og verði 7,75% eftir eitt ár og 6% eftir tvö ár.
Hlutfall þeirra sem töldu taumhald peningastefnunnar of mikið jókst áfram milli kannana og var 62% samanborið við 42% í janúarkönnuninni. Á móti fækkaði þeim sem töldu taumhaldið hæfilegt í 34% en var 42% í síðustu könnun og þeim sem töldu taumhaldið of laust fækkaði milli kannana í 3% úr 15% í janúar.
Dreifing svara markaðsaðila um væntingar til verðbólgu minnkaði á flesta mælikvarða frá síðustu könnun en dreifing svara um væntingar til vaxta jókst hins vegar á flesta mælikvarða frá síðustu könnun.
Markaðsaðilar voru einnig spurðir um hvaða áhrif þeir telji að ný aðferðafræði Hagstofu Íslands við útreikning á húsnæðisliðnum í vísitölu neysluverðs sem verður innleidd í júní nk. hafi á verðbólgu til skamms tíma. Um 68% svarenda búast við því að verðbólga verði meiri en ella og flestir þeirra tóku fram að það væri vegna þess að íbúðaverð hefði hækkað langt umfram leiguverð á undanförnum misserum og gæti hækkun fasteignaverðs því komið fram í hærra leiguverði á næstunni. Um 18% svarenda búast við því að verðbólga mælist minni en ella vegna breyttrar aðferðafræði. Þá tók hluti svarenda fram að þeir búast við því að breytingin leiði til þess að sveiflur tengdar húsnæðisverði minnki.
Sjá væntingakönnunina hér: Væntingakönnun markaðsaðila á 2. ársfjórðungi 2024
Sjá hér eldri spurningar og sérstakar spurningar: Eldri spurningar og sérstakar spurningar.
Frekari upplýsingar um könnun á væntingum markaðsaðila má finna hér: Væntingakönnun markaðsaðila.