Seðlabankinn framkvæmir peningastefnuna einkum með því að hafa áhrif á vexti á peningamarkaði, fyrst og fremst í gegnum ákvörðun vaxta í viðskiptum sínum við lánastofnanir, sem síðan hafa áhrif á aðra markaðsvexti. Meginvextir (stundum kallaðir stýrivextir) Seðlabankans eru þeir vextir í þessum viðskiptum við lánastofnanir sem ráða mestu um framvindu skammtímavaxta á markaði og þar með aðhaldsstigi peningastefnunnar. Þessir vextir eru nú vextir á sjö daga bundnum innlánum lánastofnana í Seðlabankanum.
Það getur verið breytilegt frá einum tíma til annars hvaða vextir Seðlabankans hafa mest áhrif á aðra skammtímavexti og teljast þar með meginvextir hans. Fyrir fjármálakreppuna haustið 2008 voru meginvextir bankans vextir á lánum Seðlabankans gegn veði til lánastofnana, þ.e. svokölluð veðlán. Eftir fjármálakreppuna hefur eftirspurn lánastofnana eftir fyrirgreiðslu frá Seðlabankanum hins vegar verið takmörkuð og lánastofnanir lagt þeim mun meira inn á reikninga í bankanum. Því hafa vextir á innlánsformum bankans verið áhrifameiri um vaxtaþróun á peningamarkaði frá árinu 2009.
Hér fyrir neðan eru gögn um vexti Seðlabankans og með því að smella á „Skoða gögn“ má nálgast upplýsingar um fleiri vaxtaraðir.
Vextir miðast við nafnvexti sbr. vaxtatilkynningu 21. maí 2025.
Peningastefnunefnd ákvað að samræma birtingu vaxta þannig að allir vextir verði framvegis birtir sem nafnvextir. Breytingin tók gildi 20. nóvember 2024 og hefur eingöngu áhrif á vexti á viðskiptareikningum í Seðlabankanum.
| Tímabil: | Meginvextir |
|---|---|
| Til og með 7. apríl 2009 | Vextir á lánum gegn veði |
8. apríl 2009 til 29. september 2009 | Vextir á viðskiptareikningum |
30. september 2009 til 20. maí 2014 | Einfalt meðaltal vaxta á viðskiptareikningum og hámarksvaxta á innstæðubréfum með 28 daga binditíma |
| Frá 21. maí 2014 | Vextir á 7 daga bundnum innlánum |
Vextir á millibankamarkaði með krónur (%)
Seðlabankinn hættir skráningu 9 og 12 mánaða REIBOR-vaxta
Upplýsingar um vexti erlendis
Hér að ofan má m.a. finna vexti til viðmiðunar vegna umreiknings á lánum skv. 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu með síðari breytingum í lögum nr. 151/2010.
Mánaðarlegar vaxtatilkynningar (tilkynningar um dráttarvexti og vexti af peningakröfum) má finna á síðunni Fréttir og tilkynningar.
Frá 01.12.25 | 15,00% |
Lýsigögn
Umsjón
Vaxtaviðmið í íslenskum krónum (IKON)
Seðlabankinn reiknar út og hefur birt IKON vaxtaviðmið (Icelandic Króna OverNight), sem eru vextir á ótryggðum innlánum hjá upplýsingaskyldum aðilum í viðskiptum í íslenskum krónum til einnar nætur (O/N), daglega frá 1. apríl 2022. Vextirnir eru reiknaðir út frá samningum sem fjármálafyrirtækin gera við viðskiptavini sína þegar tekið er við innstæðum á föstum kjörum í fastar tímalengdir. IKON vextir eru ólíkir REIBOR-vöxtum að því leyti að þeir byggja á raunverulegum viðskiptum en ekki á tilboðum líkt og REIBOR-vextirnir.
Nánari upplýsingar um vextina er að finna á svæði markaðsviðskipta.
3.12.2025 | 6,936% |
Leiðrétting
Leiðrétting 17. nóvember 2023
Í nóvember voru birtar leiðréttar upplýsingar um IKON vexti og veltu á 15 dagsetningum frá ársbyrjun 2022. Ástæða leiðréttingarinnar var hugbúnaðavilla sem reiknaði vægi einstakra viðskipta rangt í 15 skipti. Upplýsingar um vextina ásamt veltu hafa verið leiðréttar, en umrædd hugbúnaðarvilla hafði í för með sér að vaxtagildin í umrædd 15 skipti reiknuðust ögn lægri en ella, um 0,002 til 0,037 prósentur. Dagsetningarnar sem um ræðir eru merktar sérstaklega í gögnum.
Umsjón
Fastir lánstímavextir (FLV)
Markmið með birtingu þessara vaxta er að sýna á hverjum degi hver fjármögnunarkostnaður ríkissjóðs er til ákveðins lánstíma en hann myndar grunn vaxtamyndunar á fjármálamarkaðnum fyrir almenna lántaka, fyrirtæki, sveitarfélög og banka. Opinber birting þessara vaxta kann m.a. að nýtast aðilum á fjármálamarkaði, greiningaraðilum og ríkissjóði og stuðlar á hlutlausan og staðlaðan hátt að gagnsæi, ásamt betri samanburði og verðlagningu íslenskra fjármálaafurða.
Birtir eru tvenns konar fastir lánstímavextir:
- Par-vextir sem sýna á hverjum degi hvaða vexti og ávöxtunarkröfu ný vaxtagreiðslubréf ríkissjóðs til 3, 5 og 10 ára myndu bera ef þau væru gefin út þann daginn á pari, þ.e. á verðinu 100. Þessir vextir sýna hvaða fjármögnunarkostnaði ríkissjóður stendur frammi fyrir til valinna lokagjalddaga ríkisskuldabréfa á hverjum degi, og nefnast einnig fastir lánstímavextir ríkisskuldabréfa (FLVR). Á ensku er þetta þekkt sem „constant maturity treasury”, skammstafað CMT.
- Eingreiðsluvextir sem sýna hver ávöxtunarkrafa nýrra ríkisskuldabréfa með engar vaxtagreiðslur (eingreiðslubréf) væri ef þau væru gefin út þann daginn til fasts lánstíma 3, 5 og 10 ára. Unnt er að nota þessa vexti m.a. til að núvirða framtíðar greiðsluflæði.
Ofangreindir vextir eru ekki vextir eiginlegra útgefinna ríkisskuldabréfa heldur sýna þeir reiknaða vexti vaxtagreiðslubréfa annars vegar og eingreiðslubréfa hins vegar miðað við ákveðinn fastan lánstíma byggða á útgefnum ríkisskuldabréfum sem eru skráð á skipulegum markaði í Kauphöllinni (Nasdaq Iceland).
Spurt og svarað
Aðferðafræði við að reikna fasta lánstímavexti
Við útreikning á föstum lánstímavöxtum þarf að byggja á brúun milli ávöxtunarkröfu útgefinna skuldabréfa sem eru með óreglulega gjalddaga. Seðlabankinn notast við aðferðarfræði sem gengur út á það að með kauptilboðum í ríkisskuldabréf í Kauphöllinni er byggt upp eingreiðsluvaxtaróf frá grunni samhliða framvirkum vöxtum sem eru brúaðir með einhallandi kúpt aðferðinni (e. monotone convex). Vaxtarófið er svo kvarðað að raunveruleikanum með þrepun (e. bootstrap method), og ítrunaraðferð (e. iteration) punkt fyrir punkt, þar sem hver punktur samsvarar gjalddaga ríkisskuldabréfa. Með þessu verða til sléttir og samfelldir vaxtaferlar án óeðlilegra sveiflna. Par-vextir eru síðan leiddir af eingreiðsluvaxtarófinu en bæði vaxtarófin sýna vexti á hverjum tímapunkti til lokagjalddaga og eru reiknaðir á ársgrunni miðað við raun/raun (e. actual/actual) dagareglu í samræmi við íslensk ríkisskuldabréf.
Hvern viðskiptadag aflar Seðlabankinn upplýsinga um hagstæðustu kauptilboð útgefinna ríkisskuldabréfa sem skráð eru í Kauphöllinni og eru með viðskiptavakt. Upplýsingar eru fengnar úr Kauphöllinni kl. 15:25, þ.e. við lokun markaða. Viðskiptadagur er virkur dagur þegar lánastofnanir og verðbréfamiðstöðvar eru almennt opnar á Íslandi.
Útreikningar á föstum lánstímavöxtum byggja á skráðum íslenskum ríkisskuldabréfum með vaxtagreiðslum í Kauphöllinni og með viðskiptavakt, en þó með neðangreindum undantekningum:
- Skuldabréf með lokagjalddaga innan við 2 ár eru undanskilin frá útreikningum á verðtryggða rófinu. Ástæðan er sú að verð stuttra verðtryggðra skuldabréfa er oft sveiflukennt, m.a. vegna árstíðasveiflna í verðbólgu, auk þess sem verðmyndun þeirra getur verið óskilvirk.
- Skuldabréf með lokagjalddaga innan við 4 mánuði eru undanskilin frá útreikningum á óverðtryggða rófinu. Ástæðan er sú að munur kaup- og sölukröfu fer vaxandi eftir því sem lánstíminn styttist sem býr til meiri sveiflur og minnkar seljanleika.
- Á bæði óverðtryggða og verðtryggða rófinu þar sem innan við ár er á milli lokagjalddaga skuldabréfa, er valið það bréf sem talið er vera með virkari verðmyndun en hitt undanskilið úr útreikningunum. Ástæðan er sú að slík bréf mæla u.þ.b. sama hluta vaxtarófsins en litlar innbyrðis hreyfingar, sem teljast e.t.v. óverulegar út frá verði, geta haft töluverð áhrif á lögun rófsins í námunda við þessa tvo punkta, þ.e. áhrif sem teljast fremur aðferðafræðileg eða tæknileg.
- Stysti endi verðtryggða vaxtarófsins er ekki vel skilgreindur út frá markaðsgögnum, sbr. lið 1 að ofan. Aðferðafræðin sem notast er við ákvarðar stutta endann út frá tveimur stystu verðtryggðu ríkisskuldabréfunum.
- Stysti endi óverðtryggða rófsins er ákvarðaður út frá vöxtum á 7 daga bundnum innlánum Seðlabanka Íslands.
Eingöngu er miðað við raunveruleg kauptilboð með ríkisskuldabréf skráð á Kauphöllinni á viðmiðunardegi og á viðmiðunartíma kl. 15:25. Ef kauptilboð sem lagt er fram fyrir þann tíma dettur út, eru notuð síðustu kauptilboð fyrir kl. 15:25. Sé ekkert kauptilboð til fyrir þann dag, fellur viðkomandi bréf út úr útreikningi þann dag. Lágmarksstærð kauptilboðs í þessu sambandi miðast við lágmarkstilboð að nafnvirði, vegna hvers flokks ríkisskuldabréfa í samræmi við skuldbindingar í aðalmiðlarasamningum í tengslum við útgáfu ríkisverðbréfa og viðskiptavakt á eftirmarkaði, sem finna má á heimasíðu Lánamála ríkisins.
Einungis eru felld niður inntaksgögn sem teljast augljósar villur (e. manifest errors). Kauptilboð eru útilokuð ef (i) lykilreiti vantar eða eru ótækir, (ii) viðskiptamerki/tegund gefur til kynna ógildingu eða leiðréttingu Kauphöllinni, (iii) tímastimpill er utan viðmiðunartíma eða utan viðskiptadags, eða (iv) bréf er utan hæfs lista eða hefur ekki rétta grunneiginleika á viðmiðunardegi (t.d. gjalddaga, dagareglu eða upplýsingar um verðtryggingu).
Ekki er beitt tölfræðilegri útlagasíu (e. outlier) né er útlagagildi skipt út fyrir mörk (þak/gólf). Kauptilboð er aðeins útilokað þegar framangreind skilyrði að ofan eiga ótvírætt við. Allar útilokanir eru merktar í atvikaskrá með ástæðu, sönnun og áhrifamati. Ef áhrif á birta vexti eru sýnileg er sett stutt athugasemd í daglega tækninótu. Ef útilokanir leiða til þess að engin hæf kauptilboð liggja til grundvallar er beitt ferli um frestun/bráðabirgðagildi.
Seðlabankinn endurskoðar aðferðafræði á útreikningi á föstum lánstímavöxtum reglulega og áskilur sér rétt til þess að aðlaga, breyta og/eða bæta hana ef þörf þykir og í samræmi við birta aðferðafræði.
Allar nánari upplýsingar um frestun á birtingu fastra lánstímavaxta, bráðabirgðaferli vegna gagnaskorts og leiðréttingar, atvikaskráningu, tilkynningar, úttektir og varðveislu gagna, ásamt ferli við breytingar á aðferðafræði við föstum lánstímavöxtum, yfirsýn og meðferð kvartana; má finna hér: Nánari upplýsingar um umgjörð FLV
Fyrirspurnir og ábendingar vegna birtingar á föstum lánstímavöxtum (FLV) má senda á netfangið sedlabanki@sedlabanki.is.
Fyrirvari við birtingu á föstum lánstímavöxtum (FLV)
Birting á föstum lánstímavöxtum (FLV), ásamt öðrum gögnum og upplýsingum á þessu vefsvæði, er eingöngu framkvæmd í upplýsingaskyni. Seðlabankinn tekur ekki ábyrgð á notkun efnisins í öðrum tilgangi, þar með talið, og án takmörkunar, til útreiknings á fjármálagerningum, vera grundvöllur viðskiptatækifæra eða til annarrar ráðgjafar um verðlagningu fjármálagerninga eða ákvörðunar um fjárfestingar.
Seðlabankinn leitast við að halda öllu efni um FLV réttu og í samræmi við nýjustu upplýsingar, og beitir viðeigandi ráðstöfunum til að uppfæra þetta vefsvæði að jafnaði á hverjum viðskiptadegi fyrir kl. 11:00 að staðartíma á Íslandi. Uppfærsla á föstum lánstímavöxtum kann að tefjast innan birtingardags eða færast til næsta viðskiptadags, s.s. vegna tæknilegra ástæðna.
Seðlabanki Íslands ber enga ábyrgð á villum eða ónákvæmni í efni þessa vefsvæðis, né heldur á töfum við uppfærslur. Seðlabankinn ber jafnframt ekki ábyrgð á aðgerðum eða ákvörðunum sem teknar eru í trausti til framangreindra upplýsinga, þar á meðal, en án takmörkunar, tilvísunum í ákvæðum skilmála eða samninga eða fjárfestingarákvörðunum notenda þessa vefsvæðis. Seðlabankinn hafnar sérstaklega allri ábyrgð, beinni og óbeinni, um nákvæmni efnisins eða hæfi þess til notkunar í tilteknum tilgangi.
Þá tekur Seðlabanki Íslands hvorki ábyrgð á, né staðfestir, efni frá öðrum aðilum, sem ýmist er tengt við efni á vefsvæði þessu eða sem liggur því til grundvallar, hvorki varðandi réttleika eða nákvæmni; né ber Seðlabankinn ábyrgð á endurbirtingu eða annarri dreifingu á efninu á öðrum vefsvæðum eða með öðrum miðlum.