28. apríl 2021
Ákvörðun Seðlabanka Slóvakíu um brot NOVIS og úrbótakröfur
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (Fjármálaeftirlitið) vísar til fyrri frétta sem birst hafa um ákvarðanir Seðlabanka Slóvakíu (Národná banka Slovenska, NBS) varðandi NOVIS Versicherungsgesellschaft, NOVIS Compagnia di Assicurazioni, NOVIS Poisťovňa a.s. (NOVIS), nú síðast 25. febrúar 2021.NBS birti fréttatilkynningu 27. apríl 2021 um ákvörðun vegna brots vátryggingafélagsins NOVIS sem lýtur að fjárfestingu iðgjalda (e. investment infringement) í samræmi við skilmála vátryggingasamninga.
Vettvangsathugun NBS hefur leitt í ljós að NOVIS braut gegn skyldum sínum með því að fjárfesta ekki mótteknum iðgjöldum viðskiptavina að fullu samkvæmt vátryggingarsamningum. Í ljósi þessa hefur NBS meðal annars gert þá úrbótakröfu að NOVIS fjárfesti öllum iðgjöldum í samræmi við samningana. NBS gerði áður kröfu um framangreint með bráðabirgðaákvörðun í september 2020. NBS hyggst birta upplýsingar um aðrar úrbótakröfur sem ákvörðun NBS felur í sér síðar á þessu ári, eða 11. maí, 1. júlí og 1. október 2021.
Fjármálaeftirlitið hefur unnið náið með NBS, EIOPA og öðrum lögbærum yfirvöldum á sérstökum samstarfsvettvangi þar sem fjallað hefur verið um málefni sem tengjast varfærnis- og viðskiptaháttaeftirliti með starfsemi NOVIS.
Fréttatilkynningu og ákvörðun NBS er að finna á vefsíðu Seðlabanka Slóvakíu. Frétt EIOPA um málið er að finna á vefsíðu stofnunarinnar.
Fyrri fréttir Fjármálaeftirlitsins um NOVIS eru frá 25. febrúar 2021, 13. nóvember 2020, 23. október 2020, 29. september 2020 og 18. september 2020.
Seðlabankinn hefur tekið saman upplýsingar til íslenskra neytenda vegna stöðu NOVIS.