Var til betri leið í bankahruninu á Íslandi?
Seðlabanki Íslands kynnir málstofu um „Viðbrögð við bankahruninu á Íslandi: var til betri leið?“, sem verður haldin kl. 15:00, föstudaginn 8. febrúar nk. í Sölvhóli, fyrirlestrarsal Seðlabanka Íslands.
Frummælendur verða Þorsteinn Þorgeirsson og Paul van den Noord. Fyrirlesturinn verður á ensku.
Bankahrunið á Íslandi í október 2008 var eitt það stærsta í nútíma fjármálasögu. Ísland var jafnframt fyrsta landið til að lenda í fjármálakreppu sem hófst árið 2006, en einnig það fyrsta til að byrja að reisa sig við eftir hrunið. Viðbrögð stjórnvalda við hruninu, með aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og nágrannaríkja, áttu þátt í að takmarka skaðann og búa í haginn fyrir endurreisn efnahagslífsins.
Í þessari málstofu munu Þorsteinn Þorgeirsson, ráðgjafi seðlabankastjóra, og Paul van den Noord, ráðgjafi aðalhagfræðings og aðstoðarframkvæmdastjóra OECD, kynna niðurstöður rannsókna á því hvaða áhrif það hefði haft ef stjórnvöld hefðu gripið til annarra úrræða við að bregðast við hruninu.
Fjórar mögulegar sviðsmyndir með keyrslum í tveimur samverkandi þjóðhagslíkönum verða skoðaðar og áhrif metin fyrir opinber fjármál, hagvöxt, atvinnuleysi og aðrar hagstærðir á tímabilinu 2009-2025, hefðu stjórnvöld ákveðið að:
1) beita hagvaxtarhvetjandi fjármálastjórn hins opinbera,
2) láta krónuna falla án þess að grípa til fjármagnshafta,
3) greiða vaxtakostnað af Icesave-samningnum eins og upphaflega var gert ráð fyrir og
4) bjarga íslensku bönkunum með hliðsjón af írsku leiðinni.
Niðurstöðurnar verða bornar saman við þá leið sem farin var.