logo-for-printing

21. maí 2014

Breytingar á stjórntækjum peningastefnunnar

Peningastefnunefnd 2012
Peningastefnunefnd hefur á undanförnum fundum nefndarinnar fjallað um breytingar á stjórntækjum peningastefnunnar. Markmið fyrirhugaðra breytinga er að auka virkni lausafjárstýringar bankans og stuðla eftir því sem mögulegt er að meiri hagkvæmni út frá efnahag hans. Þá eiga þær að búa í haginn fyrir þær breytingar sem munu verða á umhverfi peningastefnunnar við fyrirhugaða eignasölu Eignarhaldsfélags Seðlabanka Íslands (ESÍ) og losun fjármagnshafta. Peningastefnunefnd samþykkti á fundi sínum 20. maí 2014 tillögu seðlabankastjóra um breytingar í þessa átt. Frekari breytingar eru til skoðunar innan bankans sem gætu komið til framkvæmda síðar.

Í samræmi við ofangreint og 24. grein laga um Seðlabanka Íslands hefur peningastefnunefnd ákveðið að breyta stjórntækjum peningastefnunnar með eftirfarandi hætti:

• Vikulegum útboðum 28 daga innstæðubréfa verður hætt, en fjármálafyrirtækjum í viðskiptum við Seðlabanka Íslands þess í stað boðin tvenns konar bundin innlán sem verða veðhæf í viðskiptum við Seðlabanka Íslands.
• Meginregla í viðskiptum Seðlabankans verður að ekki er boðið upp á innlán og útlán á sama tíma.
• Seðlabankinn mun eftirleiðis setja fjárhæðarmörk á veðlán eða bundin innlán sem bjóðast hverju sinni.
• Vikulega verða boðin bundin innlán til viku í senn sem bera fasta vexti.
• Fyrsta viðskiptadag reglulegra viðskipta hvers mánaðar verða boðin í útboði bundin innlán til mánaðar í senn. Fjármálafyrirtæki munu bjóða bæði fjárhæð og vexti í því útboði. Útboðinu verður þannig háttað að öll samþykkt tilboð munu bjóðast á hæstu vöxtum samþykktra tilboða. Fyrsta útboð verður haldið 4. júní næstkomandi.

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569-9600.

 

Nr. 14/2014
21. maí 2014

 

Til baka