logo-for-printing

01. september 2016

Moody’s hækkar lánshæfiseinkunn Íslands í A3 með stöðugum horfum

Bygging Seðlabanka Íslands

Matsfyrirtækið Moody’s hefur í dag hækkað lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins um tvö þrep í A3 úr Baa2. Horfur eru stöðugar. Með þessari ákvörðun er lokið endurskoðun til hækkunar sem hófst 10. júní, 2016.

Hér fyrir neðan fylgir lausleg þýðing á frétt Moody’s frá því í dag:

Hækkun um tvö þrep endurspeglar hraða og umfang bata þjóðarbúskaparins eftir bankakreppuna 2008. Samfelldur hagvöxtur og aðhald í ríkisfjármálum leiddi til verulegrar lækkunar á skuldum ríkissjóðs síðast liðið ár. Moody’s býst við að sú þróun haldi áfram og staðfestist með ráðstöfun fjármuna frá þrotabúum föllnu bankanna á næstu árum.Varfærin en stöðug framvinda í meðhöndlun á vandamálum bankakerfisins og losun hafta hefur verulega dregið úr áhættu fyrir efnahags- og fjármálastöðugleika í lokaáfanganum í losun hafta.

Stöðugar horfur endurspegla jafnvægi áhættuþátta sem Moody’s lítur til í einkunnagjöfinni næstu tvö árin. Þar vegast á jákvæð áhrif af hóflegum en stöðugum hagvexti ásamt áframhaldandi aðhaldi í ríkisfjármálum á móti áhættu af endanlegri losun hafta, mögulegum þrýstingi á efnahag og fjármál vegna mikils innflæðis fjármagns og spennu á vinnumarkaði auk framvindu í stjórnmálum.

Í skyldri aðgerð hækkaði Moody’s landaþak á útgáfu í innlendum og erlendum gjaldmiðli. Þak á skuldum og innstæðum í innlendri mynt var hækkað úr Baa1 í A1. Þak á skuldir í erlendum gjaldmiðli var hækkað í A3/P-2 úr Baa2/P-2 og þak á langtíma bankainnstæðu í erlendri mynt var hækkað í A3 úr Baa2. Þak á skammtíma bankainnstæður í erlendri mynt er óbreytt P-2.

Rökstuðningur fyrir hækkun einkunnar í A3

Fyrsti áhrifavaldur: Vænst er verulegra endurbóta á skuldastöðu ríkissjóðs

Mikil skuldalækkun Íslands hefur haldið áfram síðastliðið ár og Moody’s reiknar með áframhaldi á því næstu árin. Skuldastaða hins opinbera ætti að lækka niður fyrir 50% af VLF í lok árs 2017 og fara í um 40% af VLF árið 2020 frá 68,5% í lok árs 2015. Þetta samsvarar um það bil 75 prósentustiga falli frá hámarkinu 2011. Slík skuldahlutföll eru jafngóð eða betri en hjá A3 samanburðarlöndum.

Vonir um frekari lækkun skuldahlutfalls eru að mestu háðar ráðstöfun á eignum frá uppgjöri þrotabúi bankanna til uppgreiðslu skulda. Slíkar væntingar endurspegla einnig áframhaldandi aðhald í ríkisfjármálum sem er fastsett í fjárlögum til meðallangs tíma til samræmis við heildarfjárlög sem samþykkt voru í desember 2015 ásamt meðfylgjandi fjárlagareglu.

Hagstæð þróun skuldahlutfalls nýtur einnig öflugs hagvaxtar sem Moody’s spáir að verði 5% árið 2016 og 3,9% næsta ár, drifinn áfram af innlendri eftirspurn. Útflutningur nýtur enn bættrar samkeppnishæfni sem fékkst með gengisfalli gjaldmiðilsins er fjármálakreppan skall á og afgangur í viðskiptum við útlönd er mikill. Hluti af þessu forskoti hefur horfið með styrkingu krónunnar frá ársbyrjun 2015 og hreinn útflutningur dregur nú niður hagvöxt. Lykilgeirar gefa þó enn mikið af sér sérstaklega ferðaiðnaður sem hefur farið fram úr fiskiðnaði sem stærsti geiri hagkerfisins.

Nýleg gengishækkun og lægri eldsneytiskostnaður hafa hjálpað til við að halda verðbólgu niðri þrátt fyrir verulegar launahækkanir til margra ára sem samið var um í vaxandi framleiðsluspennu 2015. Að því sögðu eru merki um mögulega ofhitnun vegna hagvaxtar umfram framleiðslugetu samfellt í nokkur ár sem er mögnuð upp af verulegu innflæði fjármagns undanfarin ár. Stjórnvöld hyggjast taka á þessum áhættuþáttum að hluta með því að hrinda lokaáfanganum í losun hafta í framkvæmd.

Annar áhrifavaldur: Minni áhætta vegna varfærni við losun hafta

Lánshæfisþróun Íslands hefur ekki haldið í við undirliggjandi bata í þjóðarbúskapnum eftir fjármálaáfallið. Ástæðan er hætta sem enn steðjaði að efnahagslífi og fjármálastöðugleika vegna flókinna aðgerða til að losa gjaldeyrishöft sem sett voru á 2008. Þessi þáttur, sem leiddi til hækkunar á lánshæfiseinkunn nú, endurspeglar væntingar Moody’s um að losun hafta muni ganga hnökralaust fyrir sig og án þess að raska efnahags- og fjármálastöðugleika.

Lokið er fyrstu tveimur áföngum í losun hafta. Uppgjöri þrotabúa föllnu bankanna lauk seint á árinu 2015. Í júní 2016 hélt Seðlabankinn uppboð á hluta gjaldeyrisforða síns fyrir aflandskrónur (aðallega krónueignir erlendra aðila sem voru læstar inn þegar höft voru sett á seint á árinu 2008 eftir fall gömlu bankanna), þar með var fjárhæð aflandskróna lækkuð. Álit Moody’s er að áhætta vegna aflandskróna í eigu fárra sé mjög takmörkuð þótt þær nemi 8% af VLF. Losun hafta á innlenda aðila mun hefjast strax og Alþingi hefur samþykkt lög þar að lútandi. Frekari losun hafta á innlenda aðila er áætluð 1. janúar 2017.

Moody’s væntir þess að losun hafta á innlenda aðila feli í sér takmarkaða áhættu fyrir íslenska hagkerfið og fjármálakerfið. Þjóðarsparnaður er mikill og erlend staða jákvæð, bæði á flæðigrunni (viðskiptajöfnuður) og á sjóðsgrunni (hrein alþjóðleg skuldastaða). Lausafjárstaða íslenskra banka er sterk og þeir hafa aðgang að erlendum og innlendum fjármagnsmörkuðum. Gjaldeyrisforði Seðlabankans er umfram viðmið AGS við upphaf losunar fjármagnshafta. Búast má við lækkunarþrýstingi á „innlenda“ gengið á næstu mánuðum en áhrif á verðbólgu verða trúlega frekar takmörkuð og gengislækkun mun bæta samkeppnisaðstöðu og minnka bilið á milli aflandskrónugengis og gengis innanlands.

Rökstuðningur fyrir stöðugum horfum

Stöðugar horfur endurspeglar jafnvægi áhættuþátta sem Moody’s lítur til í einkunnagjöfinni A3. Moody’s reiknar með að hagvöxtur á komandi árum verði hóflegur og njóti stuðnings af frekar losun hafta. Bætt regluverk mun væntanlega viðhalda eiginfjárstyrk og stöðugleika bankakerfisins og hindra umsvif erlendis á borð við þau sem urðu fyrir fjármálaáfallið.

Mótvægisáhættu er verið að mæta. Umtalsvert erlent fjármagn hefur flætt til landsins og er líklegt að það haldi áfram að gefnum hærri vöxtum, lágri verðbólgu og góðum horfum til framtíðar. Seðlabankinn brást við með því að setja flæðireglur (e. Capital Flow Mechanism) í júní sl. til að hindra skammtíma spákaupmennsku. Stjórnvöld eru meðvituð um mögulegan þrýsting vegna hás atvinnustigs og mikilla launahækkana sem samið var um á liðnu ári. Moody’s telur að í ljósi samstöðu sem einkennir íslensk stjórnmál (e. „consensus based politics“) muni framgangur Pírataflokksins ekki hafa afgerandi áhrif á stefnumótun í stjórnmálum landsins þótt hann auki nokkuð á óvissu um framtíðarstefnu eftir kosningarnar 29. október

Hvað getur breytt einkunnagjöfinni upp eða niður.

Moody’s gæti hækkað einkunn landsins: i) þegar höft á útflæði fjármagns hafa verið afnumin, þar á meðal á aflandskrónur, ii) ef þessu fylgir frekari lækkun ríkisskulda og skuldastöðu umfram væntingar í lok árs 2018 og iii) á þeirri forsendu að matsfyrirtækið vænti framhalds á að stjórnvöld stýri efnahagslífi og bankakerfi þannig að fyrri tíma þenslu- og samdráttarsveiflur og efnahagsójafnvægi endurtaki sig ekki.

Hins vegar gæti þrýstingur orðið á lækkun einkunnar landsins ef ójafnvægi í efnahag og fjármálum birtist á ný og ógnaði skuldastöðu, einkum ef Ísland þyrfti að grípa aftur til fjármagnshafta.

[Hagtölum sleppt úr frétt Moody’s]

Hinn 30. ágúst 2016 var haldinn fundur í lánshæfisnefnd til að fjalla um lánshæfiseinkunn Íslands. Í umræðunni var helst tekið til þess að stofnanastyrkur og umgjörð hafi ekki breyst að ráði. Ríkisfjármál og fjármálakerfi þar með talin skuldastaða hafi verulega styrkst. Þá hefur dregið úr áhættu. Mikill stofnanastyrkur styður við hnökralitla losun hafta.

Fréttatilkynningu Moody’s (á ensku) má nálgast hér.

 

Til baka