logo-for-printing

15. júní 2020

Yfirlýsing Seðlabanka Íslands vegna framlengds hlés á gjaldeyriskaupum lífeyrissjóða

Bygging Seðlabanka Íslands

Í samráði við Seðlabanka Íslands gerðu lífeyrissjóðir hlé á gjaldeyriskaupum til erlendra fjárfestinga frá 17. mars sl. Tilgangur þessa var að bregðast við miklum samdrætti útflutningstekna af völdum Covid-19 faraldursins og mögulegum þrýstingi á gengi krónunnar vegna hans. Ljóst er að þetta hlé hefur gegnt veigamiklu hlutverki í að viðhalda þjóðhagslegum stöðugleika í gegnum þær holskeflur sem skollið hafa á þjóðarskútunni síðustu 3 mánuði. Nú hefur verið ákveðið að framlengja hléið um aðra þrjá mánuði, eða til 17. september nk. Með þessu hafa lífeyrissjóðirnir á ný sýnt stuðning sinn í verki við að stuðla að stöðugleika á gjaldeyrismarkaði.

Undanfarin ár hefur Ísland breyst úr því að vera fjármagnsinnflytjandi með þrálátan viðskiptahalla í fjármagnsútflytjanda með drjúgan viðskiptaafgang. Þessi viðsnúningur stafar að miklu leyti af þeim sparnaði sem verður jafnt og þétt til í lífeyriskerfinu og hefur skapað nýjar forsendur til þess að viðhalda þjóðhagslegum stöðugleika. Það hefur sannarlega komið landinu til góða á síðustu mánuðum.

Það skal áréttað að erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna eru mjög mikilvægar þegar horft er fram á veginn, hvort sem litið er til hagsmuna sjóðfélaga eða þjóðarinnar í heild. Þær fela í sér áhættudreifingu lífeyriseigna og koma í veg fyrir neikvæð áhrif af útgreiðslu lífeyris á íslenskt hagkerfi í framtíðinni. Þá eru erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða nauðsynlegar til þess að viðhalda jafnvægi á greiðslujöfnuði við jákvæðan viðskiptajöfnuð, útflutningsdrifinn hagvöxt og sköpun nýrra starfa.

Seðlabankinn þakkar þá samfélagslegu ábyrgð sem lífeyrissjóðirnir hafa sýnt í þeim þrengingum sem þjóðin gengur nú í gegnum. Samvinna bankans og sjóðanna hefur vakið athygli erlendis og hefur m.a. verið sérstaklega tilgreind í nýlegum umsögnum alþjóðlegra matsfyrirtækja.

Þessi samvinna er kvik. Unnt verður að bregðast skjótt við ef aðstæður á gjaldeyrismarkaði breytast og svigrúm skapast fyrir sjóðina til þess að hefja erlendar fjárfestingar og gjaldeyriskaup þeim tengd á nýjan leik.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri

Frétt nr. 19/2020
15. júní 2020


Til baka