Frekari upplýsingar um skilyrði sölubanns NOVIS
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands vísar til fréttar frá 18. september síðastliðnum þar sem greint var frá tímabundnu banni við nýsölu vátryggingasamninga með fjárfestingaþætti sem Seðlabanki Slóvakíu (Národná banka Slovenska, NBS) hefur sett við nýsölu NOVIS Insurance Company, NOVIS Versicherungsgesellschaft, NOVIS Compagnia di Assicurazioni, NOVIS Poisťovňa a.s. (NOVIS) þar til tilgreind skilyrði hafa verið uppfyllt.
NBS hefur birt yfirlýsingu þar sem veittar eru nánari upplýsingar um ákvörðun NBS um tímabundið bann. Í yfirlýsingunni er farið yfir ástæðu, efni, gildissvið og -tíma hennar.
Ástæða þess að gripið er til þess að taka tímabundna ákvörðun sem takmarkar gerð nýrra vátryggingasamninga með fjárfestingaráhættu er rökstuddur grunur NBS um að NOVIS fjárfesti ekki iðgjöldum vátryggingataka í samræmi við skilmála þegar gerðra vátryggingasamninga, þ.e.a.s. svo að virði fjárfestinga dugi fyrir endurkaupavirði samninga komi til uppsagnar vátryggingataka.
Með ákvörðun NBS er nýsala bönnuð á meðan fjárfest iðgjöld eru lægri en endurkaupavirði. Ákvörðunin felur einnig í sér að NOVIS er skylt að fjárfesta öllum iðgjöldum þegar gerðra vátryggingasamninga í þágu vátryggingataka í samræmi við skilmála vátryggingasamninga.
Samkvæmt ákvörðun NBS er NOVIS gert að meta í lok hvers almanaksmánaðar hvort skilyrðum ákvörðunar sé fullnægt og senda gögn til NBS þar um. Meti félagið það svo í lok hvers mánaðar að skilyrðum ákvörðunarinnar sé fullnægt, er NOVIS heimilt að ljúka nýjum samningum frá upphafi til loka næsta mánaðar.
Í dag, 29. september 2020, hefur Fjármálaeftirlitinu ekki borist staðfesting frá NBS um að NOVIS hafi uppfyllt skilyrði ákvörðunarinnar. Þar af leiðandi liggur ekki fyrir hvort NOVIS geti gengið frá nýjum samningum.
Varðandi frekari upplýsingar vísar Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands til ákvörðunar NBS.
Nr. 34/2020
29. september 2020