logo-for-printing

07. október 2020

Yfirlýsing peningastefnunefndar 7. október 2020

Bygging Seðlabanka Íslands

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 1%.

Samkvæmt bráðabirgðatölum þjóðhagsreikninga reyndist hagvöxtur heldur þróttmeiri á fyrri hluta þessa árs en gert var ráð fyrir í ágústhefti Peningamála. Hins vegar benda hátíðnivísbendingar og kannanir til þess að hægt hafi á vexti eftirspurnar í lok sumars. Vegna aukinnar útbreiðslu veirunnar að undanförnu hafa efnahagshorfur versnað frá því sem gert var ráð fyrir í ágúst. Óvissan er hins vegar mikil og þróun efnahagsmála mun að töluverðu leyti ráðast af framvindu farsóttarinnar.

Verðbólga jókst milli fjórðunga á þriðja fjórðungi ársins og mældist 3,2% en það er heldur meira en spáð var í ágúst. Áhrifa gengislækkunar krónunnar á verð innfluttrar vöru gætir enn. Mikill slaki í þjóðarbúskapnum mun að óbreyttu leiða til þess að verðbólga hjaðnar þegar áhrif gengisveikingarinnar fjara út. Verðbólguvæntingar til meðallangs og langs tíma hafa hins vegar lítið breyst og virðist kjölfesta þeirra í verðbólgumarkmiði bankans halda.

Traustari kjölfesta verðbólguvæntinga hefur gert peningastefnunefnd kleift að bregðast við versnandi efnahagshorfum með afgerandi hætti. Lægri vextir og aðrar aðgerðir bankans sem gripið var til á vormánuðum hafa stutt við innlenda eftirspurn. Áhrif þeirra eiga þó eftir að koma fram að fullu og munu þær áfram styðja við þjóðarbúskapinn og stuðla að því að efnahagsbatinn verði hraðari en ella.

Peningastefnunefnd mun áfram fylgjast grannt með framvindu efnahagsmála og nota þau tæki sem nefndin hefur yfir að ráða til að styðja við þjóðarbúskapinn og tryggja að lausara taumhald peningastefnunnar miðlist með eðlilegum hætti til heimila og fyrirtækja.

Nr. 37/2020
7. október 2020

Sjá nánar: Vextir og bindiskylda við Seðlabanka Íslands.
Til baka