logo-for-printing

03. október 2023

Dómur kveðinn upp í máli Trygginga og ráðgjafar ehf. gegn Seðlabanka Íslands

Landsréttur kvað upp dóm í máli Trygginga og ráðgjafar ehf. gegn Seðlabanka Íslands síðastliðinn föstudag. Í málinu var tekist á um ákvörðun fjármálaeftirlitsnefndar frá 13. nóvember 2020 um að leggja stjórnvaldssekt að fjárhæð 35.000.000 króna á Tryggingar og ráðgjöf ehf. fyrir brot á lögum um vátryggingarsamninga og lögum um dreifingu vátrygginga.

Tryggingar og ráðgjöf höfðaði mál gegn Seðlabankanum og krafðist ógildingar á ákvörðun hans og til vara að stjórnvaldssektin yrði felld niður eða lækkuð verulega. Ágreiningur aðila fyrir dómstólum laut að því hvort Tryggingar og ráðgjöf hafi við dreifingu á afurðinni NOVIS Wealth Insuring brotið gegn ákvæðum þágildandi 1. og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, sbr. 1. mgr. 32. gr. laga nr. 62/2019 um dreifingu vátrygginga, með því að hafa ekki farið að fyrirmælum 45 viðskiptavina á því tímabili sem athugunin tók til um fjárfestingarkosti, tapþol og áhættustig fjárfestinga sem fram komu á þarfagreiningareyðublöðum og þannig ráðlagt þeim um fjárfestingarleið sem samræmdist ekki þörfum þeirra. Jafnframt laut ágreiningurinn að því hvort félagið hafi við dreifingu afurðarinnar brotið gegn þágildandi 3. mgr. 140. gr. f laga um vátryggingarsamninga með því að upplýsa ekki 125 viðskiptavini á pappírsformi eða öðrum varanlegum miðli um að ekki væri hægt að meta hvort ákveðin afurð, sem félagið hafði milligöngu um sölu á, samræmdist þörfum þeirra þar sem fullnægjandi upplýsingar um þekkingu og reynslu lágu ekki fyrir eða voru ófullnægjandi. Vakin er athygli á að gerðar hafa verið breytingar á framangreindum lagaákvæðum, sbr. lög nr. 82/2021, frá því að ákvörðun fjármálaeftirlitsnefndar í málinu lá fyrir.

Landsréttur féllst á að Tryggingar og ráðgjöf ehf. hefði gengið gegn kröfum og þörfum 45 viðskiptavina með því að dreifa fjárfestingu jafnt á alla sjóði NOVIS sem höfðu mishátt áhættustig þrátt fyrir að viðskiptavinirnir hefðu lýst því yfir að þeir teldu nauðsynlegt að fá höfuðstól greiðslna til baka í lok samningstíma, þótt ávöxtun yrði minni. Með því hafi Tryggingar og ráðgjöf ehf. brotið gegn þágildandi 1. og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, sbr. 1. mgr. 32. gr. laga nr. 62/2019 um dreifingu vátrygginga. Landsréttur vísaði til þess í niðurstöðu sinni að tilgangur og markmið laga um vátryggingarsamninga væri m.a. að tryggja að neytendur geti keypt vátryggingarafurð sem samræmist kröfum þeirra og þörfum.

Landsréttur féllst ekki á að þágildandi 3. mgr. 140. gr. f. laga um vátryggingarsamninga, sem kveður á um mat á tilhlýðileika, feli í sér skýra lagaskyldu Trygginga og ráðgjafar til að veita þeim viðskiptavinum skriflega viðvörun sem ekki veittu upplýsingar samkvæmt þágildandi 1. mgr. ákvæðisins eða veittu ófullnægjandi upplýsingar. Stæðu því ekki nægileg rök til álagningar stjórnvaldssektar á grundvelli brots gegn þágildandi 3. mgr. 140. gr. f. laga um vátryggingarsamninga.

Á grundvelli þessa var ákvörðun fjármálaeftirlitsnefndar Seðlabankans staðfest að hluta, en fjárhæð stjórnvaldssektar, sem fjármálaeftirlitsnefnd hafði lagt á Tryggingar og ráðgjöf ehf., lækkuð í 9.000.000 króna.

Dóminn í heild sinni má nálgast á vefsíðu Landsréttar.


Til baka