logo-for-printing

11. apríl 2024

Frekari upplýsingar vegna afturköllunar starfsleyfis NOVIS

Seðlabanki Íslands birti frétt 6. júní 2023 um ákvörðun  Seðlabanka Slóvakíu (Národná banka Slovenska, NBS), eftirlitsaðila NOVIS*, um að afturkalla starfsleyfi vátryggingafélagsins. Frekari upplýsingar um afturköllunina eru aðgengilegar á vefsíðu Seðlabanka Íslands, sem hafa verið uppfærðar.

Seðlabankinn vill vekja athygli á þeirri óvenjulegu stöðu sem málið er í. Þrátt fyrir að yfir 10 mánuðir séu liðnir frá því að starfsleyfi félagsins var afturkallað hefur slitastjóri enn ekki verið skipaður yfir félaginu.

NBS birti fréttatilkynningu 21. mars 2024  um stöðu málsins. Í henni kemur m.a. fram að NBS telji að skipan slitastjóra sé nauðsynlegt skref til að tryggja hagsmuni vátryggingartaka, en að ekki sé hægt að segja til um hvenær dómstólar komist að endanlegri niðurstöðu um skipan slitastjóra í ljósi annarra dómsmála sem rekin eru í tengslum við afturköllunina. Þar á meðal er dómsmál sem NOVIS hefur höfðað þar sem félagið krefst ógildingar á ákvörðun NBS um afturköllunina. Í fréttatilkynningu NBS kemur fram að yfirstandandi dómsmál hafi ekki áhrif á ákvörðun bankans um afturköllun starfsleyfisins og að hún standi enn.

Seðlabanki Íslands bendir á að heimildir NBS til að hafa eftirlit með NOVIS eru takmarkaðar nú þegar starfsleyfi félagsins hefur verið afturkallað. Almennt er gert ráð fyrir að slitastjóri sé skipaður í beinu framhaldi af afturköllun starfsleyfis, sem m.a. tekur yfir stjórn félagsins.

Staða þeirra sem hafa keypt vátryggingar NOVIS er því töluverðri óvissu háð og mun ekki skýrast fyrr en slitastjóri hefur verið skipaður. Gera þarf ráð fyrir þeim möguleika að það geti tafist enn frekar.

Í ljósi þeirrar fordæmalausu stöðu sem uppi er hvetur Seðlabanki Íslands vátryggingartaka hjá NOVIS til að fara yfir skilmála samninga sinna og kynna sér þau úrræði sem þeim standa til boða. Til dæmis er boðið upp á að taka hlé frá greiðslu iðgjalda, leysa hluta inneignar út eða leysa út alla inneign sem til staðar er með því að segja upp vátryggingarsamningi.

Þar sem um mismunandi vátryggingarsamninga er að ræða má vera ljóst að framangreind úrræði hentar vátryggingartökum misvel. Ákveði vátryggingartakar að notfæra sér úrræðin er jafnframt mikilvægt að hafa í huga að ákvæði skilmála vátryggingarsamninga kveða á um kostnað og gjöld sem dragast frá inneign vátryggingartaka.

Seðlabankinn fylgist áfram náið með málum tengd NOVIS og mun veita uppfærðar upplýsingar eftir því sem framvinda þeirra gefur tilefni til. Seðlabanki Íslands áréttar þó að hann er ekki í stöðu til að veita vátryggingartökum ráðgjöf um einstaka samninga og/eða hvort rétt er að nýta framangreind úrræði.

 

*NOVIS Insurance Company, NOVIS Versicherungsgesellschaft, NOVIS Compagnia di Assicurazioni, NOVIS Poisťovňa.


Til baka