logo-for-printing

07. október 2024

Ný rannsóknarritgerð um mat á verðbólguvæntingum og áhættuálagi út frá verðbólguálagi skuldabréfa


Seðlabanki Íslands hefur gefið út rannsóknarritgerðina „Extracting inflation expectations and risk premia from the breakeven inflation rate in Iceland“ eftir Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðing Seðlabankans.

Mismunur ávöxtunar á hefðbundnu óverðtryggðu skuldabréfi og sambærilegu verðtryggðu skuldabréfi – það sem jafnan er kallað verðbólguálag – er algengur mælikvarði á verðbólguvæntingar fjárfesta. En vaxtamunurinn inniheldur einnig tvenns konar áhættuþóknun sem getur gert verðbólguálagið að skekktu mati á verðbólguvæntingum. Í þessari grein eru undirliggjandi verðbólguvæntingar og áhættuþóknanir fjárfesta fyrir verðbólgu- og seljanleikaáhættu metnar út frá tveggja ára verðbólguálagi á Íslandi. Hinar metnu tveggja ára verðbólguvæntingar sveiflast mun minna en verðbólguálagið og eru yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans á meginhluta spátímans. Áhættuþóknanirnar tvær eru tiltölulega háar og breytilegar yfir tíma, sem sýnir að fara þarf varlega í að túlka verðbólguálagið sem hreint mat á verðbólguvæntingum. Í ljós kemur að þessir þrír undirþættir verðbólguálagsins bregðast með mismunandi hætti við óvæntri hækkun vaxta Seðlabankans. Vaxtahækkunin leiðir til hægfara en viðvarandi lækkunar á verðbólguvæntingum og verðbólguáhættuþóknuninni. Á móti vegur hins vegar tímabundin hækkun í lausafjáráhættuþóknuninni sem er í takt við svo kallaðan „áhættufarveg“ miðlunarferlis peningastefnunnar.

Sjá ritið hér: Extracting inflation expectations and risk premia from the breakeven inflation rate in Iceland
Til baka