logo-for-printing

28. nóvember 2024

Endurnýjunarkostnaður við Seðlabankann í samræmi við tilboð

Bygging Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands gerir athugasemdir við framsetningu á fréttaflutningi um kostnað við endurnýjun og lagfæringar á húsnæði Seðlabankans við Kalkofnsveg. Eins og áður hefur komið fram var ákveðið að fara í framkvæmdir fyrir tæpum hálfum áratug vegna nauðsynlegs viðhalds og sameiningar við Fjármálaeftirlitið. Líkt og fram kemur í svari sem birt var á vef Alþingis í vikunni er framkvæmdakostnaðurinn nánast í samræmi við þá samninga sem gerðir voru að loknum útboðum.

Það er rétt að hafa í huga að framkvæmdagrunnurinn er sá grunnur sem fæst í tilboðum/útboðum eftir að upphafleg kostnaðaráætlun liggur fyrir. Fyrsti fasi verkefnisins tókst einkar vel. Honum er að fullu lokið og var kostnaður umfram tilboð óverulegur, eða um 2%. Nú stendur yfir framkvæmd í viðbyggingu Seðlabankans og er því verki ólokið. Tilboð í verkið nam 1.926 milljónum króna og sem stendur er kostnaður við þá framkvæmd 1.802 milljónir króna.

Raunkostnaður með verðbótum er tæpir 3,2 milljarðar króna við fimm hæðir og viðbyggingu. Tilboðsverð var tæpir 3,1 milljarður króna. Á þessum tölum er tæplega fjögurra prósenta munur sem verður að engu þegar tekið hefur verið tillit til verðbóta.


Til baka