logo-for-printing

Nýtt rit um samvirkni peningalegs og fjármálalegs stöðugleika

Þorsteinn Þorgeirsson

Efnahagsmál nr. 9 með grein um „Samvirkni peningalegs og fjármálalegs stöðugleika“ eftir Þorstein Þorgeirsson hafa verið birt hér á vef Seðlabanka Íslands. Greinin er ætluð sem innlegg í faglega umræðu um stofnanalegt fyrirkomulag fjármálaeftirlits á Íslandi með áherslu á bættan árangur á sviðum peningalegs og fjármálalegs stöðugleika.

Í greininni er fjallað um hvernig þessi tvö verkefni voru í auknum mæli hugmyndafræðilega aðskilin á nýliðnum áratugum með áhrifum á stofnanagerð fjármálaeftirlits þannig að bankaeftirlit var tekið úr Seðlabanka Íslands og fært inn í sjálfstætt fjármálaeftirlit. Í framhaldinu er rakið hvernig fjármálakreppan leiddi til endurmats á hugmyndafræðinni á alþjóðavettvangi með hugmyndum um þjóðhagsvarúð og áherslu á endursameiningu þessara verkefna.

Sérstaklega er fjallað um rannsóknir sem benda til ávinnings af því að samþætta undirbúningsvinnu fyrir hinar sjálfstæðu stefnunefndir til að samræma betur stefnumótunina og auka árangur þeirra, með jákvæðum áhrifum einnig fyrir þjóðhagslegs stöðugleika. Þá er fjallað um hvernig útfæra má fjármálaeftirlit á vettvangi seðlabanka í tveggja turna líkani og helstu niðurstöður reifaðar.

Efnahagsmál nr. 9, með umfjöllun Þorsteins Þorgeirssonar um samvirkni peningalegs og fjármálalegs stöðugleika, eru aðgengileg hér.

Sjá hér nánari upplýsingar um útgefin rit Seðlabanka Íslands.

Til baka