logo-for-printing

29. september 1997

Ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans 1997

Sameiginlegir ársfundir Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 1997 voru haldnir í Hong Kong, Kína, dagana 23.-25. september sl. Aðildarríki stofnananna tveggja eru nú 181 að tölu og sóttu fundina og tengda fundi fulltrúar þeirra, m.a. ráðherrar, seðlabankastjórar og embættismenn auk fulltrúa fjölmargra fjármálastofnana.
Á fundunum var fjallað um ástand og horfur í heimsbúskapnum sem hefur einkennst af öflugum hagvexti og lágri verðbólgu víða um lönd. Umrót liðinna mánaða á fjármálamörkuðum Suðaustur-Asíu setti jafnframt svip á umræður.
Á fundunum voru m.a. teknar ákvarðanir um ýmis mál á vettvangi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hæst bar ákvörðun um 45% hækkun á stofnfé sjóðsins, svo kölluðum kvóta, til þess að mæta vaxandi fjárþörf vegna fyrirgreiðslu við aðildarríki, einkum þróunarlönd og ríki sem eru að hverfa frá miðstýringu í átt að frjálsum markaðsbúskap. Jafnframt var ákveðin úthlutun sérstakra dráttarréttinda (SDR) en þeim hefur ekki verið úthlutað síðan á árunum 1979 til 1981. Ríki sem hlotið hafa aðild að sjóðnum síðan hafa ekki fengið SDR í sinn hlut. Úr því verður bætt m.a. með hinni nýju úthlutun. Ennfremur var samþykkt að stefna að breytingum á stofnskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þannig að aðildarríkin skuldbindi sig til þess að afnema hömlur á fjármagnshreyfingum á milli landa.
Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin hafa með sér náið samstarf á vettvangi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans um málefni stofnananna. Birgir Ísl. Gunnarsson, Seðlabankastjóri, flutti á fundinum ræðu fyrir hönd þessara landa um viðfangsefni sjóðsins. Í ræðunni var m.a. fjallað um jákvæða almenna þróun í heimsbúskapnum að undanförnu, en jafnframt lögð áhersla á mikilvægi þess að viðhalda góðum hagvexti um leið og verðbólgu sé haldið í skefjum. Bent var á að víða sé þörf enn frekari skipulagsumbóta til þess að draga úr hömlum, auka viðskipti og hagkvæma ráðstöfun fjármagns. Vikið var að væntanlegum myntsamruna í Evrópu og áhrifum hans á peningakerfi heimsins. Þá var í ræðunni fjallað um hlutverk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í efnahagslífi aðildarríkjanna, þ. á m. eftirlitshlutverk sjóðsins hvað snertir heimsbúskapinn sem og einstök aðildarríki, eflingu á fjárhagsstöðu sjóðsins svo hann sé þess búinn að bregðast við óróa á fjármagnsmörkuðum og í heimsviðskiptum og vaxandi hlutverk sjóðsins hvað varðar fjármagnshreyfingar á milli landa. Ræða Birgis Ísl. Gunnarssonar fylgir hjálögð.
Í tengslum við ársfundina sat Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, fund þróunarnefndar Alþjóðabankans fyrir hönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Halldór er aðalfulltrúi Íslands í bankaráði Alþjóðabankans og Friðrik Sophusson, fjármálaráðherra, sem jafnframt sat ársfundina, er varafulltrúi. Birgir Ísl. Gunnarsson er aðalfulltrúi Íslands í sjóðráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Varafulltrúi er Halldór J. Kristjánsson, ráðuneytisstjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytum og sat hann einnig fundina.
Nánari upplýsingar veita formaður bankastjórnar Seðlabankans Birgir Ísl. Gunnarsson og Ingimundur Friðriksson aðstoðarbankastjóri í síma 569-9600.

Ræða Birgis Ísleifs Gunnarssonar

Nr. 26/1997
29. september 1997

 

Til baka